Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 22:55:54 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:55]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú er hér stendur vill fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Ef menn segja að þeir vilji fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni tel ég að þeir eigi líka að sýna það í verki. Maður á að meina eitthvað með því sem maður segir og sýna það í verki. Þess vegna get ég strax upplýst að ég mun styðja þetta mál. Ég mun styðja að farið verði í ráðgefandi stjórnlagaþing af því að ef menn ætla að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni eiga menn að sýna það í verki og þetta er aðferð til þess.

Framsóknarmenn hafa rætt þessi mál mjög lengi og mig langar til að fara yfir forsöguna. Framsóknarflokkurinn komst að því eftir talsvert mikla umræðu, sem hófst í íbúalýðræðisnefnd sem fyrrverandi hv. þingmaður og ráðherra, Jón Kristjánsson, veitti forstöðu, að endurskoða þyrfti stjórnarskrána og að rétt væri að gera það á svokölluðu stjórnlagaþingi, sem er þing í þeim anda sem við ræðum hér en ekki alveg eins. Munurinn er sá að þetta ráðgefandi þing sem nú er til umræðu á að skila heildartillögu sinni að endurskoðaðri stjórnarskrá til Alþingis. Þetta er þjóðkjörið þing sem skilar afurð sinni hingað inn og svo eigum við að taka við og annaðhvort samþykkja tillöguna óbreytta eða breyta henni eftir því hvernig okkur líst á.

Í hugmyndum okkar framsóknarmanna um stjórnlagaþing vorum við með annars konar þing í huga, svokallað bindandi stjórnlagaþing sem þýðir að stjórnlagaþingið sem átti að vera þjóðkjörið, eins og það sem við ræðum hér, átti ekki að skila afurðinni hingað inn heldur til þjóðarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðsla átti að fara fram um niðurstöðu þess stjórnlagaþings og þá fyrst ef þjóðin hefði samþykkt tillöguna hefðum við verið komin með nýja stjórnarskrá í hendurnar. Þetta er grundvallarmunurinn á þessum tveimur málum. Allt hitt er ósköp lítilvægt. Ég ætla samt líka að fara í þann mun í ræðu minni.

Í ályktun Framsóknarflokksins frá því á flokksþingi okkar í fyrra koma þessi atriði fram. Það var ályktun um stjórnlagaþing og mig langar að grípa niður í hana. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Að stjórnskipun Íslands verði endurskoðuð á sérstöku stjórnlagaþingi þar sem stjórnarskrá Íslands og eftir ástæðum viðeigandi lög um stjórnsýslu, dómstóla, löggjafarstarf og kosningar verði endurskoðuð til samræmis við framsæknar hugmyndir um stjórnskipun landsins um gagnsæi, lýðræðislega þátttöku og jafnvægi milli valdþátta.“

Síðan eru tilgreind og talin upp þau álitamál sem kemur til greina að skoða á svona stjórnlagaþingi, t.d. um valdþættina. Sú er hér stendur hefur lagt fram frumvarp um að ráðherrar eigi ekki líka að sitja samtímis á þingi og vera með tvo hatta, löggjafarhattinn og framkvæmdarvaldshattinn. Líka hvort auka eigi valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum, þ.e. persónukjör og ýmis mál af þeim toga. Ég ætla ekki að lesa upp þennan lista, hann er ansi langur. Síðan segir um fyrstu skrefin til að ná þessu fram, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Framsóknarflokksins skal leggja fram tillögu á Alþingi um kosningu til stjórnlagaþings í samræmi við niðurstöður íbúalýðræðisnefndar flokksins. Einnig verði lögð fram tillaga um breytingu á stjórnarskránni þess eðlis að breytingar á stjórnarskrá verði bornar undir þjóðaratkvæði.“

Hér er um að ræða þetta svokallaða bindandi stjórnlagaþing. Hér er verið að vísa valdinu til að gera breytingar á stjórnarskrá frá Alþingi. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn talar hart gegn og telur að komi ekki til greina og það kemur fram í minnihlutaáliti Sjálfstæðisflokksins. Þeir telja að ekki komi til greina að vísa þessu valdi frá Alþingi en Framsóknarflokkurinn telur það koma mjög vel til greina og flutti frumvarp þar að lútandi sem ekki var samþykkt.

