Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 20:37:23 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni enn á ný. Þær hugleiðingar hans að þessu fylgi jafnvel helmingi meiri kostnaður en stendur í frumvarpinu vekja hjá mér spurningar. Rétt hefði verið að spyrja forsætisráðherra á morgun: Er búið að láta Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lesa frumvarpið yfir? Þegar kostnaður er farinn að skipta mörg hundruð milljónum, útgjaldaauki ríkisins, hlýtur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að setja puttana í það, hann hefur gert það hingað til. Þar fyrir utan get ég upplýst að á fjárlögum ársins 2009 er ekkert talað um stjórnlagaþing. Það er því verið að fara með þetta mál í gegnum þingið og beint út í skurð, ekki hefur verið sýnt fram á hvaðan taka eigi peninga til að halda stjórnlagaþing. Sjáiði hvað ríkisstjórnin vinnur öll mál illa.

Það var sagt á miðstjórnarfundi okkar framsóknarmanna um daginn að þetta frumvarp um stjórnlagaþing væri líklega skárra en ekkert. Ég er eiginlega komin á þá skoðun að það sé ekki skárra en ekkert því að það er svo langt frá upphaflegum markmiðum og illa undirbúið. Hv. þm. Birgir Ármannsson krefur mig um skýringar á því hvers vegna illa gangi að fara fram með þetta mál í sátt og er það mín prívatskoðun að það sé fyrst og fremst hæstv. forsætisráðherra sem keyrir þetta mál fram af miklu afli. Eins og við vitum hefur hún þing eftir þing lagt fram frumvarp um stjórnlagaþing og ætli hún sé ekki bara að reyna að lyfta sér upp hér í þinglok og reyna að fá einhver af stefnumálum sínum fram, mál sem hún hefur verið með á sinni stefnuskrá í mörg ár, búin að sitja hér í 30 ár. Ég hugsa því að þetta sé einhver persónulegur metnaður hjá henni frekar en að hún sé að hugsa um þjóð sína.