Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 11:58:34 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri engar athugasemdir við það að einhverjir menn setji fyrirvara við frumvarpið, það er ekkert hægt að ætlast til þess að við séum hér öll sammála. Ég geri hins vegar athugasemdir við það að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir því hér í þessu húsi að stöðva umræðu um allt það sem hann getur ekki samþykkt eins og skot. Hann ber öðrum þingmönnum á brýn að vera með vitlausa forgangsröðun og skilja ekki þetta og hitt. Ég er bara ósammála því og við erum mörg hér ósammála að þessu leyti.

Þegar samið er þá verður að semja þannig að allir fái eitthvað í sinn hlut. Það eru ekki samningar að einn valti, eins og sagt er, yfir annan, það eru ekki samningar. Það held ég að við verðum öll að skilja.

Við sem erum hér í þessu húsi teljum þetta mjög brýnt erindi — mjög brýnt — eitt það brýnasta samhliða því að laga skuldastöðu heimilanna og reyna að koma þjóðfélaginu, sem sagt viðskiptalífinu, aftur af stað þannig að við getum búið hér við sæmileg kjör, vonandi einhvern tímann í framtíðinni. Mín skoðun er sú að þetta sé jafnbrýnt því. Ég bið fólk að gera ekki lítið úr því.