Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 22:25:17 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við sem erum hér inni erum að ég tel flest ef ekki öll sammála um að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskránni. Líklega erum við þó ekki sammála um hverjar þær breytingar eigi að vera og svo sem er ekkert líklegt við það því að ljóst er af umræðum hér í kvöld að við erum hreint ekki sammála um hvernig standa eigi að breytingunum, þ.e. með hvaða aðferðum við ætlum að reyna að nálgast það hvernig ný stjórnarskrá mun líta út. Það er gott og blessað, virðulegi forseti, og ég geri engar athugasemdir við það.

Ég vil hins vegar gera alvarlegar athugasemdir við það að hv. þingmenn tali um það frumvarp sem hér liggur fyrir sem ófreskju. Þeir hafa aðrar skoðanir og ég kýs ekki að leggja þeim skoðunum eða þeim aðferðum sem þar eru lagðar til nein nöfn. Ég ber virðingu fyrir þeim, ég er ekki sammála en ég kalla þær ekki ófreskjur.

Ég vil líka, virðulegi forseti, gera athugasemdir við það orðalag að meiri hluti vaði yfir minni hluta á skítugum skónum og síðan er haldið áfram, að ef smátími hefði liðið hefði minni hlutinn breyst í meiri hluta og hann þá væntanlega vaðið yfir ég veit ekki hvern og þá væntanlega á hreinum stígvélum, geri ég ráð fyrir. Mér finnst, virðulegi forseti, að við eigum almennt og yfirleitt að reyna að gæta að orðfæri okkar í þessu húsi og bera pínulitla virðingu fyrir skoðunum hvers annars þótt ólíkar séu. Mér finnst, virðulegi forseti, að við eigum að gera það með þeim orðum sem við veljum að nota.

Virðulegi forseti. Ég tel áríðandi að við komumst sem fyrst að niðurstöðu um hvernig unnið verði að endurskoðun stjórnarskrárinnar og vil að sú vinna hefjist við fyrsta tækifæri. Vissulega er nauðsynlegt að vinna að skuldavanda heimila og fyrirtækja en það er einnig mjög áríðandi að huga að undirstöðum þjóðfélagsuppbyggingarinnar og stjórnskipuninni. Svo sem vitað er voru það ekki bara bankarnir sem brugðust heldur einnig stjórnkerfið og það er á okkar ábyrgð að það verði lagfært.

Tillaga um að halda stjórnlagaþing er í raun og veru róttæk í þeirri merkingu orðsins að sú aðferð hefur ekki verið notuð hér fyrr. Tillagan felur í sér að þjóðin kýs sérstaklega fulltrúa sem hafa það verkefni í átta til ellefu mánuði að semja nýja stjórnarskrá. Það er sú leið sem ég tel heppilegasta við það að þjóðinni sé búin ný stjórnarskrá, að fólkið í landinu kjósi sína fulltrúa á stjórnlagaþing, konur og karla, allt að 31, til að endurskoða og endurrita stjórnarskrána.

Þær hugmyndir hafa verið uppi að valið verði til stjórnlagaþings með slembiúrtaki til að tryggja að þar sitji þverskurður af þjóðinni. Einnig var í allsherjarnefnd t.d. ræddur sá kostur að hluti fulltrúa væri kosinn en hluti valinn með slembiúrtaki.

Virðulegi forseti. Ég hef íhugað þessa möguleika, ég hef skoðað þá, ég hef reynt að kynna mér þá gaumgæfilega og ég hef komist að niðurstöðu. Í mínum huga er hvorugt framkvæmanlegt svo vel sé og kannski bara alls ekki framkvæmanlegt. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, virðulegi forseti, að þess vegna sé betra að kjósa til stjórnlagaþingsins. Það er mín niðurstaða, það þarf ekki endilega að vera að hún sé rétt, en það er mín niðurstaða og ég tel það vera eitt af hlutverkum stjórnmálamanna að komast að niðurstöðum. Hins vegar er það náttúrlega mjög nauðsynlegt og alveg bráðnauðsynlegt að hafa sem best og víðtækast samráð við þjóðina í vinnunni sem fram undan er á stjórnlagaþingi.

Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar er lögð áhersla á að fulltrúar á stjórnlagaþingi eigi samtal og hafi samráð við þjóðina og noti til þess þær aðferðir sem bestar þekkjast og teljast. Líklega væri best að fulltrúar á stjórnlagaþingi ákvæðu sjálfir hvaða aðferðir það væru. Ein aðferð gæti verið sú sem viðhöfð var á þjóðfundunum sem haldnir voru hér á landi í fyrrahaust. Aðrar aðferðir eru kunnar. Ein mun vera nefnd á ensku ,,deliberative democracy“ sem kannski mætti útleggja sem samræðu- eða umræðustjórnmál og eru fræði sem ég ætla mér ekki þá dul að kunna mikil skil á en ég skil þó að þetta er aðferð til að reyna að sameina eiginleika beins lýðræðis og fulltrúalýðræðis. Eftir því sem ég kemst næst er engin af þessum félagsfræðilegu aðferðum þó viðurkennd sem óbrigðul eða hin eina rétta. En það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að það besta sem til er í þessum fræðum verði notað til að kanna skoðanir fólks á því áríðandi verkefni sem það er að semja nýja stjórnarskrá fyrir land og þjóð. Við getum hins vegar heldur ekki ætlast til á þessum þjóðfundum eða í þessu samráði að allir hafi óbilandi áhuga á verkefninu og því skiptir máli að kjósendur geti valið sér fulltrúa til að sinna verkefninu á stjórnlagaþingi sem hafi við þá samráð og samræður verði þar á milli. Við getum ekki ætlast til þess að hver einasta manneskja hafi óbilandi áhuga á þessu verkefni.

Virðulegi forseti. Eins og við báðar vitum verður stjórnarskrá ekki hrist fram úr erminni jafnvel þó að við öll hér værum sammála um hvernig hún ætti að vera. Stjórnarskráin okkar — gömul eins og hún er — segir nefnilega fyrir um hvernig henni skuli breytt. Og þeim reglum verðum við að hlýða hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég tek undir með mörgum þingmönnum sem hafa sagt í kvöld að það eigi ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskránni, ég er hjartanlega sammála því, og það er ekki auðvelt að breyta stjórnarskránni okkar. Til að breyta henni þarf Alþingi að samþykkja breytta eða nýja stjórnarskrá. Þegar Alþingi hefur gert það ber að rjúfa þing og boða til kosninga og síðan þarf hið nýja þing að samþykkja hina nýju stjórnarskrá óbreytta.

Sjö sinnum hefur stjórnarskránni verið breytt hér á landi og ég held að þjóðin hafi aldrei, eins og kom fram í ræðum áðan, áttað sig á því að í kosningunum væri hún líka að breyta stjórnarskránni, nema líklega í eitt skipti árið 1959 þegar kjördæmaskipan var breytt úr einmenningskjördæmum yfir í það kjördæmafyrirkomulag eða kjördæmaskipan sem hefur verið beitt síðan og við þekkjum nánar og betur.

Hinar breytingarnar eru allar meira og minna um kosningalög, að undantekinni einni, sem var breyting á mannréttindaákvæðunum. Þannig að á lýðveldistímanum hefur mannréttindaákvæðunum verið breytt og síðan hafa þetta meira og minna verið kosningalög og ég þori næstum að fullyrða að fólk hefur sjaldnast gert sér grein fyrir því að það væri að breyta stjórnarskránni þegar það kaus. Það kaus bara sína gömlu flokka af einhverjum allt öðrum ástæðum en stjórnarskránni.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að stjórnarskránni verður einungis breytt með þessari aðferð. Hvorki stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðsla né nokkur önnur aðferð breytir því. Þetta er aðferðin.

Þetta þýðir þó ekki að löggjafinn sé stjórnarskrárgjafinn. Í bók sinni Stjórnskipunarréttur segir Gunnar G. Schram prófessor, með leyfi forseta:

,,Stjórnarskráin er sett af öðrum aðila en almenn lög.“

Það er að segja að löggjafinn á Alþingi setur lög en við getum ekki breytt stjórnarskránni vegna þess að það þarf meira til.

„Stjórnarskrárgjafann verður því glöggt að greina frá almenna löggjafanum.“

Virðulegi forseti. Ég skil þetta þannig að stjórnarskrárgjafinn sé þessi þrenning, þ.e. þing, kosning og svo annað þing.

