Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 18:13:00 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:13]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Eins og fram hefur komið í máli margra þá er ýmislegt við það að athuga. Ég hef alla tíð haft ákveðnar skoðanir á því með hvaða hætti stjórnlagaþing ætti að vera og þær hafa byggst á þeim efasemdum mínum kannski í grunninn um það grundvallaratriði hvernig valið er á stjórnlagaþing. Það er sá punktur sem maður kemur alltaf að aftur og aftur. Hverjir eiga að skrifa nýja stjórnarskrá? Hvernig á að velja þá til verksins?

Þetta frumvarp sem hér liggur fyrir var gallað frá upphafi og hugmyndin einnig vegna þess að þar er gert ráð fyrir einni ákveðinni aðferð um hvernig eigi að velja á stjórnlagaþingið og fyrir hverja stjórnlagaþingið eigi að vera. Ég hef alla tíð talið að ný stjórnarskrá, hvort sem hún er samin af stjórnlagaþingi eða einhverju öðru, ætti að vera gerð fyrir almenning og af almenningi og ætti að fjalla um almenning. Þetta frumvarp tekur ekki á því. Þetta frumvarp hefur frá upphafi vega, þ.e. frá því í fyrravor þegar skipaður var vinnuhópur fólks úr öllum flokkum til þess að reyna að vinna að lýðræðisumbótamálum, tekið miklum breytingum til bóta þó það sé enn þá meingallað.

Mikið hefur verið fjallað um þetta frumvarp í allsherjarnefnd og nefndin hefur lagt á sig mikla vinnu í sambandi við upplýsingaöflun og annað. Ég vil sérstaklega nefna þar hv. fyrrverandi þingmann og formann allsherjarnefndar, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, sem lagði sig mjög fram um það að ná sátt í málinu eins og mögulegt var og sýndi öllum sjónarmiðum virðingu og kallaði til fólk og vissi að það mætti ekki rasa um ráð fram. Það var talsverður eftirrekstur á málinu af hálfu fjölmiðla og forsætisráðuneytisins með að frumvarpið lægi bara í allsherjarnefnd og það þyrfti að fara að koma því í gegn og klára það. Sá eftirrekstur var ósanngjarn vegna þess að það var verið að vinna mikið með málið. Þetta er stórt mál og þetta er mikilvægt mál. Það liggur ekki á því og þó að ég skilji e.t.v. vel áhuga hæstv. forsætisráðherra á að koma því í gegn þá er þetta mál stærra en svo að það megi flýta sér við það.

Það eru ýmis nýmæli í frumvarpinu sem rétt er að halda til haga og ég tel vera góð. Hér er t.d. verið að lögfesta það sem kallað er persónukjör í fyrsta skipti. Það er vonandi einhvers konar varða á leiðinni til frekari lýðræðisumbóta í framtíðinni. Ég tel persónukjör mjög mikilvægt lýðræðisumbótamál. Hér er sú aðferð notuð við val á þetta stjórnlagaþing. Það ber að hafa í huga þegar menn gagnrýna þetta, hér eru hugmyndir.

Þetta frumvarp er eins og fram hefur komið frumvarp um stjórnlagaþing Alþingis. Þetta er frumvarp um Alþingi og þetta er frumvarp fyrir Alþingi. Þetta er ekki stjórnlagaþing Íslendinga um Íslendinga og fyrir Íslendinga. Það er afleitt. Það er óásættanlegt.

Hér á landi hefur alla tíð vantað alla umræðu um það hvernig þjóð og hvernig samfélag við viljum vera. Sú samræða þarf að fara fram áður en vinna við nýja stjórnarskrá hefst. Við tókum við stjórnarskrá Danakonungs, sem ef ég man rétt var frá miðri 19. öld. Þá tíðkaðist að konungur afhenti þjóð sinni nýja stjórnarskrá. Í þessu frumvarpi mun Alþingi afhenda þjóð sinni nýja stjórnarskrá. Það hefur ekkert breyst á 150 árum hvað varðar aðkomu almennings að stjórn landsins. Þennan þátt þarf að taka fyrir og skoða gaumgæfilega hvernig hægt er að afgreiða áður en vinna við nýja stjórnarskrá hefst. Þetta er hægt að gera með ýmsum aðferðum ef menn vilja. Við höfum t.d. lagt til að leysa þetta að einhverju leyti með því að velja til stjórnlagaþings þverskurð af þjóðinni með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Slembiúrtak úr þjóðskrá er ekki eitthvert hugtak sem mönnum dettur í hug, slembiúrtak úr þjóðskrá er vísindalegt tölfræðihugtak. Með slíku úrtaki er hægt að fá þverskurð þjóðarinnar og niðurstöðu af slíkum fundi mætti nota t.d. sem grunn að samræðu um hvernig þjóð og samfélag við viljum vera.

