Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 15:43:53 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hefur staðið yfir í nokkurn tíma um frumvarpið um stjórnlagaþing hefur verið mjög málefnaleg, a.m.k. eins og ég hef getað fylgst með henni. Ég hef reynt eftir föngum að fylgjast með þeim ræðum sem hafa verið fluttar, bæði í þingsalnum og eins hef ég fylgst með þeim af skrifstofu minni. Ef ég á að fella einhvern dóm um þær ræður þá er sá dómur að umræðurnar hafa að langmestu leyti verið málefnalegar. Það er líka verið að ræða gríðarlega þýðingarmikið mál sem hlýtur eðli málsins samkvæmt að kalla á það að við reynum að vanda okkur við umræðuna því við erum að fjalla um grundvallarlöggjöf fyrir íslensku þjóðina sem stjórnarskráin sannarlega er. Í tilefni af þessu vil ég segja að mér mislíkar mjög hvernig reynt hefur verið að draga upp þá mynd að þær fáu ræður sem hafa verið fluttar um þetta mikilvæga mál séu tilraun til einhvers konar málþófs.

Ég er búinn að sitja dálítinn tíma á Alþingi og ég ætla að segja eitt: Ég þekki málþóf þegar ég sé það. Það sem við gerum nú, sem er að ræða málin efnislega, er ekki málþóf. Þetta er bara tilraun þingmanna til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um gríðarlega mikilvægt mál. Til að geta gert það sæmilega veitir mönnum almennt ekkert af þeim 20 mínútum sem við höfum til að flytja mál okkar við 2. umr. málsins. Ég spyr sjálfan mig hins vegar í þessu sambandi: Hvers vegna víkur svo við, hvers vegna gerist það að menn taka sér sífellt í munn orðið málþóf þegar farið er að ræða stjórnarskrána? Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn hafa uppi þann málatilbúnað þegar umræður hafa staðið í fáeina klukkutíma um grundvallarlöggjöf þjóðarinnar, að það sé orðið málþóf. Er þetta tilraun til að vísa slíkri umræðu frá og forðast hana, koma í veg fyrir hana? Gera það að verkum að þingmenn verði feimnir við að fá á sig málþófsstimpil í þingsölum eða úti í samfélaginu og veigri sér þess vegna við að taka þátt í umræðu um þetta gríðarlega þýðingarmikla mál? Það má vel vera að það sé hinn undirliggjandi tilgangur en hann hræðir a.m.k. ekki mig frá því að taka þátt í umræðunni eins og ég geri nú og kannski síðar ef ég tel sérstakt tilefni til þess.

Við megum ekki vinna þannig í umræðunni að tala niður þýðingu stjórnarskrárinnar. Það væri mjög alvarlegur hlutur ef þingmenn, sem hefja þingstörf sín á því að sverja eið að stjórnarskránni, tali niður þýðingu stjórnarskrárinnar með því að uppnefna ræður hvers annars og kalla þær málþóf. Þetta eru efnislegar umræður og við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að umræður um stjórnarskrána munu taka tíma og þær eiga að taka tíma. Menn hafa að minnsta kosti verið sammála um, þrátt fyrir allt, að þegar gera á breytingar á stjórnarskránni megi ekki rasa um ráð fram. Við gerum ekki breytingar á stjórnarskránni á hverjum degi. Við getum gert það við aðra löggjöf í landinu ef efni standa til þess, en við gerum það ekki við stjórnarskrána Hún er grundvallarlög, svo ég þýði hrátt heiti stjórnarskrárinnar á norrænum málum. Grundvallarlög í þessu sambandi vísa auðvitað til þess að þetta er grundvöllur sem við höfum til að standa á og byggja aðra löggjöf síðan á. Það er svo mikilvægt að hafa í huga þegar við ræðum þetta.

