Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 14:39:39 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Okkur er nokkur vandi á höndum því að mér heyrist að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að efna eigi til stjórnlagaþings en eingöngu ef það getur gefið bindandi niðurstöðu en það er okkur ekki unnt að gera eins og stjórnarskráin lítur út í dag. Hv. þingmaður er því þeirrar skoðunar að breyta eigi stjórnarskránni en hún er ekki til í að breyta stjórnarskránni fyrr en búið er að breyta stjórnarskránni. Það er dálítið erfitt að fást við slíka röksemdafærslu vegna þess að málið blasir einfaldlega við með þessum hætti, stjórnarskráin heimilar okkur ekki að setja bindandi stjórnlagaþing. Sú er staðan.

Varðandi kostnaðinn þá finnst mér, eins og ég lýsti í máli mínu áðan, þetta vera eitt mikilvægasta skrefið í endurreisn samfélags okkar eftir algert hrun fjármálakerfisins sem hefur svo haft áhrif á traust almennings á stjórnmála-, viðskipta- og atvinnulífinu. Mér finnst þessum fjármunum vel varið sem eyða á í það að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá. Ég tel það gríðarlega mikilvægt verk og sé ekki eftir þeim peningum. Ég held að þeir séu nauðsynlegir, ég held að þetta sé nauðsynlegt skref fyrir okkur sem þjóð að stíga og ég geri ráð fyrir því að það muni kosta meira en 500 milljónir og sé ekki eftir þeim peningum heldur.