Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 21:18:25 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:18]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér, frumvarp til laga um stjórnlagaþing, er eitt af stærstu málum ríkisstjórnarinnar, eitt af loforðum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Ég vek athygli virðulegs forseta á því að enn einu sinni sér hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, ekki ástæðu til að vera við umræðu hér, aðalumræðu þessa máls. Ég vek líka athygli hæstv. forseta á því að hann mun vera eini félaginn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem er hér í þingsal. Ég að vísu fagna því að hann er á mælendaskrá á eftir og hugsanlega kannski sá eini í þingflokki Vinstri grænna sem ætlar að taka hér til máls. Það vekur óneitanlega nokkra athygli og ég velti því hreinlega fyrir mér hvort það geti verið að verið sé að fara fram með mál af hálfu ríkisstjórnarinnar með svipuðum hætti og gert var á liðnu sumri þegar meiri hluti Alþingis samþykkti að senda inn umsókn til Evrópusambandsins, ósk um aðildarviðræður þar sem ljóst var að stór hluti þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kaus gegn eigin stefnu og loforðum sem þeir höfðu gefið kjósendum í kosningum á liðnu vori. Það er rétt að halda því til haga að ekki einn einasti ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem leggur þetta mál fram, sér ástæðu til að vera viðstaddur í kvöld.

Þetta er mikilvægt mál vegna þess að stjórnarskráin er æðsta réttarheimild Íslands og yfir önnur lög hafin og við verðum því að umgangast stjórnarskrána af mikilli virðingu og allar breytingar sem kunna að vera gerðar á henni verða að vera gerðar af mikilli yfirvegun og þannig að sem breiðust samstaða náist hér á þessari háttvirtu samkomu og líka utan hennar. Það gildir ekki aðeins að menn nái saman um breytingar á stjórnarskrá á þessari virðulegu samkomu heldur er nauðsynlegt að það gerist líka í þjóðfélaginu öllu vegna þess að ekki getur hv. Alþingi gengið gegn meiri hluta þjóðarinnar eða vilja stórs hluta þjóðarinnar þegar kemur að því að breyta grundvallarlögum lýðveldisins.

Sú stjórnarskrá sem er í gildi í dag er þriðja stjórnarskrá sem Íslendingar hafa fengið. Okkar fyrsta stjórnarskrá tók gildi árið 1874, sú næsta árið 1920, í kjölfar þess að við urðum fullvalda ríki árið 1918. En gildandi stjórnarskrá tók gildi við lýðveldisstofnunina árið 1944.

Margir þingmenn hafa tekið til máls og rætt um breytingar og nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni og ég fæ það stundum á tilfinninguna að hv. þingmenn, margir hverjir, standi í þeirri trú að stjórnarskráin sé óbreytt frá árinu 1944, að hún hafi ekki tekið neinum breytingum frá árinu 1944. Þetta er auðvitað kolrangt og kemur fram í skýrslu sem var gerð árið 2005 og skrifuð var af Gunnari Helga Kristinssyni stjórnmálafræðiprófessor að beiðni nefndar um breytingar á stjórnarskrá. Þar kemur fram, ef við miðum við að greinar stjórnarskrárinnar séu 79 — 80. og 81. gr. er sleppt þar sem þar eru ákvæði um stundarsakir frá árinu 1944 — að af þessum 79 greinum hefur 45 verið breytt, hvorki fleiri né færri.

Ef við lítum á einstaka kafla stjórnarskrárinnar kemur hins vegar í ljós að í 1. kafla, sem er stjórnskipunin, eru tvær greinar og þeim hefur aldrei verið breytt. En í 2. kafla, sem eru forsetakosningar og ákvæði um forseta og ríkisstjórn, sem eru 28 greinar, hefur 6 verið breytt. Í 3. kafla hefur öllum greinunum verið breytt um þingkosningar. Í 4. kafla, Störf Alþingis, eru 24 greinar og 17 hefur verið breytt. Í 5. kafla, Dómsvaldið, eru 3 greinar og einni hefur verið breytt. Kirkja og trúfrelsi, þar eru þrjár greinar, tveimur hefur verið breytt. Þegar kemur að 7. kafla um mannréttindi og stjórnarskrárbreytingar, sem er 15 greinar hefur öllum breytt og í rauninni bætt við.

Þegar menn tala um að hér sé ekki um lifandi plagg að ræða sem hefur fengið að þróast í tímanna rás og í takt við tímann eru menn að fara með rangt mál. En það á eðli málsins samkvæmt að vera erfitt að breyta stjórnarskrá, það er eðli hennar vegna þess að þetta er grundvallarrit. Þetta eru lögin sem tryggja fyrst og fremst réttindi einstaklinganna og réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu. Það er það sem stjórnarskráin á fyrst og fremst að gera.

