Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 14:41:15 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að þetta kom fram að þessum peningum væri vel varið. Þá skal það upplýst jafnframt að ráðgefandi stjórnlagaþing er einungis ráðgefandi og það vill svo til að þjóðin treystir ekki þeim stjórnvöldum sem nú sitja þannig að þegar þetta verður komið inn, eitthvert svokallað frumvarp, geta stjórnvöld sífellt verið með puttana í því og breytt því af því að þetta er ekki bindandi.

Mig langar til að spyrja á ný. Ég sit í allsherjarnefnd ásamt hv. formanni allsherjarnefndar. Þar liggur inni frumvarp frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um að ráðherrar skuli víkja af þingi og á það að byggjast á lögum um þingsköp. Er ríkisstjórnin ekki að fara svolítið fram úr sér með þessum ráðherrapælingum og hugmyndum um að það sé svo mikið vinnuálag á þeim sem sitja í meiri hlutanum að að fjarlægja þurfi ráðherrana af þingi og kalla inn varamenn, er þetta ekki t.d. það sem á að breyta í nýrri stjórnarskrá? Telur þingmaðurinn að það sé yfir höfuð hægt að vera að krukka í þessu á miðju kjörtímabili og ekkert í augsýn sem vísar til þess verið sé að breyta stjórnarskránni?