Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 21:54:43 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal hans innlegg. Ég mótmæli engu sem hann segir. Ég held að við eigum að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar með þeim hætti sem hann talar um, en það má þó ekki vera þannig að það verði einstaklega auðvelt að hringla með stjórnarskrána fram og til baka og koma fram með stjórnarskrá eins og við gerum hér í lagasetningu þar sem framkvæmdarvaldið dælir inn jafnvel 100 frumvörpum sem á að afgreiða á örfáum dögum, jafnvel innan við viku. Þannig vil ég ekki að menn stundi stjórnarskrárbreytingar.