Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 15:36:44 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður velti fyrir sér orðinu stjórnlagaþing. Ég get að minnsta kosti sagt að hugtakið stjórnlagaþing hefur skotið upp kollinum býsna oft á síðasta áratug. Ég þykist minnast þess að Ólafur Jóhannesson, fyrrverandi prófessor í lögfræði og fyrrum hæstv. forsætisráðherra, velti t.d. fyrir sér hugmyndum um að búa til stjórnlagaþing á Íslandi. Ég hef litið þannig á að Alþingi sé stjórnlagaþing í þeim skilningi að það fari með vald til að setja stjórnlög og sé sá umræðuvettvangur sem við höfum komið okkur saman um að hafa um stjórnlög og breytingar á stjórnlögum. Ég lít á Alþingi sem stjórnlagaþing í þeim skilningi sem við höfum rætt, bæði í tengslum við þessa umræðu og sömuleiðis þegar málið var helst til umræðu á árinu 2009.

Hv. þm. Þráinn Bertelsson ræðir um nefnd, utanþingsnefnd sérfræðinga sem endurskrifi stjórnarskrá og efni til umræðu um allt land um þær tillögur sem nefndin vinnur með. Þetta er valkostur við þá tillögu sem fram kemur í frumvarpinu. Ég get lýst því yfir að mér finnst sú tillaga ljómandi fín eins og hv. þingmaður lýsir henni, og Njörður P. Njarðvík hefur gert. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þó svo við fáum slíkri nefnd að skrifa tillögu að nýrri stjórnarskrá (Forseti hringir.) þá hljóti það alltaf að vera þessi vettvangur hér, sem er Alþingi Íslendinga, sem hefur síðasta orðið um niðurstöðuna.