Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 11:22:45 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem að öllu jöfnu hefur verið eitt af heitu málunum í sölum Alþingis í gegnum tíðina, þ.e. samgönguáætlun og skipting fjármuna til vegaframkvæmda. Nú bregður svo við að tónninn í umræðunni er aðeins lágstemmdari. Það er væntanlega vegna þess að þingmenn, hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn gera sér grein fyrir því að minna fé er til skiptanna í vegaframkvæmdir. Það er alveg ljóst að framkvæmdir í vegamálum og samgöngubætur eru þjóðhagslega hagkvæmar. Þær skapa atvinnu á framkvæmdatíma, auðvelda samgöngur og eru greiðfær leið um landið. Þetta er stórt atriði í framtíðaruppbyggingu landsins. Okkar helstu atvinnuvegir, hvort sem það eru ferðaþjónustan, sjávarútvegur eða annað, byggjast meira og minna á greiðum samgöngum um landið.

Það er mikilvægt að í þessari umræðu og áætlunum sem lagðar eru fram sé tekið tillit til þess sem gjarnan er nefnt byggðaþróun. Hún er ein af þeim forsendum eða markmiðum sem lagðar eru til grundvallar í samgönguáætlun.

Það er eðlilegt að hér hafi verið töluvert rætt um Vestfirðina. Ekkert annað landsvæði þarf jafnmikið á úrbótum að halda til þess að geta staðið jafnfætis öðrum byggðarlögum. Ég er ekki að segja að samgönguúrbætur á höfuðborgarsvæðinu sé síður mikilvægar. Hér þarf að létta á umferð. Ef byggðamál eiga að skipta miklu í þessari áætlun og í aðgerðum ríkisvaldsins, er alveg ljóst að það þarf að reikna það með í þær framkvæmdir sem fara á í. Vil ég, eins og fleiri ræðumenn, nefna t.d. veg nr. 60 vestur á Barðaströnd. Það er alveg með ólíkindum núna árið 2010 að þarna skuli fjöldi fólks í stórum byggðarlögum varla vera tengdur öðrum landshlutum með þokkalegum vegasamgöngum stóran hluta ársins.

Herra forseti. Ég ítreka það að hér er ekki eingöngu um að ræða málefni ríkisstjórnarinnar sem nú situr. Fyrri ríkisstjórnir hafa ekki síður „klikkað“ ef ég má orða það þannig. Þær hafa ekki staðið sig gagnvart þeim íbúum sem þarna búa. Því er ráð að bæta úr. Komið hafa fram hugmyndir og frumvarp hefur verið lagt fram um úrbætur á þessum vegi. Það er mat okkar sem málið flytja að ekki verði lengur við unað. Taka verður af skarið. Ríkisvaldið verður að segja með skýrum orðum hvað á að gera fyrir þennan hluta landsins.

Við vitum hvorki hvenær framkvæmdir hefjast né hvað vegaframkvæmdir munu taka langan tíma. Á meðan þurfum við að tryggja samgöngur með öðrum hætti. Ég sakna þess svolítið að ekki skuli liggja ljóst fyrir hvernig tryggja eigi samgöngur meðan þessi hluti þjóðvegarins er í uppnámi. Ég vísa til ferjusiglinga yfir Breiðafjörð sem tengja þetta landsvæði. Það þarf að liggja klárt fyrir hvernig þær eru hugsaðar, a.m.k. þrjú til fimm ár fram í tímann. Þá geta íbúar verið öruggir um það hvernig að samgöngum verði staðið á meðan vegurinn er hvorki fær né opinn. Þá skiptir ferjan mestu máli.

Ég hvet ráðamenn til þess að gefa út skýr skilaboð um þær fyrirætlanir.

Það er hagkvæmt að fara í vegagerð í niðursveiflunni. Framkvæmdirnar kalla á töluvert af mannskap og tækjum. Ég held að við gerum okkur ekki grein fyrir ástandinu á verktakamarkaðnum. Verið er að flytja úr landi mikið að dýrum tækum sem búið er að fjárfesta í hér á landi síðustu ár. Eflaust er óhætt að minnka fjöldann eitthvað en við verðum að átta okkur á því að þegar kraftur kemur aftur í vegaframkvæmdir þarf að kaupa tækin aftur og að sjálfsögðu mun það kosta okkur gjaldeyri.

