Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 10. júní 2010, kl. 20:02:45 (0)


138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki fyrir hönd meiri hluta hv. viðskiptanefndar. Fulltrúi Framsóknar í viðskiptanefnd er jafnframt á þessu nefndaráliti með fyrirvara.

Frumvarpinu var vísað til hv. viðskiptanefndar á milli 2. og 3. umr. og tók meiri hluti nefndarinnar ákvörðun um þrjár veigamiklar breytingar til viðbótar þeim breytingum sem samþykktar voru við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr.

Fyrsta breytingin sem lögð er til í þetta sinn er breytingartillaga sem felur í sér að kjör hvers stjórnarmanns og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis verði tilgreind í ársreikningi og jafnframt verði gefin upp heildarkjör lykilstjórnenda án þess að getið verði um kjör hvers og eins. Hv. viðskiptanefnd eða meiri hluta hennar þótti tilefni til þess að tryggja gagnsæi hvað varðar kjör stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis og leggur því til þessa breytingartillögu.

Í öðru lagi leggur meiri hluti viðskiptanefndar til viðbót varðandi það hvenær fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja sem fjármálafyrirtæki hafa tekið yfir á að ljúka. Lagt er til að henni ljúki innan 12 mánaða frá því að fjármálafyrirtæki hóf starfsemi sem er þá ótengd starfsleyfi þess og er í flestum tilfellum um rekstrarfélög að ræða sem yfirtekin hafa verið. Þetta 12 mánaða tímabil getur verið of knappur tími til að raunhæft sé að það náist að selja viðkomandi rekstrarfélag með ásættanlegum árangri og því leggur meiri hlutinn til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að framlengja tímafrestinn og að fjármálafyrirtæki skuli rökstyðja í umsókn sinni til Fjármálaeftirlitsins hvers vegna þörf er á framlengingu og hvaða atriði það séu sem hindri sölu á hinu yfirtekna fyrirtæki. Með því að setja inn ákveðin tímamörk eins og þessa 12 mánuði er verið að þrýsta á fjármálafyrirtækin að standa ekki of lengi í óskyldum rekstri en jafnframt er þetta ákvæði, að hægt sé að sækja um framlengingu til Fjármálaeftirlitsins, sett inn til að tryggja að fjármálafyrirtæki neyðist ekki til að setja rekstrarfyrirtæki á brunaútsölu bara til að uppfylla þessi tímamörk.

Þriðja atriðið sem meiri hlutinn leggur til er að nú bætist við lögin ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo:

„Efnahags- og viðskiptaráðherra skal skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Nefndin skal m.a. skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingarfélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hvernig verði best hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.”

Þessi atriði hafa öll komið til umræðu bæði í nefndinni og jafnframt í þingsal. Lögð er mikil áhersla á það í hv. viðskiptanefnd að þessi nefnd verði skipuð sem fyrst og jafnframt að hún ljúki störfum á skömmum tíma, því að frumvarpið sem við ræðum núna boðar bara hertar reglur en ekki neinar skipulagsbreytingar á fjármálakerfi sem hrundi fyrir tæpum tveimur árum og það er mjög brýnt að við sem þjóð tökum ákvörðun um hvers konar fjármálakerfi við viljum. Ég persónulega mundi vilja bæta inn í verkefni nefndarinnar að hún ætti jafnframt að skoða það að vera með einkabanka þar sem ríkið tryggir óbeint innstæður ef ekki er nóg til í innstæðutryggingarsjóðnum til að bæta innstæðueigendum þegar banki fellur. Þegar verið er að leggja til slíkt einkabankakerfi finnst mér nauðsynlegt að velta því upp hvort ekki ætti frekar að vera með ríkisbanka fyrst ríkið þarf að hlaupa undir bagga með fjármálafyrirtækjum óbeint í gegnum Tryggingarsjóð innstæðueigenda þegar þeir lenda í þroti.

Frú forseti. Ég vil að lokum þakka hv. viðskiptanefnd fyrir mjög gott samstarf, bæði um þetta frumvarp og önnur frumvörp sem hafa verið til vinnslu í nefndinni. Nefndin hefur verið tilbúin að leggja á sig mikla vinnu, funda oftar en einu sinni í viku til að ná að fara mjög vel ofan í bæði ágreiningsefni og álitamál varðandi þau frumvörp sem hafa legið fyrir í nefndinni. Enn og aftur, ég þakka nefndarmönnum í hv. viðskiptanefnd fyrir gott samstarf.