Sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 10:38:49 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

508. mál
[10:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Af því að mikið gengur á hér á síðustu dögum þingsins og við þurfum vissulega að afgreiða mál hefur það auðvitað í för með sér að við þingmenn eigum erfitt með að vera alltaf í þingsal og á nefndarfundum og jafnframt að undirbúa okkur í ýmsum málum. Því hef ég því miður ekki átt þess kost að tjá mig í þessu máli fyrr en nú. Ég er ekki með athugasemdir við frumvarpið sjálft en vil benda á að í framhaldinu sem þarf að verða í þessu máli þarf að skoða fleiri hluti en sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Til að mynda hefur samskiptum sveitarfélaga við fasteignamat og sýslumannsembættin verið verulega ábótavant og verulegur misbrestur er á því að sömu skráningarnar séu hjá þessum aðilum, þ.e. þinglýstar eignir hjá sýslumannsembættunum, fasteignaskrár, og síðan í þokkabót jarðaskrá sem liggur inni í landbúnaðarráðuneytinu.

Ég vildi koma upp og benda á að í framhaldinu við þessa vinnu — reyndar kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að sameinuð Þjóðskrá og Fasteignaskrá gæti orðið grunnur að nýrri stofnun sem tæki við rekstri fleiri grunnskráa ríkisins og samhliða mætti færa stjórnsýsluverkefni og ýmis verkefni á sviði skráningar og afgreiðslu til sýslumannsembættanna á landsbyggðinni — ég vildi bara koma upp og benda á að þetta er atriði sem þyrfti að kanna. Í þessu máli, eins og svo mörgum öðrum, væri oft betra að gefa sér aðeins meiri tíma til að fara yfir málin þannig að við gætum unnið þau betur. En það gerir það ekki að verkum að þetta einstaka frumvarp geti ekki út af fyrir sig verið ágætt en það þarf þá að breyta því og bæta inn í það verkefni strax á næsta hausti.