Niðurfellingar skulda

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 10:28:15 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

niðurfellingar skulda.

[10:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég geri mér strax grein fyrir því að líkingamálið um að félagsmálaráðherra ætti að koma út í sólina er auðvitað dálítið fyndið í ljósi þess hve hann er brúnn og eins var eftir því tekið að hæstv. félagsmálaráðherra þagði algerlega þegar við greiddum atkvæði gegn ljósabekkjum á dögunum, en það kann að vera að hann hafi verið inni í ljósum. Það er mín kenning en hann er alla vega reiðubúinn að koma aðeins í gættina, sýnist mér. Ég vil benda á að sá sem kom til dyra í morgun og opnaði upp á gátt, hv. formaður efnahags- og skattanefndar, og hv. formaður viðskiptanefndar hafa ásamt okkur í Framsóknarflokknum, sem ekki höfum gert dyraat heldur staðið fyrir utan og reynt að komast inn, bent á leiðir til að gera þetta án þess að kostnaðurinn lendi á ríkissjóði. Nú síðast gerði hv. formaður efnahags- og skattanefndar það. Núna var bent á leiðir í gegnum samning Seðlabanka Íslands við seðlabanka í Lúxemborg þar sem m.a. er verið að kaupa skuldabréfapakka sem inniheldur íbúðalán. (Forseti hringir.) Af hverju eigum við ekki að láta þessi góðu kjör á kaupum á þessum skuldabréfum, eins og í tilviki uppgjörs bankanna, renna jafnt til þeirra sem þurfa mest á aðstoð að halda, sem eru íslenskir skuldarar?