Mér hefur fundist skorta á það í þessari annars ágætu umræðu að við veltum fyrir okkur spurningunni sem hvert mannsbarn ætti auðvitað að velta fyrir sér í sambandi við þetta og það er eiginlega til hvers? Af hverju? Hvers vegna erum við að búa til þessa nýju stofnun sem við köllum stjórnlagaþing og á að starfa tímabundið? Mér finnst, þegar ég skoða frumvarpið með þeim breytingartillögum sem hafa komið fram, að þetta sé einhvers konar stofnun sem er að verða miklu líkari stoppistöð því þetta er í raun og veru sú hugmynd að við viljum ekki láta Alþingi ræða um stjórnarskrárbreytingar. Þess vegna ætlum við að setja niður einhvers konar stoppistöð til að ræða málið. Það eru allir sammála um að hægt er að virkja almenning með ýmsum hætti en samt telja menn mikilvægt að setja á fót tímabundna stofnun svo þar geti orðið annar vettvangur en vettvangur Alþingis til að ræða þessi mál. Niðurstaðan á hins vegar í fyrsta lagi að vera einróma. Það er gert ráð fyrir því. Síðan verður sú niðurstaða flutt til Alþingis sem tekur málið aftur til umræðu og ákvörðunartöku fljótlega eftir atvikum.

Ég nefndi það sérstaklega að gert er ráð fyrir því að niðurstaðan sé einróma og það er einmitt vikið að því í nefndaráliti frá meiri hluta allsherjarnefndar þar sem sú spurning var rædd. Hvað gerist ef stjórnlagaþingið verður ekki sammála? Koma þá fram minnihlutaálit og meirihlutaálit, tekur þingið þá afstöðu til meirihlutaálitsins eða á það að taka afstöðu til minnihlutaálitsins? Hvernig á að ræða þessi mál? Niðurstaða meiri hlutans er þessi, með leyfi virðulegs forseta:

„Meiri hlutinn telur það grundvallaratriði að samstaða verði á stjórnlagaþingi um þær breytingar sem lagðar eru til á stjórnarskrá í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Meiri hlutinn leggur því til að þessi málsgrein falli brott.“

Niðurstaðan er sem sagt sú að það er nánast kvöð að menn komist að einni niðurstöðu á stjórnlagaþinginu þann tíma sem það á að starfa. Þetta er út af fyrir sig athyglisvert vegna þess að umræðan hefur líka öðrum þræði snúist um að það þurfi að knýja fram tilteknar breytingar meira að segja þótt þær mæti andstöðu jafnvel myndarlegs hóps á þinginu af því að þær breytingar séu mikilvægar. Í meirihlutaálitinu er hins vegar kveðið upp úr með að ekki skuli sett fram tillaga nema hún sé gerð einum rómi. Þetta er út af fyrir sig ansi athyglisvert.

Það er í sjálfu sér enginn ágreiningur um að gera þarf breytingar á stjórnarskrá okkar og hægt er að hafa dálítið mörg orð um það. Hins vegar hefur verið sagt sem svo að þetta sé spurning um lýðræðisumbætur. Það var ekki einu sinni sagt: „Það er stórt orð Hákot.“ Lýðræðisumbæturnar sem menn tala um eru í raun og veru, þegar grannt er skoðað, þessi stoppistöð, stjórnlagaþingið. Það er í rauninni það sem menn eiga við með orðinu lýðræðisumbætur. Allt annað sem talað er um í þessu sambandi er algerlega óháð stofnun stjórnlagaþings. Það er auðvitað blekkingaleikur að kalla stofnun stjórnlagaþings, sem er einhvers konar ráðgefandi umræðuvettvangur fyrir Alþingi, spurningu um lýðræðisumbætur og segja að þeir sem ekki eru fylgjandi þessari útfærslu á stjórnlagaþingi séu þá að bregða fæti fyrir lýðræðisumbætur eins og ég hef tekið eftir að menn hafa talað um, hver á fætur öðrum, í þessari umræðu. Þetta er auðvitað ekki spurning um lýðræðisumbætur því að ýmislegt af því sem rætt er um er mjög auðvelt að koma fyrir með allt öðrum hætti.

