Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 20:00:28 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að minnast á það sem gerðist í þinginu í dag. Það er oft búið að fresta þessu máli. Í gærkvöldi kom fram krafa um að þetta mál, stjórnlagaþingið, yrði ekki rætt að kvöldi til eða á nóttunni heldur fyrir opnum tjöldum og í dagsbirtu þegar einhverjir gætu fylgst með. Nú er þetta komið á dagskrá klukkan átta. Það stóð þannig fyrir dyrum að ég var u.þ.b. að komast á mælendaskrá í dag, af því að ég er framsögumaður 2. minni hluta allsherjarnefndar, en þá vildi svo illa til að forseti frestaði þessari umræðu til hálf sex vegna aðstæðna sem e.t.v. hefur verið farið yfir. Ég veit það ekki af því að ég var búin að boða mig á fund klukkan fimm og tafðist því. Núna mæli ég fyrir þessu nefndaráliti og einhverjir hafa farið fram fyrir mig í röðinni en það verður að hafa það vegna þeirra vinnubragða sem hér eru viðhöfð. Ég hefði gjarnan viljað heyra þær umræður en mér var ekki gert það fært vegna þessara vinnubragða. Þarna töluðu þingmenn Hreyfingarinnar og einnig hv. þingmaður utan flokka, Þráinn Bertelsson. Við sitjum saman í allsherjarnefnd og ég veit að hann hefur mjög skemmtilega sýn á þessar lýðræðisumbætur sem snúa að því að búa til nýja stjórnarskrá og samþykkja hana.

Allir vita að í marga áratugi hefur verið reynt að taka stjórnarskrána til heildarendurskoðunar, laga hana og færa að nútímanum. Það tókst árið 1995 þegar mannréttindakafli var settur inn í stjórnarskrána en síðan má segja að engu hafi verið breytt í henni, fyrir utan ákvæði um kjördæmamörk og einhverjar smávægilegar breytingar.

Það sem gerðist í kjölfar bankahrunsins velti af stað miklum hugmyndum og von um að hér gætu orðið einhverjar lýðræðisumbætur. Sumir segja að búsáhaldabyltingin hafi ekki verið bylting heldur valdarán og eftir því sem líður á starfstíma þessarar ríkisstjórnar fer maður jafnvel að halda að hér hafi hreinlega verið framið valdarán. Það á ekkert skylt við byltingu. Svo fast sitja ráðherrar í sínum ráðherrastólum, þrátt fyrir að eiga jafnvel ekkert erindi þangað, að furðu sætir. Það kom fram t.d. í gær varðandi hæstv. forsætisráðherra sem komin er marga hringi um laun seðlabankastjóra. Hvernig á að vera hægt að fara fram á það við ráðherra að þeir ráði við að stjórna landinu eða taka á stórum og erfiðum málum þegar launamál þvælast fyrir ráðherranum? Ég bara spyr.

Strax eftir hrunið skapaðist svigrúm til að prófa þá leið að boða til stjórnlagaþings. Haldin hafa verið stjórnlagaþing út um allan heim, oft í kjölfar mikilla umbrota. Í Þýskalandi var t.d. boðað til stjórnlagaþings árið 1949 eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá þurftu Þjóðverjar að meta allt upp á nýtt, stjórnkerfi sitt, lífsskoðun og hvert skyldi stefna. Afrakstur þessa stjórnlagaþings var stjórnarskrá þeirra sem er frá 1949 og er enn í gildi. Þá var boðað til stjórnlagaþings í Nýfundnalandi árið 1946 og síðan er nýtt dæmi frá Evrópuríki en það er ráðgefandi stjórnlagaþing sem sett var á fót í Austurríki árið 2003. Takið eftir, hér stendur í greinargerð á bls. 16 að það starfaði í tvö ár en tillögur þess um breytingar á austurrísku stjórnarskránni, sem er að stofni til frá 1920, hafa ekki náð fram að ganga. Þarna kemur skýrt fram að vegna þess að stjórnlagaþingið í Austurríki var eingöngu ráðgefandi ber stjórnvöldum að sjálfsögðu engin skylda til þess að fylgja því eftir, þótt vilji sé til staðar og þegnunum sé jafnvel talin trú um að þetta sé eins og um bindandi athöfn væri að ræða.