Kosning á stjórnlagaþing er í sjálfu sér einhvers konar lýðræðislegt ferli en það fer þó allt eftir því hvernig sú kosning fer fram. Sú kosning sem gert er ráð fyrir hér er ekki góð. Hér eru ákveðnar aðferðir við kosningu á stjórnlagaþing þar sem einfaldlega verður í boði að kjósa auðmenn eða tindáta þeirra vegna ákvæða laga um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda, eins og fram kemur hér í 9. gr. frumvarpsins, þar sem lögaðilar og nafnlaus framlög verða áfram í gildi. Þetta þarf að girða fyrir. Um þetta var talað í nefndinni, að það þyrfti að reyna að koma böndum á þetta. Niðurstaðan var sú að í stað þess að girða fyrir þetta mundi dómsmálaráðuneytið sjá um kynningu inn á öll heimili í landinu en jafnframt hafa opið fyrir auðmenn og súperstjörnur inn á stjórnlagaþingið. Þar komum við aftur að meginvandamálinu, hvernig er valið á stjórnlagaþing? Það er ekki einfalt mál.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinni þátttöku almennings. Lítillega er talað um það í 20. gr. og svo er breytingartillaga við 20. gr. um að stjórnlagaþingið eða einhver nefnd þess þurfi að halda fund í hverju kjördæmi ef ég man rétt. Jú, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaþing skal á fyrsta starfstímabili sínu halda fundi í öllum kjördæmum til þess að kalla eftir sjónarmiðum og tillögum almennings.“

Það er ekki formgert með neinum hætti hvernig stjórnlagaþingið á að nota þessar hugmyndir. Það hefur alla tíð verið hægt að leggja fram tillögur og hugmyndir. Hver sem er getur sent inn tillögur og hugmyndir inn á Alþingi Íslendinga. Við vitum hvernig fer með þær. Það vantar algjörlega að með formlegum hætti fái almenningur að taka þátt í þessu. Fundur í hverju kjördæmi, það eru sex fundir. Þeir geta verið hvar sem er, hvenær sem er, hversu langir sem er. Það er ekkert í frumvarpinu sem skilgreinir hvernig þeir eiga að vera. Þátttaka almennings í þessu er engin nema að örlitlu leyti að nafninu til.

Þriðja stóra vandamálið við þetta frumvarp er að þjóðin sjálf fær ekki að segja álit sitt á nýrri stjórnarskrá. Í 27. gr. segir beinlínis, með leyfi forseta:

„Þegar stjórnlagaþingið hefur samþykkt frumvarp til stjórnskipunarlaga skal það sent Alþingi til meðferðar.“

Að sjálfsögðu á þjóðin fyrst að fá að greiða atkvæði um frumvarp um nýja stjórnarskrá, grein fyrir grein eða þær samhangandi greinar sem þurfa að vera samhangandi, áður en það fer til Alþingis til þess að vilji þjóðarinnar sé skýr þegar Alþingi fær málið til umfjöllunar, þ.e. ef menn vilja að hér verði búin til stjórnarskrá af almenningi og fyrir almenning en ekki af kónginum og fyrir kónginn. Þetta er algert grundvallaratriði.

Þessi þrjú atriði eru þau sem ég sem áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd talaði mest um og hamraði mest á og ekkert þeirra náði í gegn. Því miður er það svo að á meðan aðkomu almennings að gerð stjórnarskrárinnar er hvergi getið eða hvergi tryggð þá getum við ekki annað en mótmælt þessu frumvarpi.

Að auki er búið að færa hér gríðarlegt vald til forsætisnefndar Alþingis þar sem í 21., 22. og 28. gr. er gert ráð fyrir valdi forsætisnefndar Alþingis yfir stjórnlagaþinginu, þ.e. valdið um ýmis atriði hvað varðar umgjörð og rekstur stjórnlagaþingsins er tekið af stjórnlagaþinginu og fært undir vald forsætisnefndar Alþingis þar sem pólitískur meiri hluti ræður ríkjum. Stjórnarskráin er samin af kónginum og fyrir kónginn.

Þetta atriði minnist ég ekki að hafi nokkurn tímann verið rætt í nefndinni, ekki nokkurn tímann. Þó var ég duglegur að sækja fundi í þeirri nefnd, þótt verið geti að ég hafi misst af þessu atriði. Þetta atriði eitt og sér er gríðarlega mikilvægt. Verið er að gera breytingar með breytingartillögum núna á þremur greinum frumvarpsins þar sem mikið vald er fært til forsætisnefndar Alþingis. Þar er ég áheyrnarfulltrúi líka og mér lýst einfaldlega ekki á að sú nefnd taki ákvarðanir um stjórnlagaþing.

