Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 18:35:28 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stjórnlagaþing sem mun fá það verkefni að endurskoða stjórnarskrá okkar Íslendinga ef það verður að lögum. Þetta þing mun gefa Alþingi ráð, vegna þess að það er ekki bindandi, um hvernig endanleg stjórnarskrá mun líta út. Ljóst er að þörf er á endurbótum á stjórnarskránni. Stjórnarskráin er 80 greinar og þar af eru 79 efnislegar. Í umræðum má oft ætla að ekki hafi verið hreyft við stjórnarskránni frá árinu 1944, en það er nú ekki alls kostar rétt. (Gripið fram í.) Í þessari þriðju stjórnarskrá okkar Íslendinga hefur 45 greinum af 79 verið breytt frá lýðveldisstofnun.

En margt þarf að laga og það þarf að skýra betur aðskilnað framkvæmdarvalds, dómsvalds og löggjafarvalds. Það er einn af þeim hlutum sem þarf að laga en við þurfum líka að fá nýbreytni inn í stjórnarskrána og af því að ég er menntaður hagfræðingur dettur mér strax í hug að mjög áhugavert væri að skoða hvort í nýrri stjórnarskrá ætti að vera grein sem kvæði á um að bannað væri að reka ríkissjóð með halla. Það er ljóst að mikil skuldasöfnun er kostnaðarsöm fyrir þjóðir, þjóðfélög fara varhluta af miklum gæðum vegna þess að skuldir bera jú vexti og sennilega munu einhverja næstu áratugina vera hærri vextir í heiminum en hafa verið út af þeim miklu mistökum sem gerð voru á fjármálamörkuðum og grófu um sig á 9. og 10. áratugnum og lýstu sér síðan með fjármálakreppunni á 1. áratug þessarar aldar.

Þjóðverjar hafa sett inn ákvæði í stjórnarskrá sína sem bannar að reka þýska ríkið með halla. Það er ekki eingöngu gert vegna þeirra atriða sem ég nefndi hér áðan, að það kosti mikið að skulda og kynslóðirnar fari á mis við mikil gæði vegna vaxtagreiðslna, heldur líka vegna þess að í nútímahagstjórn leikur peningamálastjórnin mjög stórt hlutverk. Við höfum farið þá leið að peningamálastjórn sé í höndum fagaðila, í höndum seðlabanka, þar sem eitt af lykilatriðunum er að seðlabankarnir séu sjálfstæðir frá hinu daglega amstri stjórnmálanna og að ákvarðanir þar séu algjörlega teknar á þeim forsendum að verðbólgu skuli halda niðri og að verðlagi skuli halda stöðugu.

Þetta er afurð mikilla rannsókna og mikillar reynslu sem hinn vestræni heimur gekk í gegnum, getum við sagt, á olíukreppuárunum á 8. áratugnum. Þar sáu menn hversu gríðarlega kostnaðarsöm verðbólga getur verið. Jafnframt endurspeglar fjárlagahalli, eins og nafnið bendir til, að meiru er eytt en aflað er. Oft og tíðum veldur það þenslu í hagkerfinu, þ.e. verðbólgu. Allt bítur þetta hvað í skottið á öðru. Ég hefði haldið að við endurskoðun stjórnarskrárinnar, eins og ég hef sagt hér, væri mjög álitlegt að skoða hvort eigi að stjórnarskrárbinda að fjárlagahalli verði einfaldlega bannaður nema hugsanlega í einhverjum neyðartilvikum eins og við sáum á árinu 2008 þegar fjármálakreppan skall á Íslandi. Hugsanlega mætti binda það einhverjum skilyrðum, t.d. að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um hvort yfirleitt mætti reka ríkissjóð með halla, þrátt fyrir að einhver óvæntur skellur hefði komið.

