Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 14:46:14 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í ljósi þeirra ummæla sem féllu hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni um viðveru, eða viðveruleysi, hæstv. forsætisráðherra benda á að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ekki sést við þessa umræðu enn sem komið er. Ef minnið svíkur mig ekki voru þeir einnig mjög fáliðaðir hér þegar þetta mál var í 1. umr. Mér fyndist nú bragur á því ef a.m.k. fulltrúar Vinstri grænna í hv. allsherjarnefnd væru við þessa umræðu, í þessu mikilvæga máli.

Ég vil áður en ég rek sjónarmið þingmanna Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd aðeins bregðast við því nefndaráliti sem hv. formaður allsherjarnefndar fór yfir áðan og við ræðu hans almennt. Þá held ég að það sé í sjálfu sér áhugaverð umræða, og kannski umræða sem við ættum að taka í þessum sal en ekki vísa annað, hvaðan vald sé sprottið til þess að setja stjórnlög. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, um það deilir enginn, að það vald er hjá þjóðinni. Löggjafarvaldið sprettur auðvitað þaðan en þá hlýtur maður að álykta í framhaldi af því að það geti enginn annar aðili en löggjafarsamkundan tekið við því valdi og fært það til baka. Það getur ekki verið með öðrum hætti, það getur ekki verið þannig að ráðgefandi apparat, með fullri virðingu fyrir því, taki þetta vald. Það er bara ekki hægt. Og um það er kannski mesti ágreiningurinn eða skoðanaskiptin í hv. allsherjarnefnd í málinu.

Það er óþarfi um að deila og eyða mjög löngum tíma í það en allir flokkar og flestir þingmenn eru á þeirri skoðun að gera þurfi breytingar á stjórnarskránni. Við getum kannski verið ósammála um það hversu langt eigi að ganga á einstökum sviðum. Sumir vilja ganga lengra, aðrir skemur. Það er ekki deilumálið. Það sem við höfum verið að deila hér um, og þetta er ekki fyrsta þingið þar sem um þetta er deilt, við deildum mjög mikið um þetta á síðasta þingi, er það hvernig eigi að fara að því að breyta stjórnarskránni og einnig hvort við eigum að taka breytingaferli stjórnarskrár úr samráðs- og samvinnuferli yfir í það að verða deilumál milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það hefur mér kannski þótt það versta við allt þetta mál, alveg frá því í fyrravetur, að breytingar á stjórnarskrá skyldu lenda í ágreiningi á milli flokka um hvernig ætti að gera þær. Það finnst mér mikill skaði. Mér hefur þótt umræðurnar í hv. allsherjarnefnd á margan hátt mjög gagnlegar. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Róberti Marshall, okkur hefur að mörgu leyti miðað áfram. Ég er alveg sannfærð um að tíminn að þessu leyti hefði unnið með okkur og ég sé ekki af hverju við þurfum að afgreiða þetta mál núna á vorþinginu. Ég bara sé það ekki og ég held að það hafi einmitt verið vaxandi samhljómur á milli manna í nefndinni um það hvernig hægt væri að láta sjónarmið mætast með því að fela ákveðnum aðilum breytingar á stjórnarskrá en halda jafnframt því valdi hjá Alþingi að gera breytingar á stjórnarskipunarlögum.

