Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 10. júní 2010, kl. 20:10:55 (0)


138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir góða fyrirspurn. Ég verð að viðurkenna að mér var ekki kunnugt um þessa fyrirætlan fjárfestingarbankanna og tel mjög varhugavert ef ætlunin er að samþykkja það að útvíkka starfsleyfi þeirra þannig að þeir geti tekið við innstæðum. Ég tel að Fjármálaeftirlitið eigi að bíða eftir að sú nefnd sem við leggjum til að verði sett á laggirnar hafi lokið starfi sínu. Ég tel mjög brýnt að það komi fram ákveðinn aðskilnaður milli fjárfestingarstarfsemi og viðskiptabankastarfsemi áður en fjárfestingarbönkum verði leyft að fara í viðskiptabankastarfsemi. Ekki þyrfti nema ákvæði um að þeim fjárfestingarbönkum sem stæðu jafnframt í innlánastarfsemi væri bannað að versla með eigin hluti eða, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ræddi við 2. umr., að þeim væri bannað að standa í eigin viðskiptum. En auðvitað þarf að kanna hvaða áhrif slík ákvæði muni hafa á fjármálafyrirtækin hér á landi, þetta eru allt mjög lítil fjármálafyrirtæki, og það er alla vega ekki í mínum huga ljóst hvaða áhrif slík bönn og boð mundu hafa.