Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 21:12:36 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að skemmsta leiðin að því markmiði sé sú að einbeita sér að því sem við erum sammála um að þarfnist endurskoðunar. Ég tel t.d. nokkuð óumdeilt að mannréttindakafla stjórnarskrárinnar þurfi ekki að skrifa upp á nýtt. Ég tel að við þurfum líka að láta á það reyna hvort við ætlum ekki örugglega að byggja hér áfram á þrískiptingu ríkisvalds og ef svo er er talsvert þá þegar leyst. Mér finnst gefinn upp boltinn í þessu frumvarpi sem við ræðum hér að þetta sé bara allt til skoðunar, þingræðið og þrískiptingin og það er m.a.s. látið að því liggja að það megi taka sjálfstæði dómstólanna til endurskoðunar hvað sem nákvæmlega er átt við með því. Það er væntanlega átt við að það þurfi að tryggja enn betur sjálfstæðið en ekki hvort við ætlum að viðhalda sjálfstæði dómstólanna frá hinum örmum ríkisvaldsins.

Með því að afmarka verkefnið og færast ekki of mikið í fang er hægt að vinna þetta á tiltölulega skömmum tíma, (Forseti hringir.) auðveldlega á þessu kjörtímabili, ég er alveg sannfærður um það.