Framhaldsskólar

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 20:52:57 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. minni hluta menntmn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræddum milli 2. og 3. umr. að þegar við stöndum frammi fyrir þeim fjárhagslegu örðugleikum sem Ísland er í, sem ríkið er í, sem sveitarfélögin eru í, sem heimilin í landinu eru í, þá þarf að taka margar erfiðar ákvarðanir. Ég held að það séu örugglega fáir þingmenn sem gera sér betur grein fyrir því en einmitt hv. þm. Oddný Harðardóttir en hún situr ekki bara sem formaður menntamálanefndar heldur er hún líka nefndarmaður í fjárlaganefnd.

Við þurfum að vera opin fyrir því að takmarka eða minnka hugsanlega þjónustu sem við höfum ella viljað bjóða upp á. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi bent á að það er ýmislegt sem við mundum vilja gera en í ljósi efnahagsástandsins getur ríkið ekki gert það. Þá er engan veginn hægt að segja að ríkið ætli bara að hagræða í rekstri hjá sér og nýta þær valdheimildir sem það hefur til að auðvelda sér það en taki ekki tillit til þess að annað stjórnsýslustig á líka í erfiðleikum og komi ekki til móts við það.

Ég tek hins vegar fram í nefndaráliti mínu að ég tek ekki afstöðu til tillagnanna hjá sambandinu. Hins vegar tel ég að þetta sé eitthvað sem þurfi að skoða og ekki megi hunsa.

Þegar ég sat fundi með fulltrúum vinnumarkaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við stöðugleikasáttmálann kom fram í þeim gögnum sem sambandið lagði fram að mjög mikið af þeim aukna kostnaði sem fallið hefur á sveitarfélögin tengist því að starfsmönnum innan skólanna hefur fjölgað mjög. Ekki kennurum, heldur ýmsum öðrum starfsmönnum til að styðja við stefnu um nám án aðgreiningar. Það fjármagn sem við setjum í skólana hefur hins vegar ekki skilað sér í betri námsárangri (Forseti hringir.) hjá börnunum okkar ef við horfum á PISA-könnunina. Ég held því að við þurfum að vera opin fyrir að ræða hlutina. Ég lýsi mig viljuga til þess.