Stjórnlagaþing

Föstudaginn 11. júní 2010, kl. 20:27:22 (0)


138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér í 2. umr. frumvarp til laga um stjórnlagaþing og nefndarálit sem hv. allsherjarnefnd hefur lagt fram, þrjú nefndarálit í þessu máli.

Ég lýsti því yfir í 1. umr. að ég teldi mjög brýnt að breyta stjórnarskránni. Ég tel það enn. Ég vil aftur koma inn á það hvernig mér finnst að stjórnarskráin eigi að vera. Í fyrsta lagi þurfa menn að velta fyrir sér: Til hvers hafa þjóðir stjórnarskrá? Í öðru lagi þurfa menn að velta fyrir sér: Til hvers hafa þjóðir ríki?

Ég lít þannig á að hlutverk stjórnarskrár sé að gæta mannréttinda númer eitt, tvö og þrjú. Vegna þess hve mikilvæg stjórnarskráin er er mjög æskilegt að um hana ríki samstaða og að sem allra flestir komi að því að móta hana og séu sáttir við hana. Þetta er eins konar boðorð fyrir þjóðina.

Varðandi það hvert sé hlutverk stjórnarskrár þá er það, eins og ég sagði, að gæta mannréttinda. Þá vil ég skipta mannréttindum í tvennt. Í fyrsta lagi þau réttindi sem verja einstaklinginn fyrir öðrum einstaklingum. Þá á ég við í fyrsta lagi að engan megi drepa. Það eru grundvallarmannréttindi vegna þess að ef hægt er að drepa menn, ef það er heimilt, þá falla öll önnur mannréttindi um sjálf sig. Svo er það eignarrétturinn og trúfrelsið og málfrelsið og ýmis önnur mannréttindi sem maðurinn hefur fyrir sjálfan sig og það á að verja þau mannréttindi fyrir ásælni annars fólks, annarra persóna. Þetta tel ég að eigi að vera í I. kafla stjórnarskrárinnar, þ.e. mannréttindi sem snúa að því að verja einstaklinginn fyrir öðrum einstaklingum.

Þá kem ég að II. kafla um mannréttindi sem snerta kröfur einstaklingsins á aðra einstaklinga. Það er t.d. framfærsluskylda foreldra við börn sín og framfærsluskylda almennings við aldraða og öryrkja. Þetta eru mannréttindi annarrar gráðu mundi ég segja vegna þess að þau eru háð umhverfinu. Ef efnahagsástandið er mjög bágborið eða hungursneyð eða eitthvað slíkt minnka þau mannréttindi sem gera kröfur á annað fólk. Einstaklingur getur ekki gert kröfu til þess að annar framfleyti honum ef sá, þ.e. þessi annar, er t.d. við hungurmörk. Þá er ég auðvitað að tala um mjög alvarlega stöðu eins og reyndar því miður er víða í heiminum því að enn þá er fólk að deyja úr hungri.

Þegar þessir tveir kaflar um mannréttindi eru komnir inn í stjórnarskrána þurfum við að gæta að því hver eigi að tryggja þessi mannréttindi. Hver á að tryggja að þessi mannréttindi séu haldin, að menn fremji ekki morð, að það sé ekki stolið frá fólki, eignarrétturinn sé tryggður og að framfærsla sé tryggð? Til þess, frú forseti, byggjum við ríki. Við búum til ríki til að tryggja mannréttindin sem ég taldi upp í I. og II. kafla stjórnarskrárinnar. Þá kemur að því: Hvernig ætlum við að hafa þetta ríki? Við höfum séð í gegnum tíðina alls konar tegundir af ríkjum, einræði og kúgun og annað slíkt. Til þess að vernda einstaklinginn fyrir ríkinu þarf stjórnarskráin að kljúfa ríkið í þrennt í samræmi við kenningar heimspekinga, sérstaklega franskra, í dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdarvald.

Það þarf að taka það sérstaklega fram um hvern þessara þátta hvernig hann á að starfa, hvernig Alþingi á að starfa, eins og gert er í núverandi stjórnarskrá, hvernig dómsvaldið á að starfa, en veigamikil atriði vantar um það í núverandi stjórnarskrá, t.d. vantar alveg ákvæði um Hæstarétt í stjórnarskrána og það vantar alveg ákvæði um stjórnlagadómstól. Mér finnst að Hæstiréttur geti gegnt hlutverki stjórnlagadómstóls en þá þarf hann að vera fullskipaður öllum hæstaréttardómurum þegar hann tekur afstöðu til þess hvort lög frá Alþingi samræmist stjórnarskrá, t.d. varðandi eignarréttinn eða önnur mannréttindi.

