Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 17:38:47 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Ólöf Nordal) (S) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég hyggst greina frá sjónarmiðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd til þess máls sem hér er til umræðu, stjórnlagaþings, en eins og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta allsherjarnefndar er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að þetta mál sé ótækt til afgreiðslu. Hér er um að ræða breytingar á stjórnarskránni sem eru settar í þann búning að forræði málsins er tekið frá Alþingi og fært út fyrir þetta hús.

(Forseti (RR): Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að verið er að kanna hversu margar mínútur hv. þingmaður átti eftir af fyrri ræðutíma sínum og klukkan verður sett af stað um leið og það er ljóst.)

Þakka þér fyrir. Mér þótti í vinnu allsherjarnefndar, eins og nokkur grein hefur þegar verið gerð fyrir, töluverð tækifæri til að ná breiðari samstöðu um það hvernig breyta skyldi stjórnarskrá. Ég er enn þeirrar skoðunar að mikið sé til reynandi að ná slíkri samstöðu. Ég hygg að það breytta verklag sem hér var kynnt í fyrravor þegar ákveðið var að fara fram með breytingar á stjórnarskrá í ágreiningi milli stjórnar og stjórnarandstöðu hafi ekki verið heillavænlegt spor. Ég mun gera grein fyrir helstu sjónarmiðum 1. minni hluta til þessa máls eins og þau birtast í nefndaráliti og eins og þau hafa birst í umræðum í hv. allsherjarnefnd.

Fyrsti minni hluti allsherjarnefndar telur nauðsynlegt að koma til móts við þau sjónarmið að endurskoða þurfi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Fyrsti minni hluti telur að sú leið sem farin er í frumvarpinu að leggja til að kjörnir verði 25–31 fulltrúi til að sitja á stjórnlagaþingi og endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins sé ekki til þess fallin að auka traust þjóðarinnar á Alþingi. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins kjósa Íslendingar 63 þjóðkjörna fulltrúa á Alþingi til að setja landinu lög. Stjórnarskráin heimilar ekki að öðrum þjóðkjörnum fulltrúum sé falið það hlutverk. Þá er það með sama hætti grundvallarhlutverk Alþingis að fjalla um stjórnarskrá, og því mikilvæga verkefni getur þingið ekki vísað frá sér. Það er skýr skoðun 1. minni hluta að það sé gert með því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Þetta er grundvallarstef í viðhorfi Sjálfstæðisflokksins til þessa máls sem hér er um að ræða.

Á síðasta vorþingi þegar deilurnar voru hvað mestar um þá fram komnar hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá lagði þingflokkurinn fram sáttatillögu til að reyna að mæta þeim sjónarmiðum sem þá voru uppi um að farið skyldi af stað með það sem þá átti að vera bindandi stjórnlagaþing. Nú hefur verið fallið frá því. Það virðist vera einbeittur vilji a.m.k. annars ríkisstjórnarflokksins að breyting á stjórnarskránni þurfi að vera með því fororði að um sé að ræða eitthvað sem kallast stjórnlagaþing. Þegar búið er að falla frá upphaflegri hugmynd um bindandi stjórnlagaþing spyr maður sig hvers vegna ekki sé þá hægt að ganga þetta skref til fulls og segja miklu frekar að þingið sjálft taki að sér að leiða breytingar á stjórnarskrá. Þá koma þær gagnrýnisraddir að þingið hafi ekki haft til þess burði, því hafi mistekist það verkefni. Það er ekki alls kostar rétt. Verulegar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni. Það voru gerðar breytingar þegar mannréttindakaflinn var færður inn í stjórnarskrá. Það hafa líka verið gerðar breytingar á kosningafyrirkomulagi sem voru mjög til þess fallnar að jafna atkvæðavægi. Vissulega er ýmislegt fleira sem þarf að gera í þessu efni, en ef menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki gefist vel að alþingismenn réðu ráðum um stjórnarskrá, hví er þá ekki hægt að hugsa um málið með þeim hætti að við kjósum utanaðkomandi aðila til að fást við það verkefni í stað þess að setja af stað heilt stjórnlagaþing? Ég get ekki betur séð en að það sé smækkuð útgáfa af Alþingi, það hefur berlega komið fram í nefndinni.