Mig langaði til að minnast á þetta af því að það stjórnlagaþing sem liggur nú fyrir þinginu er af allt öðrum toga en stjórnlagaþingið sem Framsóknarflokkurinn barðist fyrir í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Nú komum við inn á stjórnskipunarréttinn og aðdáendur mínir í þingsalnum verða aldrei leiðir á því að heyra mig fjalla um og halda innblásnar ræður um réttarríkið. Stjórnskipunarvaldið liggur fyrst og fremst hjá tvöföldu Alþingi með þingkosningum á milli. Það var það sem Framsóknarflokkurinn fór af stað með fyrir síðustu þingkosningar en því miður náði það ekki fram að ganga. Stjórnlagaþing er ekki það sama og stjórnlagaþing. Bindandi stjórnlagaþing er, eins og ég benti á, ekki það sama og ráðgefandi stjórnlagaþing. Þetta er eins og að bera saman greipappelsínu og appelsínu. Auðvitað heita þær báðar appelsína en eru ekki sama appelsínan.

Við könnumst við það að lýðræði þessarar ríkisstjórnar nær ekki lengra en svo að þegnunum í landinu eru einungis gefin takmörkuð lýðræðisréttindi. Þegnarnir eiga að halda að þeir fái að koma að málum með afgerandi hætti, eins og t.d. að fá að kjósa á stjórnlagaþing, en það vill ekki betur til en svo að í frumvarpinu er ekki búið að ákveða hvort þar muni sitja 25 eða 31 fulltrúi. Ríkisstjórnin ætlar að hlutast til um það með framlagningu þessa frumvarps hvort þar sitji 25, 26, 27, 28, 29, 30 eða 31 þingmaður. Ef kynjahlutföllin verða ekki nógu góð úr stjórnlagaþingkosningu þjóðarinnar á bara að bæta við því kyni sem ekki er kosið til þess að halda jafnvæginu 40:60. Ég er ekki að gera lítið úr kynsystrum mínum, því eftir hrunið hafa sprottið fram afar klárar og flottar konur og það gætu alveg eins verið karlar sem á að raða þarna inn, en þetta er það sem ég kalla „gervilýðræði“. Það á að vera með handstýringu á lýðræðinu.

Eins er sjálft stjórnlagaþingið einungis ráðgefandi. Sitji stjórnlagaþingið í 11 mánuði kostar það tæpar 500 milljónir. Í framsögu hv. þm. Róberts Marshalls í dag kom fram að það væri varlega áætlað, hann teldi að þetta væri langtum hærri upphæð en 500 milljónir. Þá spyr ég aftur um forgangsröðun. Ég opna ekki svo blöð eða les ekki svo netmiðla að þar sé ekki hinn venjulegi Íslendingur kominn að fótum fram út af erfiðleikum og sjái ekki fram á að eiga fyrir mat næsta dag. Þá á að fara af stað með þetta, kjósa á stjórnlagaþing í haust, eyða til þess a.m.k. 500 milljónum og stjórnvöld þurfa ekki að fara eftir þeirri niðurstöðu sem kemur út úr því frekar en þau vilja. Bendi ég þá aftur á hið óbundna, ráðgefandi stjórnlagaþing í Austurríki sem fjallað er um á bls. 16, þar sem stjórnvöld hunsa það sem kom út úr því. Þetta gætum við alveg örugglega horft upp á hér. Við skulum minnast orða hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra frá því í byrjun mars þegar þau hreinlega hvöttu til þess að Íslendingar sætu heima þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-samninginn fór fram. Var sú þjóðaratkvæðagreiðsla þó stjórnarskrárvarin og niðurstöður hennar bindandi. Hvernig eiga hinir venjulegu Íslendingar að hafa trú á stjórnvöldum sem ganga svo yfir stjórnarskrárbundinn rétt þegna sinna? Hvernig á íslensk þjóð að trúa því að ríkisstjórnin fari eftir því sem stjórnlagaþingið kemst að þegar nánast er búið að handvelja inn á þingið með þessum hlutfallsútreikningum og færa fólk upp þótt það sé með lægra atkvæðamagn á bak við sig, og síðan að þetta sé einungis ráðgefandi?

