Fjölgun dómsmála

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 10:35:30 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

fjölgun dómsmála.

[10:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna því sem fram kom í máli hæstv. dómsmálaráðherra að vinna við tillögugerð í ráðuneytinu sé hafin til að taka á þeim vanda sem uppi er í dómskerfinu. Mér fannst það athyglisverð yfirlýsing hjá hæstv. ráðherra að hún teldi óhjákvæmilegt að koma á fót millidómstigi. Ég hlakka til að sjá hugmyndir hæstv. ráðherra um það. Að minnsta kosti er alveg ljóst að það þarf að bregðast við. Komið er fram á sumar og bæði dómstólarnir og borgarar landsins þurfa að vita hvert stefnir varðandi dómstólana. Eins og ég sagði áðan er alveg ljóst að réttarkerfið mun ekki ráða við fjölgun mála verði ekkert að gert. Það mun koma niður á málshraða, það mun draga úr (Forseti hringir.) réttaröryggi og mikil hætta verður á mistökum. Eitthvað mun láta undan við þær aðstæður sem nú eru uppi.