Ákvæði um framkvæmdarvaldið þurfa að vera í sérstökum kafla í stjórnarskránni og sömuleiðis um löggjafarvaldið eins og það er nú. Þegar þessir þrír kaflar hafa bæst við tel ég að stjórnarskráin sé fullmótuð nema varðandi breytingar á henni. Mér finnst að stjórnarskrárbreytingar eigi að eiga sér stað með þjóðaratkvæðagreiðslu, að löggjafarsamkundan komi með tillögu um breytingar sem fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. En það þarf að vera mjög veigamikill meiri hluti þjóðarinnar sem samþykkir breytingar á stjórnarskránni vegna þess að ég tel að hún eigi ekki að vera auðbreytanleg. Það á að vera mjög erfitt að breyta henni og það þarf að myndast um hana mjög mikil samstaða. Ég mundi telja að jafnvel 50–60% af öllum atkvæðisbærum mönnum í landinu yrðu að samþykkja breytingar á stjórnarskrá sem mundi þýða að það gerðist ekki mjög oft. Það er annað en að meiri hluti velji það því að það þyrftu væntanlega 80% að taka þátt í kosningunni og meginhluti þeirra þyrfti að vera samþykkur breytingunni, meira en helmingur, töluvert meira. Þetta eru mínar hugmyndir um hvernig stjórnarskráin eigi að líta út. Stjórnarskráin á að vera mjög stuttorð og það á að vera um hana mjög góð samstaða.

Vandamálið við núverandi stjórnarskrá, ef við förum í gegnum hana, er að hún er að mörgu leyti mjög gölluð. Ég hef lesið hana í gegn. Þar er fjöldi ákvæða um forsetann og þegar maður les þau kynni maður að halda að forseti Íslands hefði mjög mikil völd því að samkvæmt stjórnarskránni gerir hann samninga við erlend ríki, ræður opinbera starfsmenn o.s.frv. En svo tekur 13. gr. þetta allt til baka þannig að það er ekkert að marka það sem stendur í stjórnarskránni. Það tel ég vera mjög slæmt því að hún á að vera auðskilin hverjum manni. Menn eiga að vita nákvæmlega hvað er í stjórnarskránni vegna þess að þetta eru grundvallarlög. Það á ekki að geta gerst, frú forseti, eins og gerðist þegar deilan stóð um 26. gr., að fram komi þrjú lögfræðiálit, sem ég las öll, löng og viðamikil, og það var svo merkilegt að þau komust að þremur mismunandi niðurstöðum og ég féllst á þær allar. Það gengur náttúrlega ekki upp að stjórnarskráin sé svona snúin.

Núna, frú forseti, er 79. gr. þannig að breytingar á stjórnarskránni þarf að samþykkja á Alþingi, þá er þing rofið strax og efnt til kosninga og nýtt þing kosið. Það þing þarf að samþykkja breytinguna til þess að hún öðlist gildi. En það þýðir að þjóðin er aldrei að greiða atkvæði um stjórnarskrána vegna þess að í þessum kosningum, eftir að búið er að rjúfa þing, eru menn að kjósa um eitthvað allt annað. Menn eru að kjósa um pólitíkina, hvernig landinu eigi að vera stjórnað næstu fjögur árin. Menn eru að kjósa um það hvernig stefna á að vera í landbúnaðarmálum eða fiskveiðimálum eða guð má vita hvað. En síst af öllu mundu menn kjósa um stjórnarskrána. Þess vegna er núgildandi regla um breytingu á stjórnarskránni þess eðlis að það er í rauninni ekki þjóðin sem greiðir atkvæði um það. Það þykir mér mjög slæmt því að stjórnarskráin er jú lög þjóðarinnar fyrir sjálfa sig.

