Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 12:27:41 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem spurning mín fjallar um er að nú eru lögð fram frumvörp af hálfu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem við höfum tekið til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd og þeim er breytt nánast alveg í frumeindir. Þá tel ég eðlileg vinnubrögð að menn láti þau fara til umsagnar aftur. Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að allt það góða fólk og þeir hv. þingmenn sem sitja í viðkomandi nefnd vinna vinnuna sína af miklum heilindum og reyna að gera allt til þess að betrumbæta málið. Þegar búið er að breyta málunum svona mikið eru náttúrlega komnir nýir vinklar á marga hluti sem umsagnaraðilar mundu hugsanlega vilja skoða upp á nýtt þannig að menn sjái fyrir sér hvað muni gerast. Ég ítreka að hv. félags- og tryggingamálanefnd og allir þeir sem þar eru leggja að sjálfsögðu allt sitt af mörkum til þess að betrumbæta og bregðast við þeim vanda sem er, svo það misskiljist ekki.

Hv. þingmaður vék að því í máli sínu að hugsanlega væri skynsamlegt að fresta þessari umræðu og þá væri möguleiki á því að menn tækju þetta mál af dagskrá og ákveddu í samkomulagi að afgreiða það á septemberþinginu. Málið er mikilvægt, ég geri ekki lítið úr því. Ég tel hins vegar að önnur mál séu brýnni og er þar með ekki að gera lítið úr mikilvægi þessa máls. Hver er skoðun hv. þingmanns á því ef samkomulag næðist um að fresta málinu fram í september og taka það þá á dagskrá og afgreiða? Það hefur líka komið fram hjá hv. þingmönnum sem sæti eiga í allsherjarnefnd að við meðferð málsins á undanförnum mánuðum í nefndinni hafa sjónarmið verið að nálgast mjög mikið. Í máli sumra hv. þingmanna sem töluðu hér í gær kom fram að þeir hefðu jafnvel séð fyrir sér að hægt hefði verið að lenda því með mun meiri samstöðu og sátt inni í nefndinni ef tími hefði gefist til þess að fara lengra með málið þar.