Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 23:32:22 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er Sjálfstæðisflokkurinn sá flokkur sem hefur verið helsti dragbíturinn á breytingar á stjórnarskrá Íslands. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta.) Allir flokkar eru valdasæknir að einhverju leyti en Sjálfstæðisflokkurinn er mjög valdasækinn. Reynslan hefur kennt manni að ef gera á heildarendurskoðun á stjórnarskránni þarf að taka hana út úr þinginu og út úr þessu ferli sem hér hefur verið viðhaft (Gripið fram í: Gekk ágætlega …) og setja í hendurnar á stjórnlagaþingi sem er kosið með beinum hætti af þjóðinni. Helst hefði málið átt að fara svo þaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu en því miður er það ekki hægt — og það er vegna Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Hvaða rugl …)

Sjálfstæðisflokkurinn segir hér að hann hafi komið í veg fyrir stórslys. Það er þá væntanlega frumvarpið sem m.a. Framsóknarflokkurinn var aðili að. (Gripið fram í: Hver fann upp á því?) Og þetta stóra slys var bindandi stjórnlagaþing sem átti að komast að niðurstöðu um heildarendurskoðun á stjórnarskránni sem átti svo að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.) Var það stórslys? Er það stórslys að þjóðin fái að greiða atkvæði um heildarendurskoðun á stjórnarskránni? Það er mjög lýðræðislegt, ekki stórslys. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki sleppa gripinu á stjórnarskránni. (Gripið fram í: Þú veist að við erum í stjórnarandstöðu.) Vegna þess að stjórnlagaþingið er ráðgefandi þarf afurðin að koma hingað inn og ég óttast mest að Sjálfstæðisflokkurinn verði á sömu buxunum þegar málið kemur aftur inn frá ráðgefandi stjórnlagaþingi og leggist þá þvert fyrir breytingar. En ég vona að þrýstingurinn úti í samfélaginu verði svo mikill eftir að stjórnlagaþingið hefur unnið að Sjálfstæðisflokkurinn þori því ekki. (Forseti hringir.) Það vona ég.