Ég eyddi mörgum klukkutímum í það þegar við ræddum ESB-umsóknina í sumar að komi einhvern tímann samningur til landsins varðandi aðildarumsókn að Evrópusambandinu skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Úr því það er ekki ákvæði um fullveldisframsal til annarra ríkja í stjórnarskránni getur sú þjóðaratkvæðagreiðsla aldrei orðið annað en ráðgefandi fyrir stjórnvöld og þess vegna ber ég vantraust í brjósti gagnvart þessu. Þótt sagt sé á hátíðarstundum að auðvitað fari stjórnvöld eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og ráðgefandi stjórnlagaþingi og hvað þetta heitir allt saman höfum við enga vissu fyrir því að sú ríkisstjórn sem nú situr fari eftir því sem út úr því kemur. Ég tek það aftur fram, sú ríkisstjórn sem nú situr, því að þessi ríkisstjórn er algjörlega rúin trausti. Fólk hefur enga trú á henni og er orðið hrætt um að hún sé frekar til óþurftar og skaða en hitt, því miður. Það verður bara að koma fram í þingræðu. Ég bendi líka á að varnaðarorð mín gagnvart stjórnlagaþinginu beinast náttúrlega fyrst og fremst að núverandi ríkisstjórn því við vitum ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér, sem betur fer. Ég segi það enn og aftur að ég vonast til að þessi ríkisstjórn sitji sem styst og fari fljótlega frá völdum til að hægt verði að taka upp hjálp fyrir heimilin og fjölskyldurnar og skapa einhverja atvinnu.

Svo gæti verið, af því það er mikið búið að nota það sem rök — mikið er ég orðin þreytt á samfylkingarrökunum að allt sé Davíð Oddssyni að kenna. Það gæti vel verið að ríkisstjórnin mundi finna það upp hjá sér að útkoman út úr stjórnlagaþinginu væri bara Davíð Oddssyni að kenna. Síðast í þingræðu í gær var eitthvað fundið upp sem var Davíð Oddssyni að kenna. Þetta er með ólíkindum. Ef ríkisstjórnin heldur að hún slái pólitískar keilur með þessu og slái í gegn hjá fjölmiðlum eða íslensku þjóðinni er það hinn mesti misskilningur. Líklega verður fundin upp einhver ástæða fyrir því að þetta verði ekki notað, því að ráðgefandi stjórnlagaþing getur aldrei komið í stað bindandi stjórnlagaþings. Kannski erum við jafnvel búin að missa tímann til að við getum haldið stjórnlagaþing, því það eru að verða tvö ár liðin frá hruninu og ekkert svo sem farið að gerast. Samkvæmt þessu frumvarpi til laga á bls. 16, þar sem vísað er til þess hvaða þjóðir hafa verið með stjórnlagaþing, kemur fram að þau hafa verið sett á stofn eftir mikla krísu, miklar þrengingar og mikla erfiðleika. Nú erum við löngu komin út úr því.