Hv. þm. Þráinn Bertelsson spurði félaga minn, hv. þm. Bjarna Benediktsson, að því áðan hvernig væri hyggilegt eða hvernig væri hægt að bera sig að við að breyta stjórnarskránni. Það er auðvitað mjög gagnmerk spurning.

Þá ætla ég að fá, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í hv. þingmann sjálfan, Þráin Bertelsson sem skrifar á Smuguna 27. apríl árið 2010 og ég hygg nefnilega að svarið leynist kannski að einhverju leyti í þessum skrifum:

„Ég fyrir mitt leyti er mjög ósáttur við þetta frumvarp“ — þ.e. það frumvarp sem við ræðum hér — „enda hefur komið fram vel rökstudd gagnrýni á það frá ýmsum umsagnaraðilum. Ég held að það sé brýnt að þjóðin setji sér nýja stjórnarskrá en ekki með þeim hætti sem þetta stirðbusalega frumvarp gerir ráð fyrir. Mér finnst það skrýtin leið að setja á stofn einhvers konar þjóðkjörna eftiröpun af Alþingi í smækkaðri mynd til að vinna það verk á stuttum tíma sem þingið sjálft hefur ekki getað komið í framkvæmd. Ég hef engan mann heyrt mæla fyrir þessu frumvarpi af mikilli sannfæringu og sýnist helst að það hugnist ekki neinum í raun og veru. Það er vægast sagt mikið vafamál að þetta útskot eða botnlangi úr fulltrúalýðræðinu sé besta svarið við óskum þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Kostnaður við þetta stjórnlagaþing er áætlaður 300 milljónir króna, mestan part launakostnaður stjórnlagaþingsfulltrúa — og ég held að bæði launakostnaður og aðrir kostnaðarliðir séu mjög vanmetnir og heildarkostnaður muni nema miklu hærri upphæð en 300 milljónum nái þetta frumvarp fram að ganga.

Hin almenna krafa um stjórnlagaþing með þátttöku almennings snýst ekki um að þjóðin óski eftir því að fá að kjósa 30 manns í fulla vinnu mánuðum saman með 300 milljóna tilkostnaði til að semja stjórnarskrá — að ofan. Krafan er um að opna leið til þess að þjóðin sjálf geti átt sem breiðasta aðkomu að því að semja nýja stjórnarskrá handa sjálfri sér.“

Hv. þm. Þráinn Bertelsson heldur síðan áfram og tekur að mestu undir mjög merkilega tillögu sem Njörður P. Njarðvík lagði fram sama dag og Þráinn birti grein sína á Smugunni . En Njörður P. Njarðvík hefur verið í fararbroddi þeirra sem talið hafa nauðsynlegt að kallað verði saman sérstakt stjórnlagaþing vegna þess að hann var búinn að missa trú á þessa virðulegu stofnun, að henni mundi auðnast að breyta stjórnarskrá með þeim hætti sem hann telur nauðsynlegt að gera.

Njörður P. Njarðvík skrifar grein í Fréttablaðið 27. apríl sl. og segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Til er ein leið til leysa þá pattstöðu sem þetta mál er komið í, og hefur Alþingi sjálft sýnt skýrt fordæmi sem telja má eins konar hliðstæðu. Það var þegar Alþingi skipaði sérstaka utanþingsnefnd til að rannsaka orsakir og tildrög efnahagshrunsins. Í því fólst sú afstaða þingsins að nauðsynlegt væri að fá utanaðkomandi fólk til þessa vandaverks, fólk sem sjálft ætti engra sérstakra hagsmuna að gæta. Þetta reyndist snjöll lausn. Vandað var til vals nefndarmanna og árangurinn eftir því, miklu umfangsmeiri og skýrari en nokkur þorði að vona. Þar var unnið af vandvirkni, menningarlegri reisn og djörfung.

Svipaða leið er unnt að fara til lausnar þessa aðkallandi máls. Alþingi getur skipað sérstaka utanþingsnefnd sem falið yrði að semja drög að nýrri stjórnarskrá, stjórnlaganefnd. Ef vandað er til vals nefndarmanna, er í rauninni ekkert sem segir, að 7–9 manna nefnd geti ekki unnið slíkt verk jafnvel og heilt stjórnlagaþing. Og það yrði áreiðanlega mun ódýrara, þótt hún hefði einhverja starfsmenn sér til aðstoðar. Nefndin gæti haft vinnubrögð rannsóknarnefndarinnar að fyrirmynd, sótt ráð sem víðast, kallað til sín fjölda manna, haldið fundi á ýmsum stöðum á landinu. Hún ætti að geta lokið störfum á 12–16 mánuðum.

Þegar hin nýja stjórnarskrá er lögð fram, tekur Alþingi hana til umfjöllunar og getur sem best vísað henni til þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Ég hygg að Njörður P. Njarðvík og hv. þm. Þráinn Bertelsson séu í rauninni búnir að finna þá leið sem við gætum hugsanlega sætt okkur við hér öll og mynda raunverulega samstöðu um það hvernig við ætlum að vinna verkið og ná fram þeim breytingum sem nauðsynlegt kann að vera þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá.