Hér er mikið talað um virðingu Alþingis og það sett í samband við hrunið sem varð hér á landi. Það þarf ekki heldur að deila um það, það sjáum við í þjóðfélaginu, að við þurfum að skoða það hér í þessu húsi hvernig á því stendur að virðing og traustið er ekki meira en raun ber vitni. En ég er þeirrar skoðunar að hluti af þeim vanda öllum sé akkúrat það að alþingismenn ætla sér ekki að taka þá raunverulegu umræðu sem þarf um þetta grundvallarmál sem stjórnarskráin er. Hv. þm. Róbert Marshall fór yfir það dálítið í sinni ræðu hvaða atriði það hugsanlega gætu verið sem stjórnlagaþingið ætti að taka til greina, hvað ætti að skoða, nefndi þrígreininguna sjálfa, skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, ýmis atriði er varða atvinnuhluta stjórnarskrárinnar, hvort ætti að setja síðan inn ákvæði hvað varðar auðlindanýtingu o.s.frv. Mér finnst líka svolítið sérkennilegt ef hugsunin er sú að stjórnlagaþing eigi að taka að sér að endurskoða stjórnarskrá að við séum þá að gefa stjórnlagaþinginu einhver fyrirmæli. Ef við höfum einhverja skoðun á því hverju á að breyta hví getum við ekki tekið þá umræðu hér í þessu húsi? Hví þurfum við að segja stjórnlagaþinginu að það eigi að skoða þetta og ekki hitt? Okkur finnst t.d. koma til grein að þetta yrði skoðað, við teljum kannski að þetta eigi að vera með þessum hætti. Hví komum við þá ekki með þau sjónarmið hingað inn?

Það er slík umræða sem ég taldi að væri að þroskast í allsherjarnefnd. Það er nú bara þannig, hvað sem mönnum finnst um það, að það er eðli stjórnarskipunarlaga að þróast hægt og það er eðlilegt að það sé nokkuð erfitt að breyta stjórnarskrá. Um leið og hún þarf auðvitað að taka mið af því þjóðfélagi sem við búum í þarf hún líka að standa dálítið sér á báti. Hún þarf líka að veita aðhald því þjóðfélagi sem er á hverjum tíma. Hún þarf að vera hornsteinn um ákveðin grunngildi sem þjóðfélagið er sammála um. Þess vegna gerir stjórnarskráin ráð fyrir því að ekki sé hægt að breyta henni nema að kosið sé í millitíðinni eins og við þekkjum að ákvæði stjórnarskrárinnar mælir fyrir um. Þetta er svona grundvallaratriði um það hvernig við lítum á málið áður en við hefjumst síðan handa við að velta fyrir okkur hvernig við eigum að breyta henni.

Ég hef þess vegna mjög ríka sannfæringu fyrir því að við eigum að hugsa þetta mál með töluvert öðrum hætti en hér er gert. Og ég held að við alþingismenn ættum að segja við okkur og viðurkenna fyrir sjálfum okkur að við sitjum á stjórnlagaþingi. Hér er stjórnlagaþingið. Við getum þess vegna ákveðið að taka stjórnarskrána okkar til meðferðar með ákveðnum hætti á þessu löggjafarþingi og gefa til þess ákveðinn tíma, taka málið á dagskrá og reyna að fá hvern einstakan þingmann til að koma fram með þau sjónarmið sem honum finnst skipta máli þegar litið er til breytingar á stjórnarskránni.

Ég held að það sé of mikið óðagot á þessu máli. Mér fannst mjög oft mörg atriði í nefndinni enn óljós þegar við vorum að ræða þetta og ganga frá þessu. Eins og hv. þm. Róbert Marshall nefndi í framsögu og kemur fram í nefndarálitinu voru afar skiptar skoðanir um það hvernig kjósa skyldi á þetta stjórnlagaþing. Margir voru þeirrar skoðunar að það ætti að vera miklu fjölmennara, menn töluðu um slembiúrtak, menn töluðu um hvort verið væri að loka ákveðna hópa úti. Þessi umræða var enn þá í fullum gangi þegar ákveðið var að það þyrfti endilega að koma þessu út úr nefndinni og inn í þingið. Og mér þykir það miður, mér þykir miður að við skyldum ekki hafa gefið okkur þann tíma sem þurfti til þess að vita hvort við gætum nálgast betur.

Síðan var það svo að úti í samfélaginu höfðu jafnvel þeir menn sem höfðu talað fyrir stjórnlagaþingi áttað sig á því að það væri kannski rétt að leggja til aðrar leiðir til að mæta þeim sjónarmiðum sem uppi voru og til þess að reyna að ná mönnum saman. Ef það er ekki þörf á því núna fyrir okkur að sýna einhverja samstöðu um þetta mál veit ég ekki hvenær það er.