Um leið og þing yrði rofið, hvenær sem það nú yrði, þyrftu menn að hafa tilbúið frumvarp um að breyta 79. gr. Það verður að breyta 79. gr. Því miður misstu menn af því tækifæri við síðustu kosningar að breyta eingöngu 79. gr. sem ég tel að hefði verið mjög brýnt, t.d. vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið, þjóðin getur ekki greitt um þær atkvæði, aldrei. Menn eru að tala um að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur ekkert að segja vegna þess að svo kemur Alþingi saman og þingmenn greiða atkvæði um aðildina eftir að þjóðin er búin að greiða atkvæði um hana og þá er hver einasti þingmaður bara bundinn af sannfæringu sinni samkvæmt stjórnarskránni. Ég hef nefnt það hér mörgum sinnum að þingmenn sem eru mjög hlynntir því að ganga í Evrópusambandið munu sko ekki greiða atkvæði gegn því þó að þjóðin hafi samþykkt með 51% atkvæða að fara ekki í Evrópusambandið (Gripið fram í.) — vegna þess að menn eiga að fara að sannfæringu sinni, með tilliti til þessa frammíkalls. Ég fer ekkert að breyta um sannfæringu, ég er ekki þannig gerður að mín sannfæring breytist við það þjóðin greiði atkvæði á þennan veg eða hinn. Það hefur ekki áhrif á mína sannfæringu. Það getur vel verið að það hafi áhrif á sannfæringu einhverra en ég gef ekki mikið fyrir þá sannfæringu ef hún sveiflast eins og strá í vindi eftir því hvernig þjóðin greiðir atkvæði. Stjórnarskráin segir að menn eigi að fara að sannfæringu sinni og ekki að boðum frá kjósendum sínum. Núverandi stjórnarskrá er því mjög gölluð því að hún leyfir ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu með neinum undantekningum.

Þegar hrunið varð haustið 2008 mynduðust í kjölfarið miklar hreyfingar meðal fólks. Það voru mikil mótmæli hérna úti á Austurvelli og það var mikil gerjun í gangi. Ég batt við það ákveðnar vonir, frú forseti, að nú væru menn tilbúnir til að gera ákveðnar breytingar á mörgum mismunandi sviðum, að menn væru tilbúnir til að breyta mörgu sem mér finnst ekki vera í lagi í þjóðfélaginu og eitt af því er stjórnarskráin. Hér er komið frumvarp um að breyta stjórnarskránni og það er kannski afleiðing af þessu og í sjálfu sér ágætt. Það sem ég get ekki séð er hvernig menn ætla að breyta stjórnarskránni og hafa stjórnlagaþing nema það sé bara upp á punt vegna þess að menn eru ekki búnir að breyta 79. gr. Það getur enginn breytt stjórnarskránni nema Alþingi sjálft. Þannig að ég held að menn eigi að hverfa frá þessari hugsun um stjórnlagaþing vegna þess að það er eins og hver önnur samkunda sem gerir ályktanir sem Alþingi tekur til velviljaðrar skoðunar og gerir á þeim breytingar eða hvað það nú er og samþykkir eða fellir. Þessi samkunda hefur ekki stjórnlagavald og getur ekki haft það nema við breytum 79. gr.

Fyrir nokkrum árum fór í gang mikil vinna um breytingu á stjórnarskránni undir forustu fyrrverandi hæstv. ráðherra, Jóns Kristjánssonar. Þar var unnið mjög vel. Haft var mikið samráð við fjölda fólks og mér finnst að menn eigi að nýta þá reynslu að einhverju leyti. Mér finnst að menn eigi að kjósa einhvern hóp manna til ritstjórnar. Það eru hugmyndir okkar sjálfstæðismanna að hópur manna verði settur í að ritstýra verkinu. Síðan yrði haldinn þjóðfundur þar sem menn gætu verið kosnir jafnvel með tilviljanakenndu úrtaki. En áður en menn gera það, frú forseti, verða menn að tryggja að þeir sem í úrtakinu eru hafi einhvern áhuga á málinu. Þess vegna held ég að fyrsta ferli ætti að vera að láta alla Íslendinga sem hafa áhuga á málinu tilkynna það til einhverrar skrár: Ég hef áhuga á málinu, ég vil vera í úrtakinu sem valið er úr. Segjum að það komi kannski 10.000–20.000 manns sem eru tilbúnir til þess að taka þátt í svona starfi og vinna að því. Það er nefnilega mjög slæmt ef við færum að taka upp úr allri þjóðskránni eitthvert fólk sem hefur bara akkúrat engan áhuga á þessu, hefur kannski áhuga á fótbolta — er ekki fótbolti núna? Eða hefur áhuga á einhverju allt öðru og engan áhuga á stjórnarskrá, lögfræði eða einhverju slíku eða grundvallarkenningum. Ég mundi byrja á því að láta þá sem vilja tilkynna áhuga sinn. Svo yrðu dregnir úr þeim hópi með tilviljanakenndum aðferðum 2.000 manns sem tækju að sér ákveðna vinnu við að forma eða koma með einhverjar hugmyndir, t.d. að ræða þessa hugmynd mína um að stjórnarskráin gæti aðallega að mannréttindum. Þegar þessi hópur er búinn að móta einhverjar hugmyndir þá færu þær bara út á netið í almenna umræðu, eins og þjóðfundurinn var. Það var bara ágætissamkunda og mjög vel lukkuð. Ég mundi vilja eitthvert svona ferli og þessi hópur manna, einhverra 2.000 manna, gæti svo kosið úr sínum röðum einhvern þrengri hóp sem mundi vinna með ritstjórninni sem væru sérfræðingar á þessu sviði og tækju við tillögum og gagnrýndu þær og samræmdu, því að það þarf náttúrlega að vera samræmi í þeirri stjórnarskrá sem kemur upp. Það dugar ekki að koma með stjórnarskrá sem er út og suður. Þegar þessi vinna hefði farið í gang og væri búin kæmi fram á Alþingi einhver niðurstaða sem vonandi væri mjög góð samstaða um í þeim hópi Íslendinga sem hefði áhuga á stjórnarskránni. Mætti jafnvel greiða atkvæði um einstök atriði á netinu af hópi þeirra sem hefði áhuga á málinu. Þannig mætti þróa málið fram til þess að vera heilsteypt stjórnarskrá sem mjög góð samstaða væri um. Svona ætti að vinna þetta. Svo kæmi það inn í Alþingi.

