Framhaldsskólar

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 20:49:29 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. minni hluta menntmn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Oddnýju Harðardóttur fyrir spurningarnar. Þingmaðurinn segir að það hefði verið auðvelt fyrir mig að afla mér þessara upplýsinga. Við ræddum sérstaklega þessa ákvörðun á nefndarfundi í menntamálanefnd. Komu fram upplýsingar frá tveimur nefndarmönnum sem virtust stangast á. Það var ástæðan fyrir því að ég segi í nefndaráliti að það virðist ekki vera ljóst hvort það sé ástæðan eða ekki. Það hlýtur að vera svolítið einkennilegt að búið sé að vinna að einhverju í fimm ár en síðan er bakkað með boðaðar breytingar á síðustu stundu. Það sem ég vildi benda á er að það er mjög mikilvægt, hvort sem um er að ræða opinberar stofnanir eða einkafyrirtæki, að ekki sé auglýst ákveðin þjónusta sem síðan er ekki ætlunin að standa við þegar hinir svokölluðu notendur eða kaupendur að þjónustunni eru mættir á staðinn og vilja nota hana.

Ég hefði líka talið eðlilegt, í ljósi þessara vangaveltna sem ég tók upp í nefndinni, að beðið hefði verið með að afgreiða málið út úr nefnd og við hefðum getað fengið upplýsingarnar beint frá ráðuneytinu eða Menntaskólanum við Sund. Hins vegar var talin ástæða til að taka málið út aftur og þetta var niðurstaðan. Ég taldi hins vegar ástæðu til að benda á þetta.

Ég fagna því virkilega sem kemur hér fram hjá formanni menntamálanefndar að þetta sé ekki ástæðan fyrir því að hætt var við breytingarnar.

Ég verð að segja að ég hef (Forseti hringir.) áhyggjur af ákveðinni stífni eða ósveigjanleika hjá Kennarasambandinu eins og endurspeglast í umsögn sambandsins sem þingmaðurinn (Forseti hringir.) benti á. Ég ætla að fá að svara seinni hluta spurningarinnar í næsta andsvari.