Að hafa (Utanrrh.: Ekki ef við kaupum þau frá Kína.) stöðug — ekki ef við kaupum þau frá Kína, hæstv. utanríkisráðherra. Þau eru væntanlega aðeins ódýrari þar, það er rétt.

Hins vegar verðum við að skoða þetta allt í samhengi. Ég tel, herra forseti, að skynsamlegt hefði verið að setja meira fé í mörg smærri verkefni en rætt er um í þessari þingsályktunartillögu. Þannig nær verktakamarkaðurinn og efnahagslíf okkar að vaxa, alla vega halda sér þokkalega við. Þannig að verkkunnátta, tæki og tól glatist ekki.

Mér þykir, herra forseti, heldur — frú forseti, fyrirgefið. Það er mjög slæmt þegar skipt er um forseta svona á miðri vakt eða í miðri ræðu, þegar karl skiptir við konu. Það getur orsakað bjölluhljóm ef maður gáir ekki að sér.

Samgönguáætlun er lögð fram fyrir árið 2009–2012. Eins og ég sagði áðan markast hún kannski af þeirri sýn sem ríkisvaldið hefur á möguleika til framkvæmda. Ég velti fyrir mér hvort sá sem situr nú og horfir yfir öxlina á ríkisstjórninni í öllum málum, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, hafi komið eitthvað að málum um það hvernig og hversu mikið við megum setja í vegaframkvæmdir. Það þarf miklu meira að koma til til þess að við höldum hér þokkalegum samgöngum.

Ég hef ekki nefnt flug, ætla að gera það á eftir.

Auðvitað er það eðlilegt að þingmenn og ráðherrar hafi áhuga á ákveðnum vegum eða vegspottum. Ég deili svo sannarlega vangaveltum sem hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson veltu á milli sín. Það eru ýmsar aðrar hættulegar leiðir með miklum umferðarþunga sem við keyrum í dag. Vil ég þar nefna, maður nefnir gjarnan það sem stendur manni næst, veginn frá Blönduósi og út á Skagaströnd. Sérstaklega frá Blönduósi að Þverárfjallsvegi. Þeir sem hafa ekið þann veg vita hversu hættulegur hann er. Hann er hæðóttur og mjór og í raun erfitt að mæta þar stórum bílum.

Síðan er það, frú forseti, þjóðvegur 1 sem við öll notum hvað mest. Við sem þvælumst á þjóðvegi 1 sýknt og heilagt oft í viku sjáum ástandið á þessum aðalþjóðvegi okkar. Hlutar hans þurfa gríðarlega mikið viðhaldsfé. Það er mikilvægt að horfa á það.

Sveitavegir gegna ákveðnu hlutverki. Þeir eru samgönguæðar sveitanna fyrir skólabörn, til þess að flytja tæki og tól, búfénað, ferðamenn og annað. Víða um land þarf mikið fé til þess að gera ásættanlega vegi. Því miður sýnist mér lítið horft til þessara mikilvægu vega.

Aðeins varðandi flugsamgöngur. Við höfum séð það í ljósi þeirra náttúruhamfara sem hafa orðið á síðustu missirum, sérstaklega eldgosanna, að náttúran hefur töluverð inngrip í flug og ferðaþjónustu. Ef ég man rétt var útlit fyrir að helstu millilandaflugvellirnir, þ.e. Akureyri, Egilsstaðir og hér á suðvesturhorninu lokuðust. Mikilvægt er að samgönguyfirvöld fari yfir það hvort ekki sé nauðsynlegt að ráðast í það að útbúa fleiri flugvelli sem geta tekið við millilandaflugi, ferðamönnum og inn- og útflutningi. þegar mest á reynir. Ég vil hvetja hæstv. samgönguráðherra til þess að skoða það sérstaklega hvort þörf sé á því.

