Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 14:42:33 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við áttum afar gott samtal, nefndarmenn í allsherjarnefnd, um frumvarp hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um viðveru ráðherra í þinginu. Ég held að það sé fullkomlega tímabært að taka þá umræðu. Við erum í sífellu að fást við valdmörk löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og ég held að á hvaða tíma sem er, hvort sem menn eru að fikta í stjórnlagaþingi, stjórnarskránni eða nokkru slíku, sé hollt fyrir okkur að ræða þá hluti, enda er það svo að í þeim tímaramma sem við erum að leggja hér upp eru nokkur ár, a.m.k. þrjú, í það að við getum tekið í gildi nýja stjórnarskrá, ef vel gengur. Ég sé því ekki hvernig það mál hv. þingmanns flækist í sjálfu sér nokkuð fyrir þeirri vinnu sem hér fer fram.