Hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

Fimmtudaginn 10. júní 2010, kl. 13:17:58 (0)


138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[13:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Sú breytingartillaga sem við leggjum hér fram felur í sér að það verði skýrt tekið fram í lagatexta að vígslumönnum trúfélaga sé heimilt að synja hjónaefnum vígslu ef það stríði gegn trúarlegri sannfæringu þeirra. Þetta er í samræmi við þann skilning sem ríkt hefur en við teljum rétt að taka þetta skýrt fram í lögunum. Það er tekið fram í lögunum að borgaralegum vígslumönnum sé skylt að vígja alla sem þess óska en við teljum að með sama hætti og til að gæta samræmingar sé rétt að taka fram að þeir sem hafa vígsluheimild og eru forstöðumenn trúfélaga eða prestar geti synjað ef það stríðir gegn trúarlegri sannfæringu þeirra. Þetta vitum við að er í samræmi við trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og þess vegna teljum við rétt að setja þetta fram með skýrum hætti í lagatextanum, alveg (Forseti hringir.) eins og þar er sett fram að borgaralegum vígslumönnum beri skylda til að vígja þá sem þess óska.