Hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 21:34:07 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[21:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hefði kosið að málið hefði verið rætt í dagsljósi en ekki seint um kvöld. Ég ímynda mér að fjölmargir hefðu viljað taka þátt í umræðunum. Það er nú eins og það er og lítið við því að gera.

Ég vil lýsa því yfir strax að ég er fylgjandi þessum breytingum. Ég vil taka það fram að umræðan um þessi málefni hefur því miður einkennst af upphrópunum og ómálefnalegum fullyrðingum á báða bóga, því um málið hefur ekki ríkt fullkomin eining. Þá er ég fyrst og fremst að tala um umræðuna innan kirkjunnar. Að vissu leyti minnir þetta mig á þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lagði fram tillögu þess efnis að taka hið kristilega siðgæði út úr stefnumiðum skólastarfs. Það var gert með þeim rökum að í dómi frá Mannréttindadómstóli Evrópu segði, að slíkar skilgreiningar á markmiðum væru einfaldlega bönnuð í lögunum. Þegar dómurinn var skoðaður, og sem betur fer gaf ég mér góðan tíma til þess að fara yfir hann frá A til Ö, kom fram að dómstóllinn var algjörlega fylgjandi þessu og taldi lofsvert að hafa hið kristilega siðgæði í markmiðskafla grunnskólalaga. Á endanum féllst meiri hlutinn á að breyta þessu svo þetta hangir þarna enn.

Ég fylgdist svolítið með umræðunni, sérstaklega á kirkjuþingi, þar sem tveir armar kirkjunnar tókust á. Mér fannst báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls. Það er ekki sjálfsagt mál að telja að hjúskaparlög gildi um karl og konu. Ég tel hins vegar, eins og ég sagði í upphafsorðum mínum, að við eigum að skapa öllum einstaklingum, hvort sem um samkynhneigða eða gagnkynhneigða er að ræða, sömu lagalegu forsendur til að stofna fjölskyldu. Þetta snýst allt um fjölskyldur þegar á botninn er hvolft því fólk eignast börn sama hverrar kynhneigðar það er. Ég hef talið að sömu reglur eigi að gilda á báða bóga. Ég vil því taka það fram að ég er fylgjandi breytingunni og tel hana vera jákvætt skref. Framsóknarflokkurinn hefur lengi átt mjög sterkan talsmann í þessu efni í hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem ég veit að er mjög ánægð með að breytingin er orðin að veruleika.