Framhaldsskólar

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 20:47:50 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir segir í nefndaráliti frá minni hluta menntamálanefndar að ekki sé ljóst hvort frumvarpið sem hér er til umræðu sé ástæða þess að hætt hefur verið við boðaðar breytingar á námsskipulagi MS. Hið rétta er að frumvarpið hefur ekkert með þær breytingar að gera. Það er búið að vinna að þessari kerfisbreytingu í samstarfi við kennara MS í um fimm ár og stuðningur hefur verið við það frá menntamálaráðuneytinu allan tímann. Samkvæmt upplýsingum frá skólameistara MS er það svo að kennurum MS var boðið allt að 6,4% launahækkun ef þeir færu yfir í nýja kerfið að fullu, sem þeir höfnuðu. Það er ástæðan og auðvelt hefði verið fyrir hv. þingmann að kanna það áður en nefndarálitið fór í prentun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga:

Heldur hv. þm. Eygló Harðardóttir því fram að sú raunaukning sem hefur orðið á kostnaði við rekstur grunnskólans stafi af lögbundnum skyldum frekar en þjónustu sem sveitarfélögin sjálf hafa kosið að veita? Þetta er fyrri spurningin.

Í öðru lagi: Telur hv. þingmaður að ekki sé hægt að hagræða í rekstri án þess að gefa sveitarfélögunum heimild til að fækka kennsludögum á skólaári eða heimild til að fækka kennslutímum á viku?