Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 15:00:59 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:00]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni ágætisreifun á málinu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Ég má þó til með að leiðrétta eitt í málflutningi hans og það er að afstaða Hreyfingarinnar til stjórnlagaþings hafi einhvern tíma ráðist af því hvort um væri að ræða bindandi eða ráðgefandi stjórnlagaþing. Það er atriði sem við höfum aldrei sett fyrir okkur í því máli.

Það sem við höfum sett fyrir okkur, og kom skýrt fram í ræðu minni í gær, eru þrjú meginatriði sem við teljum alger grundvallaratriði. Það fyrsta er að tryggt verði með afgerandi hætti að auðmenn geti ekki keypt sig inn á stjórnlagaþingið í formi auglýsingaherferðar. Það er ekki gert hér. Það er kannski aukaatriði en hin tvö atriðin eru grundvallaratriði og snúa að aðkomu almennings að stjórnlagaþinginu. Það fyrsta er að ekki er gert ráð fyrir því með formlegum hætti að almenningur geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri og að tekið verði tillit til þeirra í frumvarpinu. Það er grundvallaratriði að almenningur hafi vissu fyrir því að tekið verði tillit til þess með einhverjum hætti hvað honum finnst, þ.e. að alla vega verði þá fjallað um það þó að það sé ekki meira en það því að ef til vill koma líka fram hugmyndir sem geta verið óraunhæfar. Þetta vantar í frumvarpið og ekki er hægt að skrifa stjórnarskrá án þess að tryggt sé að sjónarmið almennings verði meðhöndluð með sóma af stjórnlagaþinginu.

Hitt atriðið er að ekki er gert ráð fyrir því að almenningur fái að segja álit sitt á nýrri stjórnarskrá áður en Alþingi fær hana til meðferðar. Nú er hér um ráðgefandi stjórnlagaþing að ræða og fyrirliggjandi er frumvarp um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Okkur finnst líka algert grundvallaratriði að almenningur geti greitt atkvæði um nýja tillögu að stjórnarskrá grein fyrir grein áður en Alþingi fái hana til meðferðar til að þingi sé ljóst hvað almenningur raunverulega vill í þessu máli. Þessi tvö atriði eru grundvallaratriði og mig langar að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvers vegna hann er ekki meðmæltur þessu og hvers vegna hann styður ekki betur við þetta, hvort hann geti jafnvel hugsað sér að gera það áður en málið verður klárað.