Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 11:54:03 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki með neina spurningu til hv. þingmanns en ég óttaðist í upphafi ræðu hans að hann hefði ekki tekið eftir því að ég talaði hér í gær eða að eldmóðurinn hefði alla vega ekki verið nógur þannig að það þarf kannski að brýna meira röddina svo að það heyrist sem sagt er.

Það er rétt að endurtaka það að ég tel mjög brýnt að þetta stjórnlagaþing komist á sem fyrst. Ég tel að við þurfum að endurskoða stjórnarskrána og ég er ekki ein um það, heyrði ekki betur en hv. þingmaður væri mér sammála um það og okkur mörgum sem töluðum hér í gær, að við teljum nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni en við virðumst deila um aðferðirnar hér. Það er frekar leiðigjarnt finnst mér að í munni sjálfstæðismanna er talað um stríð, það er alltaf stríð ef þeir ráða ekki ferðinni, í þeirra munni þýðir samráð að þeir ráði, í þeirra munni er forgangur það sem þeir vilja tala um. Mér finnst kominn tími til að sjálfstæðismenn átti sig á því að það er fleira fólk í heiminum en þeir og þeir þurfa að hlusta. Þeir þurfa að gefa eftir, ekki síður en annað fólk.

Ég ítreka að það er nauðsynlegt að koma þessum stjórnarskrárbreytingum af stað og það er betri aðferð að fá fólk sem hefur áhuga og er hér úti í feltinu til að bjóða sig fram til þess starfs en að við sitjum hér og veljum einhverja menn eða konur, sem eru úr sama pottinum og alltaf er valið til allra starfa í þessu landi.