Ég nefni í því sambandi Njörð P. Njarðvík sem hefur haft miklar skoðanir uppi um stjórnlagaþing. Ég hef ekki deilt þeim sjónarmiðum með honum en ég hef hins vegar hlustað eftir því sem hann hefur sagt vegna þess að mér finnst hann koma með innlegg í umræðuna sem við eigum að hlusta á. Hann kom núna fyrr í vetur og skrifaði grein, í Fréttablaðið að mig minnir, þar sem hann benti á að það væri kannski ráð fyrir þingið í þeim ógöngum sem þetta stjórnlagaþing var komið, þegar fallið var frá því að það væri bindandi eins og var í fyrra, þegar búið var að gera það ráðgefandi, þegar það í raun var orðið að einhverjum óljósari hlut en lagt var upp með, að þingið sjálft kæmi að því að setja menn til ákveðinna verka. Þessi hugmynd hans Njarðar P. Njarðvíks er af sama meiði og þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfum haft uppi í þessu máli. Við höfum raunar haft þau uppi um dálítinn tíma. Þegar við deildum í fyrra um breytingar á stjórnarskrá, þar sem þá var fjallað um bindandi stjórnlagaþing og það er ekkert um það að tefla, vorum við afskaplega mótfallin því að sett yrði hliðstætt stjórnlagaþing við hlið þess sem hér situr og þá lögðum við til að hér yrði kosin stór nefnd manna, 25 menn yrðu kosnir hér, til að endurskoða stjórnarskrá sem síðan kæmi inn í þingið. Það er af þessum rótum sem minnihlutaálitið okkar sprettur.

Ég vil nú fara yfir sjónarmið fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd. Við teljum nauðsynlegt að koma til móts við þau sjónarmið að endurskoða þurfi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. 1. minni hluti telur þó að sú leið sem farin er í frumvarpinu, að leggja til að kjörnir verði 25–31 fulltrúi til þess að sitja á stjórnlagaþingi og endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sé ekki til þess fallin að auka traust þjóðarinnar á Alþingi. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins kjósa Íslendingar 63 þjóðkjörna fulltrúa á Alþingi til að setja landinu lög. Stjórnarskráin heimilar ekki að öðrum þjóðkjörnum fulltrúum sé falið það hlutverk. Þá er það með sama hætti grundvallarhlutverk Alþingis að fjalla um stjórnarskrá og því mikilvæga verkefni getur þingið ekki vísað frá sér. Það er skoðun 1. minni hluta að Alþingi eigi þvert á móti að setja stjórnarskrána á dagskrá með skýrum hætti og að í slíkri vinnu komi fram afstaða alþingismanna til þeirra breytinga sem gera þurfi á stjórnarskrá. Það frumvarp sem nú liggur fyrir um stjórnlagaþing er ófullburða. Fjöldamörgum spurningum er ósvarað og er óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að málið sé sett fram í miklu óðagoti og taugaveiklun. Engin ástæða er til að fjalla um mál af þessum toga á síðustu dögum þingsins þegar fyrir liggur að meginverkefni Alþingis þessa dagana er að koma heimilum og fyrirtækjum til bjargar. Það er skoðun 1. minni hluta að ýta eigi öllum öðrum málum til hliðar og einhenda sér í það að koma með lausnir fyrir heimilin og fyrirtækin í þessu landi.

Þar fyrir utan leggur meiri hlutinn til ráðgefandi stjórnlagaþing sem er allt annað en það sem lagt var upp með á síðasta ári. Það er miklu nær fyrir Alþingi að taka málefni stjórnarskrárinnar á dagskrá á vettvangi þingsins, fá mótaðar tillögur frá helstu sérfræðingum á sviði stjórnarskipunarréttar og leiða málið til lykta á vettvangi Alþingis í kjölfarið.