Ég verð líka að taka hér undir fjögur atriði úr nefndaráliti 2. minni hluta, sem hefur að vísu ekki verið hafin framsaga á enn þá vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á dagskrá þingsins í dag en hér segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld ætla með öðrum orðum að koma á gervilýðræði undir stjórn sjálfra sín.“

Svo aftur þegar fjallað er um stjórnarskrá:

„Ákvörðun um gerð slíks sáttmála er þannig í höndum þjóðarinnar því að þjóðin sjálf er stjórnarskrárgjafinn.“

Fram hjá þessu er algerlega litið í frumvarpinu.

Þriðji punkturinn, með leyfi forseta, segir orðrétt:

„Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilja augljóslega hafa lýðræði í orði en ekki á borði og að auki stjórna lýðræðisumbótum með handafli. Þessi afskipti eru óásættanleg og geta leitt af sér að frambjóðandi hljóti sæti á stjórnlagaþinginu þrátt fyrir að hafa hlotið færri atkvæði en frambjóðandi af öðru kyni.“

Hér er verið að ræða um þennan hluta þar sem kosnir verða 25–31 vegna kynjasjónarmiða. Ég hef sagt það áður að kynjasjónarmið eru góð og gild og bráðnauðsynleg, svo langt sem þau ná, en þau eiga ekki að ná út fyrir og ráða lýðræðislegu vali almennings í kosningum.

Að endingu segir hér í áliti þess minni hluta hvað varðar aðkomu Alþingis að niðurstöðum stjórnlagaþingsins:

„… [það] eru takmarkaðar líkur á því að farið verði eftir niðurstöðum stjórnlagaþings verði þær núverandi stjórnvöldum ekki að skapi.“

Það held ég að sé algjörlega augljóst vegna þess m.a. að því hefur verið hafnað að bera málið undir þjóðina áður en Alþingi fær það til meðferðar.

Hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, reifaði málið mjög vel og vandlega hér í ræðu sinni fyrr í dag og ég fagna því að hann skuli vera formaður allsherjarnefndar. Hann hefur haldið vel á málum þar, mjög vel. Hv. þm. nefndi áhugaverðan hlut, hvort öðruvísi stjórnarskrá hefði komið í veg fyrir hrunið og taldi svo ekki vera. Það sem skorti hér á landi og skortir enn var möguleiki almennings til að afturkalla umboð sitt til þingmanna með öðrum hætti en þurfa að standa fyrir utan Alþingishúsið og öskra og kasta í það drasli. Það er atriði sem vantar í dag. Það frumvarp fær ekki framgang í allsherjarnefnd, frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem almenningur getur kallað eftir þeim. Þetta frumvarp tryggir ekki slíkt. Þetta frumvarp er um stjórnlagaþing. Það er ekki um lýðræðisumbætur þó að vonandi komi einhverjar lýðræðisumbætur út úr því.

Miðað við þetta frumvarp og afstöðu Alþingis sem á að afgreiða þessa nýju stjórnarskrá, afstöðu Alþingis til aðkomu almennings að stjórn landsins hingað til, þá er einfaldlega ekkert sem bendir til þess að hér verði breyting á umhverfinu um þjóðaratkvæðagreiðslur, þ.e. að Alþingi muni að loknu þessu stjórnlagaþingi og niðurstöðu þess tala fyrir frekari þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafa verið næg tækifæri til þess hingað til. Það eru næg tækifæri til þess núna. Það er frumvarp í nefnd. Það er búið að ræða það tvisvar sinnum í þinginu en það er engin hreyfing á málinu — það er engin hreyfing á því máli.

Ég verð einfaldlega að lýsa efasemdum mínum með þetta frumvarp og vilja núverandi ríkisstjórnarflokka á lýðræðisumbótum alfarið. Vissulega hafa þau heiðarlegan ásetning í því að vilja breyta stjórnarskránni og það er vel, það þarf að gera það. En það er ekki sama hvernig það er gert. Ef frumvarpið fer hér óbreytt í gegn þá er einfaldlega verið að tryggja afleita aðferð til að breyta stjórnarskránni.

Ég verð því að taka undir með hv. þm. Þráni Bertelssyni um að málið fari aftur inn til allsherjarnefndar og verði unnið þar áfram og reynt að ná meiri sátt um það. Frá okkar hálfu sérstaklega um þau þrjú atriði sem ég tæpti á, þ.e. að girða fyrir fjáraustur í kosningabaráttu á stjórnlagaþingi, að tryggja með formlegum hætti — með formlegum hætti — aðkomu almennings að gerð stjórnarskrárinnar og að tryggja með formlegum hætti að almenningur fái að segja álit sitt á nýrri stjórnarskrá, grein fyrir grein, áður en Alþingi afgreiðir hana. Þetta eru slík grundvallaratriði að þegar ég nefni þau hér slær hjartað í mér hraðar. Ég vona svo sannarlega að það verði niðurstaðan úr þessu máli og það verði unnið betur. Við heitum því að leggja okkar vinnu fram við það og vinna hana heiðarlega ef svo ber undir, en þetta frumvarp má ekki fara í gegn óbreytt.