Nú hef ég, virðulegi forseti, farið yfir þá ályktun sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu, þ.e. að við vildum stjórnlagaþing og vildum hafa það bindandi. Við þingmennirnir gerðum það sem til var ætlast af okkur. Við fluttum í framhaldinu frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins og sú er hér stendur var 1. flutningsmaður og svo voru aðrir hv. þingmenn úr flokknum. Þetta er sem sagt breyting á stjórnarskránni. Það er grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því að í þessu frumvarpi fólst breyting á stjórnarskránni, þannig að ef frumvarpið hefði verið samþykkt hefði þurft að boða til kosninga og fara svo eftir því sem innihald frumvarpsins fjallaði um og samþykkja það svo aftur á nýju þingi. Stjórnarskráin okkar í dag krefst þess og að þessu öllu gerðu hefði verið hægt að fara að vinna að stjórnlagaþinginu sem við vildum, svokölluðu bindandi stjórnlagaþingi.

Í 1. gr. frumvarpsins sem við fluttum á sínum tíma segir að á þessu þingi skuli sitja 63 fulltrúar, kjörnir í almennum kosningum í landinu. Við vildum hafa 63 fulltrúa. Við vildum hafa tvöfalt fleiri en þá 25 til 31 sem nú er verið að ræða um fyrir þetta ráðgefandi stjórnlagaþing. Reyndar var í nefndinni um íbúalýðræði fjallað um miklu fleiri. Fyrst var jafnvel talað um 300 manns. Svo þótti það allt of dýrt og það var farið niður í 127 sem er tvöföld tala þingsins í dag. Svo þótti það líka of dýrt af því að það var skollin á kreppa og þá var þessi tala færð niður í 63. Það var sú tala sem við framsóknarmenn lögðum fram á þinginu.

Í frumvarpinu kemur líka fram að þingið átti að starfa í sex mánuði en gat framlengt þann tíma um tvo mánuði og var þá komið í átta mánuði en það er einmitt sú tala sem er í frumvarpinu sem við ræðum hér. Þetta ráðgefandi þing á að geta starfað í átta mánuði og getur hugsanlega framlengt það um þrjá og er þá komið upp í ellefu mánuði þannig að þetta er ósköp líkt, tímalengdin er mjög svipuð.

Síðan er aðeins fjallað um það hvernig þetta þing átti að vinna og svo er tilgreint að þegar stjórnlagaþingið hefði unnið sína vinnu þyrftu tveir þriðju hlutar kjörinna fulltrúa að samþykkja tillögu að nýrri stjórnarskrá á þessu bindandi stjórnlagaþingi og þá átti sú tillaga að fara til þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki til Alþingis. Það átti að vísa valdinu frá Alþingi og beint til þjóðarinnar. Það er stóri munurinn.

Mig langar líka aðeins að undirstrika að hér erum við að tala um heildarendurskoðun á stjórnarskránni, sem er mjög mikið verk og þess vegna töldum við eðlilegt að vísa ætti því í sérstakt ferli, þ.e. í stjórnlagaþing og taka það úr höndum Alþingis.

Varðandi frumvarpið sem við erum að ræða er það rétt sem kemur fram að stjórnlagaþingið er ráðgefandi og í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Stjórnlagaþingi sem getur einungis verið ráðgefandi vegna ákvæða stjórnarskrár er því í reynd falið að vinna ákveðna grunnvinnu og undirbúa frumvarp til stjórnarskipunarlaga fyrir Alþingi.“

Þarna er verið að vinna ákveðna grunnvinnu á þjóðkjörnu stjórnlagaþingi þar sem þingmenn sitja ekki og þá er ekki hægt að segja annað en að þetta komist næst því að vera bindandi stjórnlagaþing. Þetta er alls ekki bindandi stjórnlagaþing en þetta er næsti bær við ef svo má að orði komast. Þarna á þjóðkjörið þing að fara yfir stjórnarskrána með heildstæðum hætti, vinna álíka lengi og bindandi stjórnlagaþing og verkefnið er það sama.

