Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 16:04:19 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[16:04]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir mjög áhugaverða ræðu. Hann vék að þeim væntingum sem margir eða alla vega einhverjir kunna að binda við lýðræðisumbætur, stjórnlagaþing, og þá náttúrlega fyrst og fremst við væntanlega afurð stjórnlagaþings, í hvaða formi sem það mun starfa.

Það vill þannig til að mér skolaði óvænt, nauðugum viljugum, inn í þennan sal á öldufaldi reiðibylgju sem reis í þjóðfélaginu við hrunið. Þær lýðræðisumbætur sem ég hef helst heyrt kallað eftir felast í því að hlustað verði á þjóðina, að tiltekinn fjöldi atkvæðisbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu sem hefur okkur á næsta stig fyrir ofan þá villimennsku að þurfa að safnast saman og berjast við lögreglu með hávaða og ókvæðisorðum og einhverju ofbeldi til að láta í ljósi vilja okkar og vekja Alþingi Íslendinga af svefni.