Hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 21:28:47 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[21:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég kem hingað í ræðustól fyrst og fremst til þess að lýsa ánægju minni með að þetta mál sé komið svona langt, komið úr hv. allsherjarnefnd til 2. umr., frumvarp til laga um breyting á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist, sem hefur gengið undir heitinu ein hjúskaparlög.

Upphaf málsins má rekja til þess að frumvarp þessa efnis var flutt á 135. löggjafarþingi, veturinn 2007–2008, og 1. flutningsmaður þess var Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi hv. þingmaður. Ásamt henni fluttu málið þingmennirnir Atli Gíslason, Katrín Jakobsdóttir, Ögmundur Jónasson, Bjarni Harðarson, Siv Friðleifsdóttir og Grétar Mar Jónsson. Mér finnst rétt og tilhlýðilegt að nefna hv. fyrrverandi þingmann, Kolbrúnu Halldórsdóttur, í þessu sambandi vegna þess að hún hefur um langt skeið verið mikill og ötull baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra og átti frumkvæðið að því að flytja, eins og ég sagði áðan, frumvarp til laga um breytingu á þessum hjúskaparlögum þannig að í landinu giltu ein hjúskaparlög fyrir alla, óháð kynhneigð.

Hv. þm. Róbert Marshall hefur gert ágætlega grein fyrir áliti meiri hluta allsherjarnefndar sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stöndum að og erum samþykk. Það nefndarálit gerir ráð fyrir því eða leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Þau álitamál sem helst komu upp í umfjöllun nefndarinnar eru, eins og kom fram í máli beggja framsögumanna, bæði hv. þm. Róberts Marshalls og hv. þm. Birgis Ármannssonar, hvort í 1. gr. hjúskaparlaganna ætti að tala um að hjúskapur væri milli tveggja einstaklinga, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, eða hugsanlega að breyta því orðalagi í að hjúskapur væri milli karls og konu, karls og karls eða konu og konu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að ýmis sjónarmið komu fram fyrir nefndinni, m.a. af hálfu kirkjunnar manna, um að það mundi hugsanlega gera þeim þetta léttbærara mörgum hverjum ef orðalagið væri þannig. Á hinn bóginn komu líka fram þau sjónarmið, einkum og sér í lagi frá talsmönnum samtaka samkynhneigðra, félagi aðstandenda samkynhneigðra og einnig frá nokkrum fulltrúum sem komu fyrir nefndina af hálfu kirkjunnar, bæði Prestafélags Íslands og Fríkirkjunnar í Reykjavík, að með því að viðhafa það orðalag yrði markmiðum frumvarpsins um að afmá þann lagalega mun sem felst í mismunandi löggjöf ekki náð með nægilega sannfærandi og góðum hætti. Með því orðalagi yrði þeim mismun sem er í gildandi tillögum í reynd viðhaldið. Meiri hlutinn gerir því ekki tillögu um breytingu að þessu leyti og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hvað varðar annað álitamál, sem ég sé að einnig er flutt breytingartillaga um af hálfu minni hluta allsherjarnefndar, sem snýst um að vígslumönnum trúfélaga sé heimilt að synja hjónaefnum um vígslu ef það stríði gegn trúarlegri sannfæringu þeirra, er rétt að geta þess sem segir í áliti meiri hluta allsherjarnefndar, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi einnig um ákvæði sem varða skyldu eða heimild til að vígja pör. Þannig er borgaralegum vígslumanni skylt að vígja pör sem þess óska. Á kirkjulegum vígslumönnum hvílir ekki sams konar skylda. Nefndin ræddi hvort rétt væri að leggja slíka skyldu á kirkjulega vígslumenn en meiri hlutinn telur ekki unnt að leggja til slíka breytingu á frumvarpinu þar sem það geti farið í bága við réttindi viðkomandi presta.“

Annars vegar var því uppi það sjónarmið að sérstaklega ætti að taka fram að vígslumönnum trúfélaga væri heimilt að synja hjónaefnum um vígslu og hins vegar hvort það ætti að skylda þá til þess. Hér er farin sú leið að hreyfa ekki við ákvæðum laga, enda hvílir þessi skylda fyrst og fremst á borgaralegum vígslumanni en ekki kirkjulegum.

Það er því ekki tillaga meiri hlutans að leggja til breytingar á frumvarpinu. Við teljum að það sé vel úr garði gert eins og það liggur fyrir og leggjum eindregið til að það verði samþykkt óbreytt. Ég get sagt fyrir mína parta að ég mun ekki styðja þær breytingartillögur sem minni hluti allsherjarnefndar leggur til og vonast til þess að góð sátt geti tekist um það hér í þinginu að bæta réttarstöðu samkynhneigðra með afgerandi hætti eins og frumvarpið leggur til og gerir ráð fyrir óbreytt.