Ákveðnar flugleiðir eru niðurgreiddar af ríkinu. Þær eru taldar mikilvægar fyrir byggðarlög og samgöngur. Einhverjir samningar renna út held ég núna á næstu missirum eða vikum. Það er mikilvægt að skoða vandlega hvort ekki sé full þörf á að styrkja áfram sumar flugleiðirnar. Á suðvesturhorninu eru ríkisstofnanir, opinberar stofnanir, Stjórnarráðið og helstu fyrirtæki sem fólk á landsbyggðin þarf að eiga í daglegum eða stöðugum samskiptum við. Það skiptir miklu þegar koma á á fót atvinnustarfsemi víða um land að þar séu góðar flugsamgöngur. Fækkun ferða getur haft áhrif á það hvort stofnanir og fyrirtæki á þessum stöðum lifi eða deyi. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að skoða þetta vandlega.

Í samgönguáætluninni er að sjálfsögðu farið vel yfir rekstrartölur. Ljóst er að verulegar tekjur koma inn í ríkissjóð með sköttum af bensíni og olíu og eðlilegt að það renni sem mest í vegagerð. Það hefur gjarnan verið eitt af kvörtunaratriðum þeirra sem eru í forsvari fyrir bifreiðaeigendur. Við þurfum að sjá til þess að sá hluti aukist.

Ég gleymdi því áðan þegar ég talaði um Vestfjarðaveg nr. 60, að eitt af markmiðum samgönguáætlunar er öryggi í samgöngum. Það var því mjög sérkennilegt að sjá, ekki sérkennilegt kannski ég ætla ekki að setja ofan í við Hæstarétt eða dómstóla, að umhverfisráðherra mætti ekki taka tillit til umferðaröryggis. Það er of flókið mál að rifja það upp hér enda ekki ástæða til þess. Það er hins vegar alveg ljóst að ákvörðunin er í samræmi við eitt af markmiðunum sem sett eru fram í þessari samgönguáætlun.

Frú forseti. Þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem eru með, ef ég man rétt, lengsta vegakerfið í kílómetrum talið, er hjartans mál eins og öllum öðrum þingmönnum að íbúar hafi mannsæmandi samgöngur. Því verður það ekki of oft sagt að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum verða í forgangi að fá mannsæmandi samgöngumannvirki. Ég veit að við stöndum saman. Það verður gert með einhverjum hætti. Það er ekki víst að allir verði sáttir við leiðina sem við þrír lögðum fram. Við erum sammála um það að þessi framkvæmd skiptir einna mestu máli.

Baráttan um að Dýrafjarðargöng verði að veruleika í nánustu framtíð má ekki gleymast. Göngin eru ekki síður mikilvæg samgöngubót og mikilvægt samgöngumannvirki til þess að tengja saman byggðir á Vestfjörðum með eðlilegum hætti. Það er svolítið sérkennilegt að þar sem sveitarfélög og stofnanir starfa saman þá er jafnvel auðveldara fyrir Suðurfirðina að starfa með Snæfellsnesi og sveitarfélögum þar. Það er bara jákvætt. Þið megið ekki misskilja mig, háttvirtir þingmenn. En við hljótum að leggja áherslu á það að innan þessa svæðis verði eðlilegar samgöngur. Við munum því leggja mikla áherslu á að sjá Dýrafjarðargöng verða að veruleika.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í þessari umferð. Ég ítreka það sem ég hef sagt hér að ég hefði viljað nálgast samgönguframkvæmdir með öðrum hætti, að settir yrðu meiri fjármunir í samgöngubætur. Þær eru atvinnuskapandi, skapa ríkissjóði tekjur, efla byggðir og treysta fyrirtæki. Hins vegar er það verkefni Alþingis og þeirra sem ráða á hverjum tíma að hafa áhrif á það hvernig forgangsröðun fjármuna er sett fram. Við eigum auðvitað að skiptast á skoðunum um það. Á þessum stutta tíma hef ég reynt að koma inn á skoðanir mínar á þessum málum. Ég vona að við eigum eftir að ræða um samgönguáætlun og hvernig við sjáum málin þróast. Öll hljótum við að vera sammála um það að samgöngur þurfa að vera með sem jöfnustum hætti fyrir alla Íslendinga. Það er lykillinn að búsetu í landinu.