Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 14:58:30 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því auðvitað að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson segir hug sinn til frumvarpsins en hann er býsna einmana á mælendaskránni þegar litið er á þá stjórnarliða sem þar er að finna. Ég ætla svo sem ekki að fara í eitthvert karp við hv. þingmann um það hvað sé málþóf og hvað sé ekki málþóf. Það er auðvitað mjög erfitt fyrir mig að rökræða við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem eru og hafa verið á síðustu árum og áratugum atvinnumenn í því að setja upp málþóf á þinginu. Það hafa engir þingmenn neins flokks haldið jafnlangar og -efnislitlar ræður á þinginu um ómerkileg mál og hv. þingmenn Vinstri grænna.

Hv. þingmaður upplýsti það að hann liti svo á að þingmenn á Alþingi væru ekki bundnir af niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Auðvitað værum við bundnir af því að taka það til efnislegrar umræðu á þinginu og ég er alveg sammála því að það hlýtur að verða gert verði frumvarpið samþykkt en þetta þýðir það (Forseti hringir.) að þingmenn geta þá samkvæmt samvisku sinni (Forseti hringir.) haft tillögur stjórnlagaþingsins að engu (Forseti hringir.) og þar á meðal hv. þingmaður.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða tímamörkin, ein mínúta er fljót að líða.)