Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 12:00:30 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir erum ósammála um þessa forgangsröðun, en hún hins vegar getur ekki kvartað eða tekið af mér þann rétt að vekja athygli á því að ég tel að það sé röng forgangsröðun að setja þetta mál fram fyrir þau mál sem varða brýna hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna. Gjaldþrot og nauðungarsölur eru að hrannast upp í samfélaginu. Þar geta dagar og vikur skipt máli í sambandi við lagasetningu Alþingis. Ég sé ekki að dagar eða vikur skipti máli í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Í því liggur mismunandi sýn okkar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, hún hefur sína skoðun og ég hef mína. Ég tel að ef við getum leyst einhver mál sem varða hugsanlega hagsmuni þúsunda fjölskyldna í landinu og fyrirtækja, sem skiptir máli upp á daga og vikur, eigum við að einbeita okkur að því og geyma mál sem ekki eru bundin við einhverja daga og vikur. Þetta er hin mismunandi sýn. Það er ágætt að hún sé bara dregin fram með skýrum hætti. Ég tek um leið fram að meiri hlutinn á þingi og ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar í þinginu geta ekki ætlast til þess að önnur mál sem hún leggur áherslu á fari hér umræðulítið í gegn bara vegna þess að það var dregið fram eftir vori að taka þau hér inn, bara vegna þess að ríkisstjórnin kom hér á síðasta hugsanlega degi sem þingsköp heimila með 44 mál inn í þingið og fleiri mál eftir að lögbundinn frestur kom vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki klárað sín mál fyrr, að öll mál eigi að fara umræðulaust í gegnum þingið eins og ráða má af (Forseti hringir.) orðum sumra hv. þingmanna.