Það er líka ákvæði um að á þessu þingi eigi að sitja minnst 25 og mest 31 og mig langar aðeins til að grípa niður í það af því að mér líst mjög vel á þær hugmyndir sem koma fram hjá meiri hluta allsherjarnefndar að það eigi að tryggja sem best jafnræði kynjanna. Ef annað kynið, og líklegra er að það verði konur, fer illa út úr kosningu inn á þetta ráðgefandi stjórnlagaþing þá er hægt að bæta við því kyni sem fer illa út úr kosningunni, mest upp í 31. Þetta er gert til að reyna að ná betra kynjajafnvægi og rétta hlutföllin af og ég er mjög ánægð með að þetta ákvæði skuli vera inni. Þetta er algerlega í anda Framsóknarflokksins. Í lögum Framsóknarflokksins er ákvæði um jafnrétti kynjanna og að stefnt skuli að því að hafa 40% af hvoru kyni í öllu starfi flokksins. Framsóknarflokkurinn hefur líka sett sér kynjakvóta og raðað upp á lista og ég get nefnt að þegar við röðuðum upp á lista hjá Framsóknarflokknum í Suðvesturkjördæmi, því kjördæmi sem ég sit fyrir, þá var það gert með kynjakvóta. Þar var sú regla að í efstu þremur sætunum varð að vera a.m.k. ein kona og einn karl og í efstu fimm a.m.k. tvær konur og tveir karlar. Viti menn þessi kynjakvóti virkaði. Við þurftum að færa niður tvær konur. Fimm konur lentu í fimm efstu sætunum í prófkjöri og voru færðar niður vegna kynjakvóta. Þá var um að ræða hugsanlegt þingmannssæti til fjögurra ára en ekki sæti á ráðgefandi stjórnlagaþingi í mesta lagi til 11 mánaða þannig að Framsóknarflokkurinn hefur svo sannarlega tekið kynjakvóta upp með afgerandi hætti. Framsóknarmenn gerðu þetta líka í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Þar var kynjakvóti, að vísu ekki mjög sterkur kynjakvóti en í efstu 12 sætunum urðu að vera 6 af hvoru kyni og í efstu 6 sætum 3 af hvoru kyni. Þannig gátu verið þrír karlmenn eða þrjár konur í efstu sætum, sem er kannski ekki mjög sterkur kynjakvóti en kynjakvóti eigi að síður má segja á þeim nótum sem einmitt er fjallað um í þessu máli hjá meiri hluta allsherjarnefndar.

Virðulegi forseti. Mig langar til að grípa niður í fleiri atriði af því að það kom einnig fram umræða varðandi kostnað og fjölda. Hv. þm. Þráinn Bertelsson kom með þá orðræðu að rannsóknarskýrslan hefði verið unnin af fáum fyrir lítið, ég skildi alla vega orðræðuna þannig. Ég vil benda á að rannsóknarskýrslan sem við erum flest mjög ánægð með kostar sitt og það er eðlilegt. Ég held að hún kosti upp undir helminginn af því sem verið er að ræða um í sambandi við ráðgefandi stjórnlagaþing og það voru ekki einhverjir þrír sem unnu rannsóknarskýrsluna. Þrír voru í rannsóknarnefndinni sem vann skýrsluna og þrír voru í siðfræðinefndinni sem vann hluta skýrslunnar en 43 starfsmenn og ráðgjafar unnu með þessum aðilum þannig að samtals unnu 49 manns rannsóknarskýrsluna plús nokkrir starfsmenn Alþingis og 20 prófarkalesarar og einhverjir þrír í Seðlabankanum sem fóru í úrvinnslu o.s.frv. Það var því stærri floti fólks sem vann rannsóknarskýrsluna en mun vinna á þessu stjórnlagaþingi þannig að sá samanburður er kannski ekki alveg eins og menn héldu.