Ég hygg að þegar einn helsti og ötulasti talsmaður og baráttumaður fyrir því að skipað verði stjórnlagaþing til að taka völdin af Alþingi leggur til slíka tillögu sem Njörður P. Njarðvík hefur gert og gerði þegar 27. apríl sl. í opinberri grein finnst mér fráleitt annað en að meiri hluti Alþingis athugi það og ræði það af fullri alvöru hvort hugmynd Njarðar P. Njarðvíks sé ekki bara skynsamleg niðurstaða og grunnur að því að við náum raunverulegri samstöðu og þeirri sem við erum þó öll sammála um að væri skynsamlegast, eðlilegast og best að við næðum hér, samstöðu um það hvernig við ætlum að ná fram nauðsynlegum breytingum á mikilvægasta plaggi sem við eigum, sem er stjórnarskrá lýðveldisins.

Þingmönnum verður oft tíðrætt um að nauðsynlegt sé að endurreisa virðingu Alþingis og styrkja löggjafarsamkomuna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mér finnst það furðulegt að stuðningsmenn stjórnarflokkanna telji að það að kjósa til stjórnlagaþings sé besta leiðin til að auka virðingu Alþingis. Stjórnarskráin leggur nefnilega þær skyldur á herðar okkar þingmönnum að standa að þeim breytingum sem við þurfum að gera, stjórnarskráin leggur þær skyldur á okkur að standa að þeim breytingum. Að koma sér undan þeim skyldum með beinum eða óbeinum hætti, hvort heldur það er að kjósa ráðgefandi stjórnlagaþing eða fallast á tillögu líkt og framsóknarmenn hafa lagt hér fram, mun aldrei auka virðingu almennings fyrir störfum þessarar ágætu stofnunar eða samkomu. Ég fullyrði að hugmyndin að baki stjórnlagaþingi gangi þvert á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Hún gengur gegn anda hennar, en þar er kveðið á um hvernig og með hvaða hætti standa skuli að breytingum á stjórnarskránni. Vilji meiri hluti Alþingis standa þannig að málum að kjósa eigi ráðgefandi stjórnlagaþing verða þeir að byrja á því að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ég hygg að það sé forsenda þess að hægt sé að ræða og afgreiða það frumvarp sem við ræðum hér.

Af því að ég sé að tími minn fer að styttast vil ég líka gera smáathugasemdir við frumvarpið sjálft eða réttara sagt þær áætlanir sem gerðar eru í frumvarpinu. Ég vitnaði hér í hv. þm. Þráin Bertelsson, sem taldi að kostnaðurinn væri um 300 milljónir og hefur hann þá byggt á greinargerð frumvarpsins. Það er misjafnt hvernig þetta er mælt en í greinargerð fjárlagaskrifstofu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Erfitt er að meta kostnað við stjórnlagaþing með nákvæmni. Fyrir utan óvissu um endanlegan fjölda þingfulltrúa og tímalengd þinghalds er óvissa um margt annað sem hefur áhrif á kostnað. Gildir það um nánari tilhögun og fyrirkomulag á þinghaldinu sjálfu, aðbúnað allan og umgjörð, starfsmannafjölda, aðkeypta sérfræðiaðstoð, húsnæðismál og annað sem áhrif hefur á kostnað við þinghaldið og starfrækslu þingsins.“

Í yfirliti sem birtist með þessu kemur síðan fram að áætlaður kostnaður sé allt frá 360 og upp í liðlega 440 milljónir, fer eftir því hvort starfstíminn er áætlaður 8–11 mánuðir. En þegar þessi áætlun er gerð er alveg ljóst að kjósa átti til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Nú er ég ekki alveg klár á því hvað það kostar að efna hér til kosninga en ég hygg að kostnaðaráætlun þessa frumvarps sé öll úr lagi gengin, það sé ekkert að marka hana, óvissan er til staðar eins og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins viðurkennir, mikil óvissa, og síðan bætast líklegast við u.þ.b. 200 milljónir kr. a.m.k. við að halda kosningarnar. Þá spyr ég: Haldið þið að það sé forsvaranlegt að efna til þess að stefna saman 25–31 Íslendingi til að vera ráðgefandi í breytingum á stjórnarskránni fyrir 600 millj. kr. eða meira? Ég hygg að bara þetta svari því að við erum á einhverjum villigötum og ég tel að þessi góða samkoma geti náð saman og staðið skynsamlega að verki ef við t.d. gætum náð saman um tillögu sem er í anda þess (Forseti hringir.) sem einn helsti talsmaður stjórnlagaþings og baráttumaður til margra ára hefur lagt til.