Fyrst þyrftu menn að breyta 79. gr., frú forseti. Ég sé ekki annað. Það getur vel verið að fljótlega verði kosningar ef þessi ríkisstjórn gefst upp á limminu og þá ættu menn að hafa tilbúna — ég ætla að skora á hv. þingmann að hafa tilbúna breytingu á 79. gr. þannig að ef það skyldu verða kosningar fljótlega gætu menn kosið um það og þá værum við búin að opna möguleika á því að þjóðin gæti sjálf breytt stjórnarskránni, í alvöru.

Þegar þetta starf er búið og þessi 10.000–15.000 manns sem hafa áhuga á þessum málum eru búin að móta einhverja niðurstöðu sem sæmileg sátt er um, kæmi það sem er ritstýrt af þessum kjörnu sérfræðingum til Alþingis og þar sem það er sæmileg sátt um það þá ætti líka að vera sæmileg sátt um það hjá alþingismönnum. Þeir geta þá sent stjórnarskrárbreytinguna til þjóðarinnar með því að nota 79. gr. sem er væntanlega búið að breyta. Við verðum því miður að breyta henni áður. Hitt er allt of þunglamaleg aðferð til að gera breytingar á stjórnarskránni. Þannig að þetta eru svona mínar hugmyndir um hvernig stjórnarskráin eigi að líta út og hvernig ferlið eigi að vera.

Núgildandi stjórnarskrá er mjög gölluð að mörgu leyti. Maður sér skína í gegn að hún var ætluð kóngi sem hafði misst völdin. Hann mátti gera þetta og hitt en svo var allt tekið til baka í einni grein þannig að hann mátti í rauninni ekki gera neitt. Svo þegar Íslendingar tóku upp stjórnarskrána hafa þeir sennilega bara þýtt úr dönsku yfir á íslensku og forsetinn hefur enn þá stöðu konungs. Hann var t.d. lengi vel skattfrjáls sem segir mér ekkert annað en það að hann hafi verið ígildi konungs í einhverri allt annarri stjórnarskrá sem var hönnuð og búin til fyrir eitthvert allt annað þjóðfélag en Ísland. Íslendingar þurfa ekki konung. Ég hef jafnvel sagt og flutt um það frumvarp að þeir þurfi ekki einu sinni forseta. Þeir eru þannig sinnaðir, Íslendingar, að þeir þurfa hvorki konung né forseta, þeir þurfa enga svona yfirmenn. Ég hef flutt um það frumvarp að forsetaembættið verði lagt niður og verkefni forsetans flutt til forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar, til skiptis jafnvel. Þetta finnst mér að menn ættu líka að ræða í tengslum við nýja stjórnarskrá, að losa okkur við þessar leifar frá konungsveldinu og hefur það ekkert að gera með núverandi forseta lýðveldisins.