Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 14:59:52 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek þetta skot hv. þingmanns um málþóf ekki til mín. Ég kannast ekki við það að eiga mikið „record“ hvað það (Gripið fram í.) snertir í þingsögunni þannig að ég læt mér það í léttu rúmi liggja.

Varðandi hvort þetta er bindandi eða ekki bindandi, það er nákvæmlega eins og það er og getur ekki orðið öðruvísi. Það er í raun og veru engin breyting frá því sem er í dag. Nú er það auðvitað þannig að Alþingi hefur það hlutverk með höndum að gera breytingar á stjórnarskránni og þar eru þingmenn að sjálfsögðu bara bundnir við sína sannfæringu. Þeir geta tekið afstöðu með eða á móti tillögum sem koma fram um breytingar á stjórnarskránni og þannig mun það að sjálfsögðu verða með þetta ráðgefandi stjórnlagaþing. En ég ítreka það að ég tel að okkur beri skylda til að taka þær tillögur til efnislegrar meðferðar og hlusta á þau ráð sem koma frá ráðgefandi stjórnlagaþingi. Til þess er leikurinn gerður.