Það spunnust einmitt mjög góðar umræður um þetta í nefndinni. Frumvarpið er eins konar málamiðlun og það eru ekki endilega allir á sama máli. Hv. þm. Þráinn Bertelsson kom með þá hugmynd að þetta yrði sjö manna nefnd og vísaði þar í rannsóknarnefnd Alþingis, að það hefði heppnast vel. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar er framúrskarandi, enginn hefur efast um hæfi nefndarinnar og hún nýtur mjög mikils trausts. Þess vegna kom hv. þm. Þráinn Bertelsson fram með þessa hugmynd, hvers vegna málið væri ekki frekar sett í þennan farveg. Það væri langtum ódýrara og þarna yrðu aðilar sem Alþingi allt mundi velja. Við erum með fulltrúalýðræði hér inni og gert yrði nákvæmlega eins og með rannsóknarnefnd Alþingis. Ég er eiginlega farin að hallast á þá skoðun að úr því að svo langt er liðið frá hruni og ekkert farið að gerast almennilega sé það mjög álitleg hugmynd. Við ræddum það meira að segja í nefndinni og ég kastaði því fram að jafnvel mætti kjósa þessa sjö aðila úr 14 manna hópi fólks sem væri til þess bært að fjalla um stjórnskipunarmál. Meira að segja langar mig mest af öllu að sjá að hér yrði valin sjö manna nefnd til að búa til nýja stjórnarskrá og þá mundum við sækja ráðgjöf, hjálp, fróðleik og fagleg vinnubrögð til þjóðþinga hinna Norðurlandanna. Ég held að við séum komin á þann stað í dag að við þurfum að sækja hjálp út. Þetta eru aðilar sem hafa borið virðingu fyrir sínum þjóðþingum. Norðurlöndin, Noregur, Danmörk og Svíþjóð, hafa byggt upp sín þing, gert þau óháð sjálfu framkvæmdarvaldinu og alltaf borið mikla virðingu fyrir aðskilnaði dómsvalds og hinna greinanna tveggja.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga hjá okkur. Ég hef eins og flestir vita lagt fram frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis, sem á að taka á lagasetningu, svo að þingið komi ekki með handónýt mál, jafnvel frá ráðherrum, sem þarf að kollvarpa. Þá eiga sér alltaf stað mikil mistök í lagasetningu þegar frumvörp breytast mikið á milli umræðna á Alþingi. Þetta er eitt af því sem við þurfum að laga. Og þær áætluðu 500 milljónir sem talað er um að fari í stjórnlagaþing, að mínu mati væri þeim langtum betur varið í að styrkja stoðir Alþingis, styrkja nefndasviðið og lagasetningarvaldið, og ráða prófessor í lögum til að styrkja þetta.

Ég minni líka á að þegar við samþykktum EES-samninginn og þurftum að innleiða tilskipun á reglugerðum frá Evrópusambandinu, var ekki hugað að því að styrkja Alþingi, hvorki fjárhagslega né faglega. Alþingi stendur mjög illa gagnvart framkvæmdarvaldinu. Alþingi hefur á fjárlögum til reksturs stofnunarinnar tvo milljarða, á meðan framkvæmdarvaldið hefur rúmlega fimm milljarða. Þetta er algjörlega óásættanlegt. Ég fékk fregnir af því í vikunni að það yrði enn að skera niður á Alþingi. Við þingmenn getum ekki sætt okkur við að enn sé verið að þrengja að lagasetningarvaldinu og draga úr aðstoð við þingmenn og enn sé verið að draga saman á nefndasviði.

Þetta verðum við að standa vörð um og framkvæmdarvaldið verður á einhvern hátt að taka þessa skerðingu á sig, nóg er nú ójafnvægið samt. Meira að segja liggja fyrir tvö frumvörp í allsherjarnefnd um að ráðherra víki af þingi og kalli inn varamenn. Annað í gegnum stjórnarskrána, sem kallast stjórnarskipunarlög, sem þarf þá að fara í gegnum tvær atkvæðagreiðslur og þingkosningar. Á meðan ekki er boðað til þingkosninga þá liggur það, þótt það fái umræðu. Hitt frumvarpið er frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem leggur þetta til í gegnum þingskapalögin. Að mínu mati er það ófært, því það er ekki hægt að óbreyttri stjórnarskrá. Hvers vegna í ósköpunum ætti framkvæmdarvaldið að leggja til nú að kalla inn 10 varaþingmenn ríkisstjórnarflokkanna? Tveir ráðherrar eru óháðir. Þetta mundi auka enn meira á ójafnvægið og þau yfirráð sem framkvæmdarvaldið hefur yfir löggjafanum, í stað þess að menn opni augun fyrir því hve Alþingi Íslendinga er veikburða í að takast á við mál og lagasetningu.