Það er talað um að virkja þurfi almenning í undirbúningi stjórnarskrárinnar og það er alveg hárrétt. Það er eitt af því sem við höfum verið að þróa á síðustu árum og það eru alls konar aðferðir til að virkja þátttöku almennings. Á fyrri tímum þegar við gerðum breytingar á stjórnarskránni gerðum við það með sérstökum stjórnarskrárnefndum, við kölluðum til okkar sérfræðinga. Hinn þátturinn, virk þátttaka almennings í slíkri umræðu, var ekki til staðar. Nú höfum við hins vegar þróað þetta og okkur er ekkert að vanbúnaði að gera það með eða án stjórnlagaþings. Það kemur ekki hugmyndafræði um stjórnlagaþing nokkurn skapaðan hlut við.

Við höfum sett á laggirnar þjóðfundi. Að vísu má segja að svolítið óhönduglega hafi tekist til um ýmislegt í framkvæmd þjóðfundanna og þeir fengið svolítið óorð á sig fyrir vikið en það skulum við láta liggja á milli hluta. Sú aðferðafræði að hafa þjóðfundi er prýðileg. Þá getum við kallað til okkar þúsundir manna ef vill um land allt til að taka þátt í opinni skapandi umræðu. Sveitarfélögin hafa í stórum stíl haldið íbúafundi þar sem þau fjalla um málefni sín en það dettur engum í hug að búa síðan til sveitarstjórn eða bæjarstjórn við hliðina á starfandi bæjarstjórn eða sveitarstjórn til að önnur umræða geti farið fram um málin á þeim vettvangi. Það er einfaldlega litið þannig á að það sé hlutverk viðkomandi sveitarstjórnar eða bæjarstjórnar að vinna úr þeim hugmyndum og þeim umræðum sem hafa farið fram á íbúafundum. Nútímatækni í fjarskiptum og tölvusamskiptum gerir líka að verkum að það er auðveldara en nokkru sinni áður að kalla eftir og búa til þennan umræðuvettvang fyrir almenning í landinu. En þetta hefur ekkert með stjórnlagaþingið að gera. Þetta geta menn gert t.d. á þeim grundvelli sem hv. þm. Þráinn Bertelsson talaði um áðan, setja á laggirnar nefnd. Ég tel að vísu að það eigi að vera einhvers konar sérfræðinganefnd, sem vinni áfram á grundvelli viðbragða almennings sem setur fram skoðanir sínar. Þetta er miklu skynsamlegri nálgun á málið og miklu eðlilegra á allan hátt að vinna það þannig.

Ég hef sjálfur dálitla reynslu af þessu. Ég sit í nefnd sem er að endurskoða löggjöf um fiskveiðar. Það er eins og allir vita mjög umdeilt mál. Mér var trúað fyrir því að leiða lítinn undirhóp sem var að velta fyrir sér hvort við ættum að setja ákvæði sem lýtur að eignarhaldi á fiskveiðiauðlindinni í stjórnarskrá Ég held að enginn okkar sem sat í nefndinni hafi verið með neina minnimáttarkennd fyrir því verkefni þótt enginn af okkur væri löglærður einstaklingur. Við fórum í verkefnið með mjög opnum huga. Og hvað gerðum við? Við kölluðum til okkar sérfræðinga. Þótt við hefðum meginsjónarmiðin klár varð okkur fljótlega ljóst að þegar kom að því að skrifa niður sjálfan textann, sem við kynnum að ímynda okkur að gæti orðið grundvöllur að stjórnarskrárbreytingum, urðum við að reiða okkur á sérfræðinga á þessu sviði. Þetta er gríðarlega flókið málefnasvið.