Það er talað um að fara eigi í að halda fundi fyrir opnum tjöldum í stjórnlagaþingi. Hvernig er það hér? Er það ekki þannig? Eru ekki allar upplýsingar um það sem gerist hér á alþingisvefnum? Er eitthvað gert hér sem ekki liggur fyrir? Hver er munurinn á því og því smækkaða stjórnlagaþingi sem hér er lagt til? Eða er það bara það að þeir sem eru hingað kosnir séu eitthvað síðri til að breyta stjórnarskránni en einhverjir sem við vitum ekki hverjir verða og bjóða sig fram á stjórnlagaþing? Hví halda menn að það sé svo? Hví halda menn að ráðgefandi stjórnlagaþingi sem hefur ekki einu sinni endanlega með það að gera hvernig þessi stjórnarskrá lítur út sé rétta leiðin? Hví halda menn að þar muni myndast svona mikil samstaða um það hvernig breyta skuli stjórnarskrá? Ég hygg að mörg okkar hafi þegar sagt að endurskoða þurfi vinnubrögð Alþingis og að við þurfum að gera breytingar sérstaklega gagnvart því aðhaldshlutverki sem við þurfum að veita framkvæmdarvaldinu. Er það þá mjög til bóta að við byrjum á því að vísa frá okkur því grundvallarverkefni sem við höfum? Við segjum bara við þjóðina: Nei, við treystum okkur ekki til að sinna grundvallarskyldum okkar. Við ætlum að láta aðra um það. Eru að þessu leyti viðhorf okkar til þessa máls leyst?

Ég vildi segja frá, og það kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta, að strax síðasta vor kom fram tillaga af hálfu okkar sjálfstæðismanna um að kosin yrði 25 manna nefnd til að móta tillögur að breyttri stjórnarskrá sem síðan skyldi fara inn í þingið. Vegna þess ástands sem er uppi í þjóðfélaginu og þess að við þurfum bæði að vanda okkur og líka spara í leiðinni er það tillaga í þessu nefndaráliti og tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks í allsherjarnefnd að kosin verði níu manna nefnd til að koma með tillögur að breytingum á stjórnarskrá. Mér finnst mikilvægt í því að það sé þá ekki tilskipun frá Alþingi um nákvæmlega hvað þessi nefnd ætti að skoða sem mér finnst reyndar dálítið skína í í því frumvarpi sem hér um ræðir þar sem nokkuð er ákveðið hver verkefni þessa stjórnlagaþings eiga að vera. Við þurfum að fá hugmyndir að því hverju breyta skuli í stjórnarskránni, raunverulegar tillögur til að ræða sem við þurfum síðan að takast á um í þessum sal. Það þýðir ekkert fyrir okkur að segja mönnunum fyrir fram hvað það er sem þurfi að skoða og láta sem við vitum nákvæmlega hvaða veikleikar eru í stjórnarskránni, jafnvel þótt við gætum haft á því mjög miklar skoðanir.

Ég hef velt fyrir mér og velt því upp í allsherjarnefnd og þess sér stað í þessu nefndaráliti að það væri mjög hollt fyrir Alþingi á þessum tímapunkti að taka raunverulega umræðu um stjórnarskrána og gera það með skipulegum hætti þar sem engin önnur mál eru á dagskrá. Það kerfi sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir um breytingar á stjórnarskrá, að það þurfi að kjósa á milli o.s.frv., hefur þýtt að stjórnarskrárbreytingar eru oft mjög seint á vettvangi þingsins, rétt fyrir kosningar. Væntanlega hefur það verið þannig í því samráðsferli sem jafnan hefur verið, að breytingar hafa komið í kjölfar stjórnarskrárnefndar sem þingið hefur sjálft skipað sínum mönnum í. Engu að síður hafa menn þurft að klára breytingar fyrir kosningar svo unnt sé að kjósa um þær í kosningum. Ég hygg að það hafi verið galli á því hvernig á þessum málum er haldið og það er miklu skynsamlegra fyrir okkur að sammælast um að setja málið skýrt á dagskrá, ýta öðrum málum til hliðar og taka ekki þetta mál á dagskrá meðan við erum í miðju kafi að bjarga hér því sem bjargað verður í efnahagslífi þjóðarinnar. Það fer ekki nógu vel saman.

Við teljum þess vegna ástæðu til að leitað verði í umboði Alþingis eftir ráðgjöf frá mönnum utan þings án þess að Alþingi afsali sér því valdi að breyta stjórnarskránni. Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að vinna nefndarinnar fari fram fyrir opnum tjöldum og að hún skuli leita samráðs og samtals við almenning, hagsmunaaðila og aðra hópa sem áhuga hafa á þessu mikilvæga máli. Tillaga þessi tekur mið af aðferðum sem beitt hefur verið við endurskoðun stjórnarskráa í nágrannalöndum, þar á meðal Svíþjóð, og vekur 1. minni hluti sérstaka athygli á fordæmi Svía í þessu máli og hvernig staðið hefur verið að því að undirbúa sænsku stjórnarskrána. Fyrsti minni hluti telur að í störfum löggjafarnefndarinnar beri t.d. að líta til fordæmis á íbúaþingum á vegum sveitarfélaga og að beitt verði svipuðum aðferðum og þar hefur verið gert til að virkja almenning til þátttöku. Það er vafalaust í mínum huga að ýmsir þjóðfélagshópar hafa verulegar skoðanir á því hvernig þróa eigi þessa stjórnarskrá og það hefur verið þannig um langan tíma. Það er ekki bara eitthvað sem gerðist í fyrra. Menn hafa lengi haft á því töluvert miklar skoðanir. En það er nokkuð athyglisvert þegar þetta mál er tekið til umfjöllunar að þær rannsóknir sem fræðimenn hafa gert á stjórnarskránni undanfarin ár mættu vera meiri. Mér finnst að við þyrftum jafnvel þegar við förum í að endurskoða stjórnarskrá — og ég vonast enn þá til þess að það sé hægt að ná betri samstöðu um það en hér birtist — að gera okkur grein fyrir því hversu miklu máli skiptir að setja fé í rannsóknir á því hvernig þróa skuli áfram stjórnarskrána og hvað í henni hefur ekki reynst nógu vel, jafnvel þótt við getum kannski fyrir fram einhvern veginn gert okkur grein fyrir því hvar helstu veikleikarnir eru og enn fremur hvernig þróun stjórnarskráa hefur verið í löndunum í kringum okkur.

