Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 23:27:30 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður verði að átta sig á því að á öllum samkomum og á öllum þjóðkjörnum þingum sem ég þekki til skipa menn sér í einhverja flokka. Ekki af illum hvötum heldur vegna þess að það auðveldar skipulag starfa. Það er líka eðlilegt að menn sem eiga samleið í stjórnmálum og skoðunum skipi sér saman í flokka. Það er auk þess praktískt atriði, það auðveldar samskipti og auðveldar mönnum að ná málamiðlunum. Við vitum að jafnvel innan þessara flokka getur verið erfitt að ná málamiðlun eða sameiginlegri stefnu. Það hefur örlað á því í kvöld og upp á síðkastið að það getur reynst erfitt að ná samstöðu innan flokka. Það er langt frá því að nokkur trygging sé fyrir því (Forseti hringir.) að 30 manns geti gert einhverja málamiðlun um niðurstöðu frekar en við sem hér erum og erum kosin úr mismunandi flokkum.