Að vísu er það svo, til að öllu sé haldið til haga, að sú umræða sem hefur farið fram um að setja ákvæði í stjórnarskrá sem lúta að eignarhaldi á fiskveiðiauðlindinni hefur þróast gríðarlega mikið á undanförnum árum. Árið 2007 tókust menn á um þetta í þinginu en komust ekki að endanlegri niðurstöðu þó að þeir hefðu verið býsna nærri niðurstöðu. Bæði í þeirri umræðu og enn þá frekar síðar hefur mönnum t.d. orðið það algerlega ljóst að ekki er um það að ræða að niðurstaðan verði sú að setja auðlindaákvæði, sem tekur bara til fiskveiðiauðlindarinnar, inn í stjórnarskrána. Við mundum væntanlega setja í stjórnarskrá okkar ákvæði sem lýtur að öllum auðlindum í landinu og við landið. Þetta er auðvitað dæmi um þá þróun sem hefur orðið í umræðunni um stjórnarskrármálið, að menn hafa smám saman verið að gera sér grein fyrir þessu. Ég tók að vísu eftir einu í ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem var mjög sleggjudómakennt, að hv. þingmaður talaði eins og ekkert hefði gerst í þróun stjórnarskrárumræðunnar sem lýtur að auðlindunum. En staðreyndin er að engu síður sú að eins og umræðan hefur að öllu leyti þróast er alveg ljóst að slíkt ákvæði mundi taka til fleiri auðlinda. Ríkisstjórnin hefur m.a. unnið í þessum efnum og velt fyrir sér hvernig taka eigi á auðlindum eins og t.d. vatninu, heita vatninu og öðrum slíkum auðlindum.

Ég segi þetta vegna þess að ég vil undirstrika að jafnvel þó að menn setji á stjórnlagaþing munu þeir engu að síður þurfa að kalla til sín sérfræðinga. Þá væri náttúrlega orðið mjög sérkennilegt að á þeirri stoppistöð, sem ég hef kallað stjórnlagaþingið, færu fram almennar pólitískar stjórnmálaumræður um stjórnarskrána. Menn skiluðu þá væntanlega einhvers konar áliti og sérfræðingar yrðu að koma til. Ef menn ætluðu í raun og veru að kalla eftir lýðræðislegri þátttöku yrði það gert með þeim hætti sem ég var að nefna og stjórnlagaþingið mundi í engu bæta við þann lýðræðislega vinkil sem allir tala um að þurfi að vera í undirbúningsvinnunni varðandi stjórnarskrána umfram það sem við höfum gert á undanförnum árum.

Það er síðan algerlega rangt sem hefur verið haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með einhvern þvergirðingshátt í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar á undanförnum árum. Þvert á móti. Eins og ég rakti í örstuttu andsvari í gærkvöldi var það svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafði forustu um þær breytingar sem gerðar voru í þeim efnum.

Hafa menn t.d. gleymt því að það er ekki mjög langt síðan, ég held að það hafi verið 2003, sem við kusum í fyrsta skipti eftir nýrri kjördæmaskipan sem var gerð á grundvelli breytinga á stjórnarskránni og kosningalöggjöf? Þetta var gífurlega mikil breyting. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því en þetta var gífurlega mikil breyting sem m.a. fól það í sér að tryggt var algert jafnræði í atkvæðavægi á milli stjórnmálaflokkanna en hafði ekki verið áður. Þetta var auðvitað heilmikil breyting. Í annan stað, eins og þegar hefur verið rakið, var gerð breyting á miðjum áratug síðustu aldar þegar settur var mannréttindakafli í stjórnarskrána. Sagt var í gærkvöldi að þetta hafi verið slíkt fjaðurvigtarmál að lítið mál hafi verið að gera slíkar breytingar. Það var hins vegar ekki svo. Þetta var heilmikið mál. Það var auðvitað alvörumál sem fjallað var um. Það hefur orðið gífurleg breyting til að mynda í öllum alþjóðasáttmálum sem lúta að mannréttindamálum og það þurfti að taka tillit til þessa, fella það að íslenskri lagahefð o.s.frv.