Á Íslandi búum við við svokallað fulltrúalýðræði, líkt og er á Vesturlöndum. Fulltrúalýðræði hefur komið fram af ofurpraktískum ástæðum, það mundi æra óstöðugan að öll þjóðin greiddi atkvæði um hvert og eitt mál sem þarf að lögfesta á hinu háa Alþingi. Kerfið hefur þróast þannig í aldanna rás að borgarar velja sér fulltrúa til að sitja á Alþingi. Þeir fulltrúar eiga að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni og það er gert í hverju máli. Þess vegna kemur mér á óvart að þessum fulltrúum sé ekki treystandi til að endurskoða eða sjá til þess að stjórnarskráin sé endurskoðuð og setja þar fram hugmyndir um þær breytingar sem æskilegar eru heldur þurfi að fara fram sérstakt stjórnlagaþing þar sem aðrir fulltrúar en þeir sem sitja á löggjafarsamkundunni koma með hugmyndir að þessari nýju stjórnarskrá.

Mér finnst þetta skjóta nokkuð skökku við og í raun vera tvíverknaður eða þríverknaður eða hvað má segja um það mál. Ég held að Íslendingum sé ekki of gott að nota svipaðar leiðir og hafa verið farnar hér á Íslandi og eru farnar í þeim löndum sem við svo oft berum okkur saman við. Með því er ég ekki að segja að ný stjórnarskrá skuli samin í nefnd þar sem þingmenn eiga sæti, það má allt eins hugsa sér að hópur sérfræðinga sé Alþingi til ráðgjafar með stjórnarskrána, en í öllu því verður auðvitað að passa upp á að almenningur hafi eitthvað um þetta að segja. Með nútímatækni ætti að vera hægðarleikur fyrir áhugamenn um nýja stjórnarskrá að koma skilaboðum til alþingismanna, ég tala nú ekki um ef búinn yrði til sérstakur vettvangur sem yrði vel kynntur.

Þrátt fyrir að ég segi hér að Alþingi ráði við það verk að búa til nýja stjórnarskrá held ég að það þurfi að fara fram á tíma sem er utan hins hefðbundna pólitíska karps og að til umræðu verði ekki nein önnur mál þannig að þetta detti ekki í hina hefðbundnu gryfju stjórnmálanna, hvort sem það væri málþóf eða einhver pólitísk hrossakaup, heldur að þetta væri afmarkaður tími þar sem þingmenn gætu gefið sér góðan tíma og unnið vel að gerð nýrrar stjórnarskrár.

Jafnframt eru praktísk vandamál með hvernig háttað verður með frambjóðendur til stjórnlagaþings. Eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti réttilega á, ef allt í einu mundi kvikna einhver ósegjanlegur áhugi meðal þjóðarinnar á að sitja á þessu stjórnlagaþingi er erfitt að sjá fyrir sér hvernig kjörseðillinn mundi líta út. Hugsanlega er til einhver einföld lausn á því vandamáli en ég hef ekki heyrt hana og ekki dottið nein lausn í hug.

Jafnframt hlýtur það að vera nokkurt áhyggjuefni hvernig frambjóðendur til stjórnlagaþings munu ná athygli landsmanna. Getur verið að þeir sem eigi mest erindi á þingið séu þeir sem eru hvað óþekktastir? Af hverju segi ég það? Vegna þess að við höfum séð það á vettvangi stjórnmálanna að þeir sem hafa þekktustu andlitin eiga hvað greiðastan aðgang að hjarta kjósenda. Fólk vill greiða þeim atkvæði sem það telur sig þekkja, ekki af persónulegum kynnum heldur af andlitinu, og þá er skammt í það að maður fari að hugsa hvort svona fígúrur sem eru í hinni opinberu umræðu, álitsgjafar, íþróttastjörnur, leikarar og annað slíkt, séu það fólk sem hugsanlega nær til fólksins og muni því mynda þetta stjórnlagaþing. Það er erfitt að sjá fyrir sér hvernig hægt er að leiðrétta það forskot sem þeir frambjóðendur hafa sem eru þekkt andlit í þjóðfélaginu.

