Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 21:57:01 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Hvað ætli margir landsmenn hafi lesið stjórnarskrá okkar? Ég viðurkenni að ég hafði hreinlega aldrei lagt mig fram við að finna þessa litlu bók fyrir hrun. Það var ekki fyrr en í árdaga hrunsins að ég kynnti mér þetta plagg og komst að því að ég fann lítinn samhljóm með því sem þar stendur. Ég fékk það svo staðfest af mér fróðari mönnum að þessi blessaða stjórnarskrá væri samrit af stjórnarskrá Danaveldis. Þá skildi ég af hverju þeir lagabókstafir sem ég hafði heyrt fleygt fyndu sér ekki farveg innra með mér. Þetta er ekki stjórnarskrá samin af íslensku þjóðinni fyrir þjóðina, heldur afrit af fornu plaggi kónga og drottnara frá öðru landi, landi sem drottnaði yfir þjóðinni. Enn svíður undan því að hafa verið nýlenda annars ríkis, þó svo ég hafi svo sem ekkert upp á nútíma Dani að klaga. Í dönsku stjórnarskránni okkar var forseti límdur inn í stað kóngs. Í dönsku stjórnarskránni okkar býr ekki snefill af þjóðarsál þess fólks sem hér býr.

Ég var í alls konar grasrótarhópum, frú forseti, og mætti á fjölbreytta fundi í árdaga hrunsins, með alls konar skemmtilegu og spöku fólki sem kunni góð skil á stjórnarskránni og annarra landa stjórnarskrám. Ég lærði mikið um það hvernig alls konar fólk langaði að fá tækifæri til að hafa áhrif á það hvers konar samfélag risi úr öskustónni. Þar voru margar hugmyndir sem mér hugnaðist. Ég fann samhljóm og mig langaði að taka þátt í að finna leið til að móta samfélag mitt með alls konar fólki sem ég þekkti ekki neitt, en sá með þeim möguleika á því að hrinda í framkvæmd beinna lýðræði en áður hefur tíðkast hérlendis. Á þessum tíma fór ég mikið að spá í stjórnarskrána og hugtakið stjórnlagaþing og komst að þeirri niðurstöðu að sennilega væri besti farvegur okkar sem þjóðar, til að vinna saman að því að móta hið nýja Ísland, fólginn í samræðum um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Vettvangur fyrir slíkar samræður væri tengdur því að tala um hornstein þann sem við viljum meitla saman og gæti kallast stjórnarskrá, eða einfaldlega samfélagssáttmáli.

Mér finnst hugtakið stjórnarskrá stundum frekar þurrt og óspennandi og stjórnlagaþing kveikir ekki í mér, nema það sé frekar hugsað sem þing fólksins, samkoma almennings um samfélag sitt. Kannski tek ég þetta orð í sátt ef stjórnlagaþing yrði að slíku þingi, þingi fólksins, vettvangur orðræðu um hvert við ætlum saman í framtíðinni. Hvað finnst okkur mikilvægast og hvað er það sem við getum öll verið sammála um? Við getum verið sammála um að við búum öll hér á þessu landi. Við getum kannski verið sammála um að það sé mikilvægt að tryggja að við varðveitum náttúruauðlindir okkar fyrir komandi kynslóðir. Við getum kannski tileinkað okkur hugarfar margra frumbyggja sem líta svo á að þeim beri að varðveita land sitt og allt sem á því hrærist fyrir næstu sjö kynslóðir. Það er hlutverk hverrar kynslóðar. Mér finnst það falleg hugmyndafræði, en kannski hugnast hún ekki öllum. Kannski getum við verið sammála um að við þurfum að geta veitt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald og kannski getum við orðið sammála um að hér þurfi að vera alvöru þrískipting valds.

Ég veit eiginlega ekki hvað öllum finnst mikilvægt. Þess vegna langar mig að fá tækifæri til að eiga þetta samtal við aðra Íslendinga. Mig langar að heyra hvað fólki finnst að verði að vera í stjórnarskrá, samfélagssáttmála. Mig langar til að ræða við fólk um það og sjá hvað fær þjóðarsálina til að slá samhljóm. Ég held nefnilega að ef fólk væri hvatt til þess og gefið tækifæri og verkfæri, þá mundi það vilja hafa miklu, miklu meiri áhrif á samfélag sitt en flestir gera í dag.

Mér finnst þetta frumvarp um margt ágætt, en það er enn svo langt í land með að vera það sem ég og allt það fólk sem sat fund eftir fund ræddi um, þegar okkur dreymdi um að skrifa nýja stjórnarskrá og hvernig stjórnlagaþing gæti best orðið. Ég veit að mikil vinna hefur verið lögð í frumvarpið og ég hef heyrt að vinnan hafi verið vönduð, en ég hef líka heyrt að það sé ekki samhljómur í nefndinni. Það veit ekki á ágætisbyrjun að ósætti sé við að meitla þennan mikilvæga hornstein framtíðar landsins. Því skora ég á og mæli með að þetta mál verði tekið aftur í nefnd og gefinn sá nauðsynlegi tími sem þarf til að tryggja að þetta fari út í sátt en ekki sundurlyndi.

