Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 16:08:34 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[16:08]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Ég vil bæta því við að í sambandi við þær væntingar sem ég hef merkt um lýðræðisumbætur felast ýmiss konar óskir um umræður og úrbætur sem varða ýmislegt í stjórnarskránni. Þegar menn kalla eftir lýðræðislegum umbótum á einu sviði þá verða þeir þess áskynja að það er fleira í stjórnarskránni sem mætti bæta. Ég fyrir mína parta nefni sérstaklega það að til að uppfylla þá mannréttindasáttmála sem gilda í heiminum þurfum við að bæta við dómstigi. Mér finnst nafnbreytingin á ráðuneytinu einhver kaldhæðnislegasti brandari í pólitík í seinni tíð, að kalla dómsmálaráðuneytið mannréttindaráðuneyti á meðan það rekur enn þá dómskerfi sem er brot á öllum sáttmálum. Það finnst mér einhvern veginn afskaplega kaldhæðnislegt.

Ég held að við skynjum það báðir, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og ég, að kallað er eftir því að við uppfærum þetta grundvallarrit. Hitt er annað mál sem ég held að sé miklu betra að við ræðum bara undir fjögur augu, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og ég, þ.e. hvor okkar er meiri íhaldsmaður þegar kemur að því að breyta grundvallarlögum íslenska lýðveldisins.