Sjáum t.d. þetta, klukkan er að verða hálf níu og verið er að ræða stjórnlagaþing. Boðaðir eru dag-, kvöld- og næturfundir alla vikuna og á laugardaginn líka. Svo eru nefndarfundir. Síðan kvarta ríkisstjórnarflokkarnir yfir miklu álagi og erfitt sé fyrir þessa aðila að mæta til vinnu í nefndir. Svona er lífið. Nú eru vinstri flokkarnir komnir í ríkisstjórn Nú finna þeir hvernig það er að stjórna landi, hvernig er að takast á við alla þessa vinnu. Það þýðir ekki að ætla að hoppa allt í einu af stað og taka inn varamenn fyrir ráðherrana, enda er það ekki hægt að óbreyttri stjórnarskrá.

Ég er með það nefndarálit sem ég skilaði inn. Ég er talsmaður 2. minni hluta allsherjarnefndar og mig langar, með leyfi forseta, að fá að lesa það hér upp. Það hljóðar svo:

„Framsóknarflokkurinn stendur vörð um þær raunverulegu lýðræðisumbætur sem kallað er eftir í þjóðfélaginu. Ber þar hæst persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og bindandi stjórnlagaþing sem leggur grunn að nýrri stjórnarskrá. Sú ríkisstjórn sem nú situr vinnur á móti þeim frumvörpum sem liggja fyrir þinginu með því að draga úr vægi þegnanna til ákvarðanatöku sem boðað er til í frumvörpunum. Sem dæmi má nefna að formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs finnst frelsi persónukjörsfrumvarpsins of mikið því að ekki er tryggt í frumvarpinu sjálfu að t.d. konum sé tryggður helmingur sæta á lista. Lýðræði af þessu tagi er handstýrt af stjórnvöldum og er ekki það sem þjóðin vill eftir bankahrunið. Stjórnvöld ætla með öðrum orðum að koma á gervilýðræði undir stjórn sjálfra sín.“

Ég má til með að benda á það, út frá í þessum kafla í nefndaráliti mínu, að lýðræðið á bara stundum að virka hjá ríkisstjórnarflokkunum. Samt eru þetta allt stjórnarfrumvörp, öll þessi frumvörp sem ég minntist á — frumvarp um persónukjör, frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu og frumvarp um stjórnlagaþing. Ég bað um það margoft í allsherjarnefnd að frumvarp um persónukjörið yrði rætt samhliða frumvarpinu um stjórnlagaþing, vegna þess að það á að kjósa inn á stjórnlagaþingið eins og lagt er til í persónukjörsfrumvarpinu. Það var ekki orðið við því og fékk ég höfnun frá þáverandi formanni allsherjarnefndar, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, sem nú hefur vikið af þingi vegna ástæðna sem fólk veit hverjar eru. Því var hafnað vegna þess, eftir því sem mér er sagt, að það er svo óskapleg andstaða við frumvarpið, sérstaklega hjá Vinstri grænum og líka hjá hinum svokallaða Kvennalistaarmi Samfylkingarinnar. Þess vegna á að svæfa málið í nefnd. Þetta eru þrjú mál sem búið er að krossa við á 100-mála lista ríkisstjórnarinnar sem lagður var fram þegar ríkisstjórnin var mynduð.

Þegar maður horfir upp á þetta hugsar maður: Bíddu, hvað eru mörg mál komin fram í þinginu bara svo hægt sé að krossa við þennan lista, ef hjarta og vilji ríkisstjórnarinnar fylgir ekki með? Að mínu mati finnst mér persónukjörsfrumvarpið langmesta lýðræðisbótin, því þá getur fólk valið sér sína fulltrúa á kjördag og kosið fólk en ekki bara lista. Það frumvarp situr fast inni í allsherjarnefnd og mér skilst að eigi ekki að taka það út. Hv. þm. Þór Saari bað um það síðastliðinn föstudag að það yrði tekið út en því var hafnað, m.a. af nýjum formanni allsherjarnefndar sem situr í salnum, Róberti Marshall, vegna þess að það hentar ekki samfylkingarlýðræðinu.

