Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 11:56:16 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég áttaði mig á því í ræðu minni að það mátti skilja orð mín svo að ég hefði ekki heyrt ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Ég tek það fram að ég efast ekki um stuðning hennar við þetta mál og efast ekki um að sá stuðningur sé einlægur. Ég heyri bara ekkert margar aðrar raddir sem hljóma eins og rödd hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Ég verð ekki var við að það sé brennandi áhugi innan stjórnarflokkanna á þessu máli, ég verð ekki var við það. Ég tek það fram að innan allsherjarnefndar var á margan hátt unnið ágætt starf, gott starf, framan af þessum þingvetri í sambandi við þetta mál. Svo datt þetta upp fyrir og hætti að vera á dagskrá og einhvern veginn hafði maður á tilfinningunni að málið væri svona að gufa upp. Svo núna rétt þegar komið var fram á vorið og farið að hylla undir þinglokin þá allt í einu lifnaði málið við aftur og þá var ákveðið að keyra það út úr nefndinni og að því er virðist virðast tilraunir til að ná breiðari samstöðu um málið en bara milli Samfylkingar og Vinstri grænna hafa farið út um þúfur.

Út af orðum hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um Sjálfstæðisflokkinn þá áttum við okkur alveg á stöðunni en við heyrum líka gagnrýnisraddir og ekki síður harða gagnrýni á þetta frumvarp frá þingmönnum sem seint verða ásakaðir um að vera einhver sérstök handbendi Sjálfstæðisflokksins. Ég hlustaði á umræður hér í gær, hlustaði á fínar ræður hv. þm. Þráins Bertelssonar og hv. þm. Þórs Saaris. Ég er ekki sammála þeim um alla hluti og hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Þetta eru ekki sjálfstæðismenn en þau hafa nákvæmlega sömu fyrirvara á afgreiðslu þessa máls núna og við sjálfstæðismenn.