Sjálfstæðisflokkurinn er með minnihlutaálit og leggur til að 9 manna nefnd verði kjörin á Alþingi, að þingið kjósi 9 menn til að fara í þetta verk. Þetta geta verið menn úti í bæ, eins og ég skil það. Þetta er að mínu mati bara gamla leiðin. Þetta er gamla leiðin sem búið er að reyna hér ótrúlega oft með ótrúlega litlum árangri. Menn hafa talað hér um og sjálfstæðismenn sérstaklega að aldeilis þurfi að nást sátt um þetta allt, ekki sé hægt að gera neinar breytingar nema einhver sæmileg sátt sé. Þá vil ég minna á að Framsóknarflokkurinn hélt að þokkaleg sátt væri um að setja ákvæði um að sjávarauðlindin væri sameign þjóðarinnar. Við héldum að frekar mikil sátt væri um það. Það var meira að segja í stjórnarsáttmála á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Er það ákvæði í stjórnarskránni í dag? Nei. Þó að menn haldi að sátt sé um ýmislegt þá ganga hlutirnir svona fyrir sig. Það var nefnd sem starfaði að því undir forustu Jóns Kristjánssonar að breyta stjórnarskránni á sínum tíma og þar voru miklir erfiðleikar og vita allir sem það vilja að þar lagðist Sjálfstæðisflokkurinn þvert gegn því að fara í gegnum þessa vinnu varðandi sjávarauðlindina, taka hana inn í stjórnarskrána. Ef hann hefði ekki gert það hefði það farið inn að mínu mati. Þar var Samfylkingin líka mjög erfið og með vandræðagang út af málskotsrétti forseta Íslands. Það var þrátefli. Hægt er að fletta þessu upp og skoða betur ef menn vilja. Loks þegar allt var komið í eindaga var hægt að sameinast um texta og þá var þetta allt orðið of seint og menn komnir í mikla spennu og erfiðleika og ekki tókst að breyta stjórnarskránni. Ég vona að sjálfstæðismenn leggi við hlustir, að mínu mati var Sjálfstæðisflokkurinn helsti dragbíturinn á að við hefðum getað breytt stjórnarskránni á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn var þar helsti dragbíturinn og mér sýnist að hann ætli áfram að vera helsti dragbíturinn á það að við getum breytt stjórnarskránni. Það hafa ræður þeirra sýnt og forsagan í þessu máli öllu saman.

Ég tel að við eigum að samþykkja þetta mál, ná því í gegn. Við munum ekki ná fullri samstöðu um það en við munum væntanlega ná nægilega mörgum atkvæðum til að klára þessa atkvæðagreiðslu. Ég vona að menn fari ekki í mikið málþóf í þessu máli. Hingað til hefur enginn sýnt burði til þess og ég vona að svo verði ekki, af því að málþófið sem var síðast þegar við ætluðum að breyta stjórnarskránni og koma á bindandi stjórnlagaþingi var að mínu mati fyrir neðan allar hellur. Ég vona að ég þurfi ekki að upplifa slíkt málþóf aftur, og sjálfstæðismenn fóru þar fremstir í flokki og sáu til þess að við gátum ekki samþykkt bindandi stjórnlagaþing. Ef það hefði verið samþykkt þá eins og Framsóknarflokkurinn og fleiri vildu þá hefðum við kosið til þess þegar við kusum síðast til Alþingis og værum komin miklu lengra á þeirri leið að endurskoða íslensku stjórnarskrána í heild. Ég mun með mikilli gleði samþykkja þetta mál þótt það sé ekki nákvæmlega eins og Framsóknarflokkurinn vildi. Það sem Framsóknarflokkurinn vildi er ekki hægt að gera í dag. Það er hinn kaldi raunveruleiki. Það er ekki hægt af því að stjórnarskráin leyfir það ekki og það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir að við breyttum stjórnarskránni fyrir síðustu kosningar. Þetta er hinn kaldi raunveruleiki og þegar maður fær ekki það besta verður maður að sætta sig við það næstbesta (Gripið fram í: Hvað sagði Geir?) þannig að þetta er skárra en ekkert og getur reyndar orðið mjög gott, ágætu hv. alþingismenn. Þetta ráðgefandi stjórnlagaþing getur orðið mjög gott ef við stöndum saman um það og hvetjum þjóðina til að kjósa gott fólk inn á það og tökum svo við þeirri afurð sem þaðan kemur, heildarendurskoðun á íslensku stjórnarskránni, og vinnum vel úr því máli þegar það kemur hingað inn og þurfum vonandi ekki að gera neinar breytingar. Ég vona að þetta verði svo gott að getum samþykkt það óbreytt þegar það kemur hingað inn, en við höfum valið af því að þetta er ráðgefandi. Við erum ekki að vísa þessu til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Framsóknarflokkurinn vildi. Skýringarnar eru þær að slíkt er ekki hægt og bara útópía að tala um það úr þessu. Við erum ekki að fara að breyta stjórnarskránni. Það var ekki hægt síðast og ekkert sem bendir til þess að það verði hægt aftur. Sjálfstæðisflokkurinn mun leggjast þvert gegn því eins og síðast, það er alveg hægt að treysta því miðað við þær ræður sem hafa verið haldnar hér og alla forsöguna. Úr þessu er ekki annað að gera en að standa með ráðgefandi stjórnlagaþingi og gera það besta úr hlutunum. Þannig eigum við að vinna núna, standa saman að þessu, gera það besta úr hlutunum og vona að þetta ráðgefandi stjórnlagaþing standi sig vel og gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo verði.