Ég ætla að halda áfram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Lagt er til með frumvarpi þessu að boðað skuli til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Hér eru stjórnvöld enn á ný með fingurna í ákvarðanatökunni. Að leggja til að stjórnlagaþing verði einungis ráðgefandi eru skilaboð um að stjórnvöld treysti ekki þeim sem kjörnir verða á stjórnlagaþingið sjálft til að gera tillögu um nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá hvers ríkis er grundvöllur og grunnstoð sem lýðræðisþjóðfélag byggist á. Það á að vera erfitt fyrir löggjafann að breyta stjórnarskrá og í 79. gr. stjórnarskrárinnar er tekið fram að henni verði aðeins breytt sé breytingin samþykkt á tveimur þingum og að kosið sé til Alþingis í millitíðinni.“

Þetta er grundvallaratriði. Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá. Segjum sem svo að hér kæmi einræðisherra sem mundi ríkja yfir Íslandi og gæti breytt stjórnarskránni að vild. Við höfum dæmi um það frá Evrópu. Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskránni, og hún á ekki að vera eitthvað sem er hægt að breyta svona, eins og liggur núna fyrir, að taka varamenn inn á þing í gegnum þingskapalög. Það á ekki að vera hægt, því stjórnarskrá hvers ríkis er fyrst og fremst til þess að verja réttindi þegnanna fyrir stjórnvöldum, svo við tölum nú ekki um vanhæfum stjórnvöldum. Stjórnarskráin er fyrst og fremst þannig. Þess vegna á að vera erfitt að breyta henni.

Ég held áfram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með frumvarpi þessu kemur fram að markmið stjórnlagaþings sé að undirstrika þær stoðir hvers lýðræðisþjóðfélags að allt vald spretti frá þjóðinni og því skuli stjórnlög sett af fulltrúum fólksins. Þessum þjóðkjörnu fulltrúum er falið að setja þær grundvallarreglur sem gilda um æðstu stjórn og skipulag ríkisins, uppsprettu ríkisvalds, verkefni handhafa ríkisvaldsins, verkaskiptingu þeirra og valdmörk.

Hugmyndir þessar birtust m.a. í ritum heimspekinganna John Locke (1632–1704) um uppsprettu ríkisvaldsins og Jean-Jacques Rousseau (1712–1778) um samfélagssáttmála (Du contrat social), svo og kenningum fleiri stjórnmálaheimspekinga 17. og 18. aldar sem byggjast á því að ríkisvald réttlætist af samkomulagi borgaranna um að fela yfirvöldum tiltekin afmörkuð verkefni en jafnframt að ríkisvaldinu skuli sett ákveðin mörk sem þau megi ekki fara út fyrir.“

Þetta kemur fram svona snemma, það sem ég vísaði í, stjórnarskrá er fyrst og fremst sett til að setja ríkisvaldinu ákveðin mörk.

Svo held ég áfram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um gerð slíks sáttmála er þannig í höndum þjóðarinnar því að þjóðin sjálf er stjórnarskrárgjafinn.

Þessar hugmyndir ná ekki fram að ganga í frumvarpi þessu því að með ráðgefandi stjórnlagaþingi hefur þjóðin ekki síðasta orðið. Stjórnlagaþinginu er treyst að hluta en ekki að öllu leyti til að skrifa nýja stjórnarskrá því að þegar upp er staðið þurfa stjórnvöld ekki frekar en þau vilja að leggja frumvarp það sem kemur út úr vinnu stjórnlagaþings fyrir Alþingi til samþykktar á tveimur þingum með kosningum á milli.

Í 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins er ákvæði um kynjakvóta þingfulltrúa. Fjöldi þingfulltrúa skal vera minnst 25 en mest 31 og skal endanlegur fjöldi ráðast af því hvernig hlutfall milli kynja verður en þessari sérreglu er ætlað að tryggja að hlutfallið verði innan 40%–60% markanna. Fái annað kynið minna en 40% kosningu skal bæta við allt að sex sætum til að rétta kynjahlutföllin af. Þarna birtist ofríki og stjórnsemi ríkisstjórnarflokkanna, fyrir fram er ákveðið að úrslitum í kosningum til stjórnlagaþings verði breytt og því ekki farið að vilja kjósenda sem taka þessa kosningu alvarlega eins og aðrar kosningar sem boðað er til.“

