Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 19:01:53 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[19:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að þetta sé hárrétt athugað. Hverjir eru það sem við viljum að séu Alþingi til ráðgjafar með nýja stjórnarskrá? Það eru fremstu fræðimenn á sviðinu, það eru lögspekingar og sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í málinu. Það er líka eitt sem stjórnlagaþingið gerir, það útilokar náttúrlega útlendinga. Það er auðvelt að sjá fyrir sér, nákvæmlega eins og hv. þingmaður benti á, sérfræðinga frá öðrum þjóðþingum en líka bara fræðimenn frá öðrum löndum, erlenda fræðimenn, hjálpa til við sérfræðivinnu sem snýr að því að búa til hina bestu stjórnarskrá allra stjórnarskráa. Þá held ég að tillaga hv. þm. Þráins Bertelssonar sé bara alls ekki slæm, að við skipum hóp okkar færustu sérfræðinga og fræðimanna til að hjálpa okkur alþingismönnum með þetta.