Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 20:32:40 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir þessa spurningu, ég deili þessum hugleiðingum með honum. Við erum vissulega fjær því að ná samstöðu um stjórnlagaþing á Alþingi nú en þegar við komum hér saman, nýtt þing, fyrir ári. Sem dæmi má nefna að þingmenn Hreyfingarinnar hafa fallið frá því að styðja stjórnlagaþing. Þeir koma inn upp úr búsáhaldabyltingunni með þá nýju, fersku hugmynd og ósk frá kjósendum sínum að hér verði lýðræðisumbætur. Ég missti því miður af ræðu hv. þm. Þráins Bertelssonar, ég veit ekki hvernig hann ætlar að greiða atkvæði, en hann efast stórkostlega um þetta. Ég sjálf efast stórkostlega um þetta. Það er ekki hægt að bera saman greipappelsínur og appelsínur þó að það heiti bæði appelsínur, það er ekki sami hluturinn.

Ég veit ekki með vinnubrögð ríkisstjórnarinnar en sú ógæfa virðist hvíla á henni að öllu þurfi að koma í gegn í ósætti. Það er leiðinlegt að segja þetta en enginn vilji er til að ná sáttum í einu einasta máli. Ég vitna oft í það að meira að segja náttúruverndaráætlun fór í ósætti í gegnum þingið, samt vorum við komin á seinasta dag og enginn hafði efast um neitt í því. En sem dæmi gat ríkisstjórnin ekki farið fram með vilja heimamanna sem kom fram í því skjali, það var keyrt í gegn til þess að friða annan stjórnarflokkinn.

Ég veit ekki hvernig atkvæðin falla í atkvæðagreiðslunni en ég get vottað það að (Forseti hringir.) að ég er farin að efast stórkostlega um þetta sjálf.