Virðulegi forseti. Ég heyri á mörgum áhugamönnum um stjórnarskrárbreytingar að sú aðferð sem hér er gerð tillaga um sé alveg hreint ómöguleg vegna þess að þingið verði ráðgefandi. Þetta er hins vegar staðreynd sem ekki verður umflúin við þær aðstæður sem við búum við, eins og ég hef farið í gegnum hér. Ég tel meira liggja á en svo að hefjast handa við breytingar á þessari grunnlöggjöf okkar að við getum beðið eftir því að breyta stjórnarskránni. Þess vegna tel ég ástæðu til að við hefjumst nú þegar handa við stjórnlagaþing. Það hefur verið sagt við mig að við ættum ekki að leggja á það þá áherslu sem við gerum eða að við ættum að fara hljótt með það að þingið sé ráðgefandi vegna þess að fólk vilji það ekki. En það verður náttúrlega að segja hlutina eins og þeir eru og það stjórnlagaþing sem nú er verið að leggja til verður ráðgefandi hvort heldur okkur líkar það betur eða verr.

Virðulegi forseti. Ég trúi því að komist þjóðkjörið stjórnlagaþing að niðurstöðu og sendi Alþingi tillögu að nýrri stjórnarskrá muni alþingismenn virða þá tillögu og taka fyrsta skrefið í átt að hinni formlegu breytingu á stjórnarskránni og samþykkja tillöguna. Eftir það kýs þjóðin sér nýtt þing og það þing hefur síðan lokaorðið og getur staðfest eða fellt tillöguna. Vonandi verður hið fyrrnefnda ofan á, að hið nýja þing eftir næstu kosningar staðfesti nýja stjórnarskrá og þá eru líkur til að við getum eignast nýja stjórnarskrá eftir þrjú ár.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið sagt að við sem erum á þessari skoðun viljum ekki hlusta á þá sem hafa aðra skoðun. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að betra sé að fólk kjósi 25 til 31 í þjóðkjöri á stjórnlagaþing en að við hér á þinginu útnefnum einhverja 9 valinkunna Íslendinga til að taka að sér verkefnið.

Virðulegi forseti. Ég treysti fólki betur til að velja þetta fólk til að sinna þessu verkefni en okkur hér til að velja einhverja 9 valinkunna menn. Ég segi þetta að hluta til vegna þess að það er svo margt fólk til hér á landi sem við kannski ekki þekkjum sem hefur áhuga á þessum málum og vill láta sig þau varða. Við hér erum því miður alltaf að veiða fólk upp úr sama pottinum til að gera einhverja hluti.

Því hefur verið haldið fram að við fáum ekki þessa valinkunnu einstaklinga til að taka þetta verkefni að sér ef þeir eða þær þurfa að fara í gegnum kosningar. Ég mótmæli því. Ef fólk vill ekki leggja kosningar á sig til að taka þetta veigamikla verkefni að sér spyr ég bara: Viljum við þá hafa það fólk? Vill fólk, sem vill taka að sér svo veigamikið verkefni, ekki leggja eitthvað á sig til þess?

Ég vil líka benda á það, virðulegi forseti, að í þessum tillögum er kosningafyrirkomulagið alls ekki það sama og við búum við í dag. Hér er talað um persónukosningu, hér yrði einn listi með nöfnum þar sem kjósendur gætu merkt í töluröð 1, 2, 3. Ég ætla ekki að fara út í reikniæfingar um það en atkvæðið nýtist mjög vel þannig að „technical voting“ eða tæknileg atkvæði, það er nánast ekki hægt að nota slíka aðferð.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé góð aðferð til að vinna að nýrri stjórnarskrá. Ég veit að aðrir hafa aðrar skoðanir og við munum þá takast á um þær á endanum. Væntanlega verður það þannig á endanum að atkvæði verða að skera úr um — það er nú það sem lýðræði er. Ef svo verður trúi ég að við munum öll una því hvernig sem það verður. En ég bið aftur um það að þær hugmyndir sem ég tala fyrir séu ekki uppnefndar og ég uppnefni ekki hugmyndir annarra. Ég bið líka um það að þegar ég held fram minni skoðun sé ég ekki að vaða yfir annað fólk á óhreinum skónum.