Á síðasta vorþingi lagði þingflokkur Sjálfstæðisflokks fram tillögu til þingsályktunar um undirbúning að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í anda þeirrar umræðu sem fór fram á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Tillagan var sú að Alþingi kysi í hlutfallskosningu 25 manna nefnd sem hefði það verkefni að leggja fyrir Alþingi tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá í tæka tíð fyrir 17. júní 2011 svo álykta mætti um hana á hátíðarfundi Alþingis í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar.

Fyrsti minni hluti leggur til að skynsamlegt sé að farin sé leið af þessum toga og kosin verði níu manna nefnd fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings. Þannig verði leitað í umboði Alþingis eftir ráðgjöf frá mönnum utan þings án þess að Alþingi afsali sér valdi til að breyta stjórnarskránni. 1. minni hluti leggur áherslu á að vinna nefndarinnar fari fram fyrir opnum tjöldum og að hún skuli leita samráðs og samtals við almenning, hagsmunaaðila og aðra hópa sem áhuga hafa á þessu mikilvæga máli. Tillaga þessi tekur mið af aðferðum sem beitt hefur verið við endurskoðun stjórnarskrár í nágrannalöndum, þar á meðal Svíþjóð, og vekur 1. minni hluti sérstaka athygli á fordæmi Svía í þessu máli og hvernig hefur verið staðið að undirbúningi að endurskoðun sænsku stjórnarskrárinnar með því að virkja sem flesta til þátttöku. 1. minni hluti telur að í störfum ráðgjafarnefndarinnar beri t.d. að líta til fordæmis hjá íbúaþingum á vegum sveitarfélaga og að beitt verði svipuðum aðferðum og þar hefur verið gert til að virkja almenning til þátttöku.

Fyrsti minni hluti leggur til að þegar nefndin hefur skilað tillögum sínum til Alþingis verði þær teknar til meðferðar á fyrir fram afmörkuðu tímabili á starfstíma þingsins, þ.e. að þá verði ekkert annað mál til umræðu en breytingar á stjórnarskrá. Með því móti væri einnig tryggt að umræðum um stjórnarskrárbreytingar væri gefinn sá tími í störfum þingsins sem viðeigandi er í ljósi þess að um er að ræða grundvallarlöggjöf lýðveldisins.

Fyrsti minni hluti telur að með samþykkt tillögunnar væri lagður grunnur að vandaðri endurskoðun stjórnarskrárinnar í þeim anda sem hefur verið til umræðu síðustu missiri og að meiri líkur séu til að almenn samstaða náist um frumvarp til stjórnarskipunarlaga og afgreiðslu þess. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti fer þess á leit við hv. þingmann að hún geri nú hlé á ræðu sinni þar sem nú á að fara fram áður boðuð utandagskrárumræða um fjárhagsstöðu heimilanna.)

Ég get ekki verið hérna kl. fjögur. Það verður þá að fresta þessu lengur en til fjögur.

(Forseti (ÁÞS): Forseti mun þá kanna það að ræðunni verði frestað eitthvað lengur. Umræðan mun hins vegar halda áfram að lokinni utandagskrárumræðunni.)

Ég bið forseta að athuga málið.

(Forseti (ÁÞS): Forseti mun kanna það, en biður hv. þingmann að gera hlé á ræðu sinni núna.)

Og hvenær hyggst hæstv. forseti leyfa hv. þingmanni að ljúka ræðu sinni?

(Forseti (ÁÞS): Umræðan um þetta mál mun halda áfram þegar að lokinni utandagskrárumræðu.)

Já.

(Forseti (ÁÞS): Það eru allmargir á mælendaskrá þannig að ef hv. þingmaður getur ekki verið viðstaddur á þeim tímapunkti verður þingmaðurinn að komast að um leið og hún getur.)

Er þá meiningin að framsögumaður nefndarálits klári mál sitt einhvern tímann í miðri umræðu?

(Forseti (ÁÞS): Ja, forseti mun ráða þessu máli til lykta áður en að þeim tímapunkti kemur með hv. þingmanni.)

Ég mun gera alvarlegar athugasemdir við það.