Stjórnlagaþing

Laugardaginn 12. júní 2010, kl. 11:23:01 (0)


138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:23]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir lýsa ánægju minni með að málið skuli komið svona langt í þessu ferli. Það hefur tekist prýðilega góð samstaða í allsherjarnefnd um vissar breytingartillögur þannig að þær breytingartillögur sem lágu upphaflega fyrir í 2. umr. verða kallaðar aftur og nýjar koma í staðinn sem allsherjarnefnd flytur að mestu leyti samhljóða.

Eins og komið hefur fram eru allir sammála um það meira og minna að mikilvægt er að fara í endurskoðun á stjórnarskránni þó að menn kunni að greina á um hvaða þættir það eru sem þurfa endurskoðunar við. Ég fagna því sérstaklega að það ferli sem hér er lagt upp með kallar á mikið og breitt samráð úti í samfélaginu, samtal við þjóðina, og ég held að þannig eigi að standa að endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þess vegna fagna ég því skrefi sem hér er tekið.