Jafnframt eru nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar mér hugleiknar þar sem nýtt framboð í Reykjavík rakaði til sín fylgi. Þetta nýja afl sem enginn hafði trú á í fyrstu endaði með næstum því hreinan meiri hluta, það munaði ekki miklu að það fengi hreinan meiri hluta í borgarstjórn. Einn helsti skemmtikraftur landsins verður nú borgarstjóri og með fullri virðingu fyrir Jóni Gnarr, sem er ákaflega hæfileikaríkur maður og hefur örugglega margt fram að færa, og því góða fólki sem er með honum á lista Besta flokksins — margt af því kannast ég við og þekki jafnvel nokkuð frá gamalli tíð — gæti hugsast að upp kæmi svipuð hreyfing í kringum kjör til stjórnlagaþings. Mér dettur t.d. í hug að Auddi og Sveppi eru ekki uppteknir í stjórnmálum. Gæti verið að þeir mundu t.d. stjórna stjórnlagaþinginu? Hversu mikil alvara væri í því, með fullri virðingu fyrir þeim góðu mönnum, ef þekkt andlit úr skemmtanaiðnaðinum tækju sig saman og byðu fram einhvers konar röð af fólki sem hefði áhuga á því að taka þátt í þessu sprellsins vegna? Hugsanlega yrði það bara ágætt, en ég varpa þessari spurningu fram.

Ég vil kannski aðeins koma aftur að þeirri aðferð að kjósa að nota ekki þingmenn til að stjórna þessu og smíða nýja stjórnarskrá. Þó að þetta sé einungis ráðgefandi finnst mér þetta vera nokkurs konar uppgjöf og vanvirðing fyrir fulltrúalýðræðinu. Ég tel að við, hv. þingmenn sem sitjum á hinu háa Alþingi, séum þverskurður allrar þjóðarinnar, við komum úr öllum þjóðfélagsstéttum og erum á mismunandi aldri, af mismunandi kyni og annað slíkt þannig að ég tel að þingmenn endurspegli þjóðina ágætlega.

Það getur verið að það séu einhverjir eiginleikar til að smíða nýja stjórnarskrá sem við höfum ekki en þá er það þó ólíkt því sem er í öðrum löndum þar sem þjóðþingin hafa þetta með höndum.

Ég á eftir að fá rök fyrir því hvaða eiginleikar það eru sem okkur stjórnmálamennina, sem erum rétt kjörnir, vantar.

Þá er það kannski síðasti punkturinn sem ég er með og hann varðar kostnaðinn. Ljóst er að þetta mun kosta gríðarlega mikla peninga, þeir peningar eru ekki til, þeir peningar verða teknir að láni. Þingmenn hafa komið hér upp og sagt að kostnaðurinn sé fullkomlega réttlætanlegur vegna þess hve mikilvægt og merkilegt þetta mál er, en sömu rök eru reyndar notuð þegar talað er um kostnaðinn við Evrópusambandsumsóknina, en peningarnir fyrir henni eru líka allir teknir að láni. Það er mikið tekið að láni fyrir mjög brýnum málum á sama tíma og uppi eru hugmyndir um að skera mjög mikið niður í ríkisrekstri sem óhjákvæmilega mun leiða til þess að segja þarf upp ríkisstarfsmönnum og sem óhjákvæmilega mun leiða til þess að kaupmáttur ríkisstarfsmanna mun snarminnka.

Kannski eru þetta aukaatriði, kannski er fullkomlega réttlætanlegt að taka lán fyrir þessu en ég held að ég geti mælt fyrir hönd flestra þingmanna að okkur væri ekkert of gott að vinna að þessu máli sjálf, þ.e. að við hefðum tíma til þess. Við gætum t.d. notað sumarfríið okkar í það. Við notuðum sumarfríið seinasta sumar í Icesave og af hverju ekki að nota sumarfríið núna í það að smíða nýja stjórnarskrá? Ég varpa bara þeirri hugmynd fram.

Það er ljóst að ekki er sátt um þessa meðferð og það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir fólk að smíða eigi nýja stjórnarskrá við skilyrði sem ekki ríkir sátt í þjóðfélaginu um. Til þess er stjórnarskráin allt of mikilvæg. Ég tek undir að full þörf er á því að endurskoða og jafnvel smíða nýja stjórnarskrá, en ég er hins vegar ekki fylgjandi þessari aðferð, bæði af praktískum ástæðum, eins og ég hef rakið, kostnaði, hvernig framkvæmdin er og annað slíkt, og vissum hættum sem eru tengdar þessu, og vegna þess að okkur alþingismönnum er ekkert of gott að smíða nýja stjórnarskrá handa okkur Íslendingum með aðstoð færustu sérfræðinga.