Það er lýðræðinu hættulegt að almenningur kunni ekki skil á stjórnarskrá sinni. Í skjóli vanþekkingar og áhugaleysis á þessu plaggi hafa stjórnarskrárbrot fengið að þrífast, ekki bara stundum heldur stundum daglega. Til að almenningur geti fylgst með og veitt sínum kjörnu fulltrúum nauðsynlegt aðhald, þarf aðgengi hans og skilningur á stjórnarskrá landsins að vera almennur. Sú er ekki raunin. Litla stjórnarskrárkverið sem ég fann hér á þinginu er hvergi fáanlegt og mun vera uppselt. Það fæst ekki í bókabúðum og þau svör sem fólk fær þegar það gerir sér far til að útvega sér stjórnarskrána, er að það geti bara fundið hana á netinu. Það finnst mér algerlega ótækt.

Ég ætla því að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa stjórnarskrána fyrir almenning og skora jafnframt á þá sem hafa umsjón með prentun og dreifingu á stjórnarskrá landsmanna, sem þó er fengin að gjöf frá danska kónginum, að sjá til þess að allir sem það vilja geti fengið eintak af stjórnarskrárkverinu:

„Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

I.

1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

II.

3. gr. Forseti Íslands skal vera þjóðkjörinn.

4. gr. Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.

5. gr. Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000. Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, þá er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu.

Að öðru leyti skal ákveða með lögum um framboð og kjör forseta, og má þar ákveða, að tiltekin tala meðmælenda skuli vera úr landsfjórðungi hverjum í hlutfalli við kjósendatölu þar.

6. gr. Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að 4 árum liðnum. Forsetakjör fer fram í júní- eða júlímánuði það ár, er kjörtímabil endar.

7. gr. Nú deyr forseti eða lætur af störfum, áður en kjörtíma hans er lokið, og skal þá kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá kosningu.

8. gr. Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum, og skulu þá forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar fara með forsetavald. Forseti Alþingis stýrir fundum þeirra. Ef ágreiningur er þeirra í milli, ræður meiri hluti.

9. gr. Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja.

Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.

10. gr. Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.

Forseti verður ekki sóttur til refsingar, nema með samþykki Alþingis.

Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn.

Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.

12. gr. Forseti lýðveldisins hefur aðsetur í Reykjavík eða nágrenni.

13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík.

14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.

15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.

16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.

Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.

17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.

18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.

19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.

20. gr. Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.

Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.

Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það.

Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.

Með lögum má undanskilja ákveðna embættismannaflokka auk embættismanna þeirra, sem taldir eru í 61. gr.

21. gr. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.

22. gr. Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Forsetinn setur reglulegt Alþingi ár hvert.

23. gr. Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári. Alþingi getur þó veitt forseta samþykki til afbrigða frá þessum ákvæðum.

Hafi Alþingi verið frestað getur forseti lýðveldisins eigi að síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til. Forseta er það og skylt ef ósk berst um það frá meiri hluta alþingismanna.

24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.

25. gr. Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.

26. gr. Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

27. gr. Birta skal lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fer að landslögum.

28. gr. Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný.

Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi.

Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.

29. gr. Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.

30. gr. Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.

III.

31. gr. Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.

Kjördæmi skulu vera fæst sex en flest sjö. Mörk þeirra skulu ákveðin í lögum, en þó er heimilt að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni.

Í hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu. Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skal að öðru leyti ákveðinn í lögum, sbr. þó 5. mgr.

Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun. Setja skal nánari fyrirmæli um þetta í lög.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

32. gr. Alþingi starfar í einni málstofu.

33. gr. Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Lögheimili á Íslandi, þegar kosning fer fram, er einnig skilyrði kosningarréttar, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis.

Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í kosningalögum.

34. gr. Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð. Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.

IV.

35. gr. Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og stendur til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið. Samkomudegi reglulegs Alþingis má breyta með lögum.

36. gr. Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi.

37. gr. Samkomustaður Alþingis er jafnaðarlega í Reykjavík. Þegar sérstaklega er ástatt, getur forseti lýðveldisins skipað fyrir um, að Alþingi skuli koma saman á öðrum stað á Íslandi.

38. gr. Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.

39. gr. Alþingi getur skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“

Nú er einsýnt að ég næ ekki að lesa þetta plagg og ætla ég að biðja um að ég verði sett aftur á mælendaskrá til þess að klára þetta.

Mig langar að lokum, frú forseti, að hvetja alla þá sem langar í betri stjórnarskrá, sem lifir í hjarta þeirra og þeir finna að þeir vilja eiga tilkall til, að koma í þá vegferð saman að finna þann samhljóm sem við sárlega þurfum á slíkri örlagastund sem við lifum núna. Þetta er sá tími í sögu landsins sem ætti að þjappa þjóðinni saman, en ekki sundra. Látum ekki pólitíska hugmyndafræði þvælast fyrir, heldur finnum það sem sameinar okkur og byggjum stjórnarskrá okkar á því.