Það grundvallarrit sem enn er notað þegar rætt er um stjórnarskrána er rit Ólafs Jóhannessonar prófessors frá 1960. Vissulega hafa margir skrifað um stjórnarskrá síðan, vissulega erum við með prófessora í stjórnarfarsrétti og í stjórnarskipunarrétti, en engu að síður liggur það rit enn til grundvallar þegar fjallað er um og vélað um efni stjórnarskrárinnar. Ég held að þarna sé líka færi fyrir okkur að hugsa til sérstakrar áherslu.

Fyrsti minni hluti leggur til að þegar nefndin hefur skilað tillögum sínum til Alþingis verði þær teknar til meðferðar á fyrir fram afmörkuðu tímabili á starfstíma þingsins, þ.e. að þá verði ekkert annað mál til umræðu en breytingar á stjórnarskrá. Með því þarf þingið sjálft og allir þingmenn að móta sér skoðun á framkomnum tillögum nefndarinnar. Með því móti væri einnig tryggt að umræðum um stjórnarskrárbreytingar væri gefinn sá tími í störfum þingsins sem viðeigandi er í ljósi þess að um er að ræða grundvallarlöggjöf lýðveldisins.

Fyrsti minni hluti telur að með samþykkt tillögunnar væri lagður grunnur að vandaðri endurskoðun stjórnarskrárinnar í þeim anda sem hefur verið til umræðu síðustu missiri og að meiri líkur séu til þess að almenn samstaða náist um frumvarp til stjórnarskipunarlaga og afgreiðslu þess. Fyrsti minni hluti tekur jafnframt fram að þessi leið er mun hagkvæmari en sú leið sem er lögð til í frumvarpinu.

Ég nefndi það í minni fyrri ræðu að Njörður Njarðvík prófessor hefur haft töluvert mikinn áhuga á því máli sem hér um ræðir. Hann hefur einnig orðið var við það að samstaða um þessa leið hefur ekki verið nógu góð innan þingsins. Ég hygg líka að hann hafi talið þá leið sem var rædd í fyrra betur til þess fallna þótt ég hafi reyndar verið henni alveg andsnúin. Engu að síður hefur hann orðið var við það að ná þarf betri samstöðu og hann lagði t.d. fram í grein í Fréttablaðinu nýverið tillögu sem er mjög í anda þess sem hér hefur verið gert að umtalsefni. Ég sé ekki að það sé svo langt á milli í raun og veru þegar litið er til þess að þetta stjórnlagaþing er ráðgefandi. Hvers vegna vill Alþingi þá ekki sjálft taka þetta verkefni að sér? Hvað veldur því? Af hverju er það ekki hægt? Ég held að það væri mjög mikið til bóta ef menn gæfu þessu máli aðeins meiri tíma. Það hefur þroskast nokkuð í allsherjarnefnd, umræðurnar hafa verið mjög gagnlegar og ég held að það væri mjög gagnlegt að slíkar umræður ættu sér líka stað í þessum sal. Ég held að tíminn hafi unnið með okkur í þessu máli. Við erum að deila um aðferð til að breyta stjórnarskránni, hvernig best sé að gera það. Sumir í þessum sal hafa viljað að miklu fleiri kæmu að því máli en það er alltaf spurning um aðferðina. Ef við erum sammála um að það þurfi að gera þetta finnst mér það meira en einnar messu virði að gefa þessu örlítið meiri tíma vegna þess að við höfum aðeins tíma til að hugleiða þetta mál betur. Hvers vegna þarf að afgreiða þetta á fyrstu dögum júnímánaðar? Ég hef ekki fengið haldbæra skýringu á því. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni og hef líka nefnt á fundum allsherjarnefndar hygg ég að það væri mjög til bóta ef hv. formaður allsherjarnefndar og meiri hlutinn í allsherjarnefnd tæki það til alvarlegrar athugunar að menn yrðu tilbúnir að reyna að ná samstöðu um það hvernig eigi að afgreiða breytingar á stjórnarskrá.