Aðgerðir í skuldamálum

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 10:02:39 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

aðgerðir í skuldamálum.

[10:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar skrifar mjög góða grein í Fréttablaðið í dag. Hv. þingmaður er formaður efnahags- og skattanefndar og hefur verið mörgum öðrum stjórnarþingmönnum fremur með skoðanir í efnahagsmálum sem hafa að mínu mati verið í samræmi við tilefnið, í samræmi við það sem þarf. Hann hefur grein sína, með leyfi forseta, á orðunum:

„Alþingi afgreiðir nú endurbætt og vönduð úrræði fyrir verst settu skuldarana. Einar sér eru slíkar lausnir þó líkt og að bera sólarljós inn í gluggalaust hús, því hætt er við að án víðtækra almennra skuldaleiðréttinga bætist við ný vandamál jafnharðan og leysist úr hinum eldri.“

Þarna tek ég undir hvert orð, frú forseti. Spurningin er hvort hæstv. forsætisráðherra sé sammála þessu mati því að það er ekki einungis hv. formaður efnahags- og skattanefndar Helgi Hjörvar sem hefur komið fram með slíkar skoðanir að undanförnu, heldur líka hv. formaður viðskiptanefndar Lilja Mósesdóttir. Formenn beggja meginefnahagsmálanefnda þingsins eru nokkurn veginn sammála um mikilvægi þess að ráðast í almennar aðgerðir í skuldamálum og einnig sammála um það, eins og færð eru ágæt rök fyrir í grein Helga Hjörvars, að möguleikinn sé til staðar, það sé hægt að ráðast í slíkar aðgerðir. Hv. þm. Helgi Hjörvar leggur til að þingmenn úr öllum flokkum vinni saman að útfærslunni. Það hljómar ákaflega vel því að það er í samræmi við tillögur framsóknarmanna um þjóðarsáttartillögur sem ganga einmitt út á að menn vinni saman að almennri skuldaleiðréttingu.

Er hæstv. forsætisráðherra sammála mati hv. formanns efnahags- og skattanefndar og hv. formanns viðskiptanefndar og þingmanna Framsóknarflokksins í skuldamálum?