Þetta hefur haft veruleg áhrif í för með sér. Við sjáum það t.d. á dómaframkvæmd. Hún hefur breyst eðlilega og löggjöf okkar hefur tekið mið af þessu þannig að áhrifin af þeim stjórnarskrárbreytingum hafa verið mikil. Því miður tókst illa til þegar verið var að fjalla um II. kafla stjórnarskrárinnar, þegar kom að málskotsrétti forseta Íslands. Þá létu menn prívatpersónuna Ólaf Ragnar Grímsson trufla sig. Þar lögðust menn í víking, sérstaklega úr Samfylkingunni, til að koma í veg fyrir að málskotsréttur forseta Íslands væri fluttur til þjóðarinnar eða með einhverjum öðrum hætti gerður úr garði. Þetta var hörmulegt. Það var hörmulegt að menn skyldu láta atburði sem urðu í hörðum umræðum um fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma trufla sig og hafa áhrif á niðurstöðu við breytingar sem allir tala um núna að þurfi að eiga sér stað. Ég hygg að það sé orðin mjög víðtæk sátt um það eða að minnsta kosti víðtæk skoðun í þjóðfélaginu að eðlilegt sé að gera breytingar á málskotsréttinum, færa hann til þjóðarinnar eða færa hann til Alþingis með einhverjum hætti. Þess vegna var hörmulegt að ekki tókst að ná niðurstöðu um þetta. Þar var ekki við Sjálfstæðisflokkinn að sakast. Það voru bara allt aðrar pólitískar aðstæður uppi. Þetta er nákvæmlega það sama og ég var að tala um áðan um auðlindaákvæðið sem við reyndum líka að ná saman með á árinu 2007. Þar hamlaði kannski fyrst og fremst tímaskortur því að við næðum saman.

Í fyrra var rætt dögum saman um stjórnarskrána. Við sjálfstæðismenn hvöttum til að gerð yrði breyting á 79. gr. stjórnarskrárinnar sem hefði gert það að verkum, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefndi áðan, að þjálla yrði að gera breytingar á stjórnarskránni í framtíðinni. Það hefði að mínu mati verið mjög gott skref og gert okkur miklu auðveldara að vinna þessi mál í framtíðinni. Ég tel að menn megi ekki, þrátt fyrir að okkur hafi gengið illa við þessar tilteknu breytingar, líta þannig á að við eigum að gefast upp. Uppgjöf á auðvitað ekki að vera til í okkar orðabók þegar kemur að stjórnarskrárbreytingunum. Við verðum að takast á við málið og Alþingi ber samkvæmt stjórnarskrárlögum meginábyrgð í þeim efnum. Við getum ekki vísað þeirri ábyrgð með einhverjum hætti frá okkur. Við verðum að fá almenning í lið með okkur, við verðum að vinna með almenningi á grundvelli íbúafunda, þjóðfunda, samskipta o.s.frv. þannig að við getum virkjað þúsundirnar, ekki þá 25–31 sem gert er ráð fyrir að starfi í stjórnlagaþinginu. Það bætir í raun og veru ekki neinu við umræðuna sem þarf að eiga sér stað.

Ýmsu þarf að breyta og mér fannst dálítið sérkennilegt að hlusta á umræðuna sem hefur farið fram og er einhvern veginn svona: Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á móti því að breyta stjórnarskránni. Ergo: Búum til stjórnlagaþing til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhver áhrif á umræðuna. Kann ekki að vera að Sjálfstæðisflokkurinn með sitt 30–40% atkvæðafylgi eigi samhljóm í skoðunum fólks úti um land, einmitt á þessu sviði? Er ekki líklegt að fólk með svipuð sjónarmið t.d. verði kosið inn á stjórnlagaþing? Er hugmyndafræðin sú að útiloka eigi fólk með þær skoðanir frá því að hafa áhrif á umræðuna sem fer fram á stjórnlagaþingi?

Það sjá auðvitað allir að þessi röksemdafærsla gengur ekki upp. Þarna rekur sig hvað á annars horn. Þetta er undarleg meinloka sem er orðin föst í hausnum á fáeinum þingmönnum. Maður verður auðvitað var við að það er ótrúlega lítill áhugi á málinu t.d. hjá Vinstri grænum. Þingmenn Samfylkingarinnar tala lítið um þetta. Þetta er persónulegt (Forseti hringir.) metnaðarmál hæstv. forsætisráðherra og þannig er málið rekið áfram án þess að fyrir (Forseti hringir.) því séu í raun og veru nokkur rök flutt. Menn spyrja aldrei grundvallarspurninganna: (Forseti hringir.) Til hvers í ósköpunum?