Niðurfellingar skulda

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 10:23:47 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

niðurfellingar skulda.

[10:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Að reyna að sannfæra ríkisstjórnina um nauðsyn almennra aðgerða á lánamarkaði hefur verið dálítið eins og að berja á dyr á húsi eða hringja dyrabjöllu og það kemur aldrei neinn til dyra. Við vitum að það er fólk þarna inni og sum okkar hafa farið upp á þak með rör á bárujárnið til að reyna að vekja fólkið. Einhverjir eru kannski að reyna að grafa göng til að komast þarna inn eða hrópa inn um lúguna alls konar skilaboð og við höfum fengið út alls konar skilaboð á móti. Einstaka þingmenn vilja fara í almennar aðgerðir. Hæstv. félagsmálaráðherra opnaði rauf á dögunum og sagðist vera til í almennar aðgerðir varðandi bílalánin. Við fögnum því og erum að reyna að tala við hann í gegnum raufina um það. Um daginn kom heimilispakki út um lúguna. Það eru greiðsluaðlögunarúrræði og við höfum tekið þeim pakka fagnandi og reynt að gera sem mest úr honum vegna þess að það liggur alveg fyrir að grípa þarf til sérstakra úrræða til að mæta þörfum þeirra sem eru allra verst settir. En eftir stendur alltaf sú spurning og við höldum áfram á dyrabjöllunni til að fá svör við henni: Fer ríkisstjórninni í heild sinni ekki að skiljast að það þarf auðvitað að mæta hinni almennu kjararýrnun sem orðið hefur á Íslandi eftir fall fjármálakerfisins? 30% verðbólga hefur hækkað höfuðstól lánanna allra jafnt. Hver á að bera þessar byrðar? Þess vegna þurfum við að fara í almennar aðgerðir.

Núna gerðist það að einn hv. þingmaður, hinn lipri og skeleggi formaður efnahags- og skattanefndar, náði að laumast fram hjá dyravörðunum og opnaði hurðina upp á gátt. Nú blasir við spurningin: Ætla fleiri að koma í dyragættina? Eigum við að ræða saman um þetta mál? Eigum við að fara í almennar skuldaleiðréttingar? (Forseti hringir.) Eigum við að reyna að fara í það verkefni að létta byrðum af skuldum hlöðnum almenningi? Er hæstv. félagsmálaráðherra reiðubúinn að koma út í sólina (Forseti hringir.) líka? Eigum við að ræða saman?