Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 11:17:51 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jafnan leggur nú hv. þingmaður (Forseti hringir.) gott til málanna þegar verið er að ræða … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir hæstv. utanríkisráðherra á að ávarpa forseta á viðeigandi hátt.) [Hlátur í þingsal.]

Frú forseti. Ég bið forseta … Herra forseti. Ég bið … [Hlátur í þingsal.] Ég bið forseta forláts á því að hafa — sem er algjörlega úr takti við mína menntun — kyngreint hann rangt. [Hlátur í þingsal.]

Ég ætlaði að hefja mál mitt með því að segja að jafnan leggur nú hv. þm. Einar K. Guðfinnsson jákvætt til málanna þegar við ræðum vegabætur á Vestfjörðum og víðar. Ég er ekki alveg sammála honum um að það sé hægt að hrapa að þeirri ályktun að það séu ekki til peningar fyrir þessu. Ég vek athygli á því að hv. þingmaður nefndi það sjálfur að þingmenn kjördæmisins hefðu komið saman til þess að skoða hvort hægt væri að hnika til fjármunum úr Drangsnesveginum til þessa verks. Hann sagði að menn hefðu ekki komist að niðurstöðu. Þeir ætluðu að bíða átekta. Hugsanlega yrðu útboð það hagfelld að hægt væri að skáskjóta einhverjum peningum í þetta.

Ég hef orð ekki ómerkari manns en ritara samgöngunefndar í Árneshreppi fyrir því að þetta kosti innan við 200 milljónir. Við vitum það nú báðir tveir að annar eins maður og Oliver Lodge fer ekki með neina lygi, þannig að ég trúi þessu. Þetta skiptir mjög miklu máli. Ég held að þetta skipti sköpum um byggð í Árneshreppi. Þar er það nú svo, herra forseti, að þar fæðast börn og þar byggjast upp fyrirtæki. Það er uppgangur þar. Það skiptir máli að halda áfram vaxandi uppleið. Það er úrslitaatriði að þessar vegabætur komi um Veiðileysuhálsinn.

Ég skora á hv. þingmann að beita sér fyrir því. Ég veit að hann hefur vilja til að reyna og við í sameiningu að þvinga hæstv. samgönguráðherra til að finna þessa peninga einhvers staðar til að ráða bót á þessu máli.

Svo þakka ég fyrir orðið, herra forseti.