Það væri mjög skrýtið að eiga t.d. að kjósa og vita að atkvæði mitt hefði ekki jafnmikið vægi og atkvæði aðilans við hliðina á mér, því ég á það kannski til að kjósa bara konur en aðilinn við hliðina á mér hefur þetta 50:50. Mínu atkvæði er breytt og það fært niður vegna þess að ég kýs ekki karla. Þetta er mjög skrýtið. En í almennum þingkosningum, sérstaklega þegar persónukjör er innleitt, þá verður þetta náttúrlega með þessum hætti.

„Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilja augljóslega hafa lýðræði í orði en ekki á borði og að auki að stjórna lýðræðisumbótum með handafli. Þessi afskipti eru óásættanleg og geta leitt af sér að frambjóðandi hljóti sæti á stjórnlagaþinginu þrátt fyrir að hafa hlotið færri atkvæði en frambjóðandi af öðru kyni.

Að mati 2. minni hluta er kostnaðaráætlun vegna stjórnlagaþings tæpar 500 millj. kr. sé áætlað að þingið starfi í 11 mánuði. “

Nú hefur strax komið fram að þetta er vanáætlað eins og ég sagði áðan

„Telji ríkisstjórnin þessa eyðslu á almannafé réttlætanlega í stórkostlegum niðurskurði án þess að niðurstaða sé bindandi er það á hennar ábyrgð. Rétt er að minna á að sú ríkisstjórn sem nú situr þverskallaðist við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á árinu þrátt fyrir að sú atkvæðagreiðsla hafi verið skilyrt í stjórnarskrá og verið bindandi fyrir stjórnvöld. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar gengu svo langt að hvetja fólk til að nýta ekki kosningarrétt sinn og sitja heima í stað þess að taka þátt í mannréttindum hvers manns í lýðræðisríki, að nota kosningarrétt sinn.“

Það er rétt að minna á það, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra lét meira að segja hafa það eftir sér í fréttum að hún sat heima. Á Vesturlöndum hefur verið barist fyrir kosningarrétti í áratugi og sumir hafa ekki einu sinni kosningarrétt. Mig minnir að kosningarréttur kvenna hafi verið lögleiddur á Íslandi 1916 eða 1918, ég man það ekki. Fyrsti kvenforsætisráðherrann nýtir ekki atkvæðisrétt sinn í kosningu, fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni sem haldin var samkvæmt stjórnarskránni. Fyrsti kvenforsætisráðherra Íslands sat heima í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Þetta er hneyksli. Þetta sýnir að lýðræðið er í orði en ekki á borði hjá ríkisstjórnarflokkunum, sérstaklega hjá hæstv. forsætisráðherra. Eins og hún veit best sjálf var búið að taka stjórnlagaþingsfrumvarpið og leggja það til hliðar í allsherjarnefnd og skoða átti aðrar tillögur. Svo var málið allt í einu aftur komið á borð allsherjarnefndar, enda hefur forsætisráðherra sagt að þetta sé mikilvægasta málið á þessu þingi. Mikilvægast er að afgreiða stjórnlagaþingsfrumvarpið áður en Alþingi fer í sumarfrí. Svona er forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni.

Ég ætla að klára minnihlutaálitið, með leyfi forseta:

„Að mati 2. minni hluta eru takmarkaðar líkur á því að farið verði eftir niðurstöðum stjórnlagaþings verði þær núverandi stjórnvöldum ekki að skapi. 2. minni hluti ítrekar þá skoðun sína að leitað verði til sérfræðinga á þjóðþingum Norðurlanda til ráðgjafar um endurskipulagningu Alþingis og uppbyggingu og form nýrrar stjórnarskrár. “

Herra forseti. Ég læt þetta duga, enda tími minn á þrotum. Ég ætla að biðja hv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá og setja mig á ný í röðina því að ég hef ekki lokið við að fara yfir þær hugmyndir sem ég hef fram að færa fyrir þing og þjóð í stjórnlagaþingsmálinu.