Hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

Föstudaginn 11. júní 2010, kl. 12:54:26 (0)


138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[12:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta mál er komið hér til 3. og lokaatkvæðagreiðslu. Það eru mikil gleðitíðindi fyrir baráttufólk fyrir mannréttindum og fyrir jöfnum rétti allra í þessu landi óháð kynhneigð. Mér finnst við hæfi að rifja það upp að þetta hefur verið baráttumál í sölum Alþingis um nokkurra ára skeið. Hv. þáverandi þm. Kolbrún Halldórsdóttir flutti fyrst þingmál um þetta efni ásamt fleiri ágætum þingmönnum og það er nú að verða að lögum. Við hljótum að fagna því og óska öllum þeim sem njóta nýju laganna hjartanlega til hamingju. (BirgJ: Heyr, heyr.)