Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 21:44:07 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:44]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir alveg afburða skemmtilega ræðu og hlutar hennar voru eins og músík í mínum eyrum.

Ég var ekki beinlínis að spyrja að því hvernig maður ætti að bera sig að því að semja nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland vegna þess að á því hef ég ákveðnar skoðanir sem ég hef lagt fram og eru mjög samhljóma skoðunum Njarðar P. Njarðvíks sem hv. þingmaður vitnaði réttilega til. Ég tel af og frá að fara út í harðar kosningar hjá þjóðinni til að kjósa 25–31 aðila til verksins. Verk stjórnlagaþingsins er að semja nýja stjórnarskrá handa Íslendingum. Þetta er stjórnarskrá lýðveldisins sem ég held á í hendinni, þetta eru sjö vélritaðar blaðsíður. Að ætla að láta 30 manna þing rífast um þetta á fullu kaupi mánuðum saman finnst mér algjörlega geðveik aðferð. Ég vil litla ritnefnd sem sér um að semja stjórnarskrána upp á nýtt og leitar eftir hugmyndum frá allri þjóðinni sem menn mega setja fram án þess að hafa verið kosnir til þess, án þess að hafa neitt umboð nema frá sjálfum sér.

Við erum nýbúin að kjósa nefnd á þinginu — að vísu sat ég ekki á því þingi — sem samdi skýrslu sem er miklu meiri að vöxtum. Hérna er hluti af þeirri skýrslu, hún er um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna frá rannsóknarnefnd. (Forseti hringir.) Þetta er aðeins eitt bindið af henni, 300 síður af 2.300. Effektíft.